Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ávarp flutt við borgaralega fermingu í Háskólabíó 29. mars 1998

Eftirfarandi ræðu flutti Hafsteinn Karlsson í fermingarathöfn Siðmenntar þann 29. mars 1998 í Háskólabíói.

Ágætu fermingarbörn, aðstandendur og aðrir gestir!

Að fermast er eins og að stökkva yfir girðingu.  Allt í einu er maður ekki lengur krakki, heldur eiginlega fullorðinn, en þó ekki.  Maður fær að gera sumt af því sem fullorðnir gera en annað ekki.  Þegar ég fermdist fyrir tæpum 30 árum þurfti ég að borga fullorðinsgjald í strætó og sund, ég mátti sitja með fullorðna fólkinu og taka þátt í samræðum þess, ég gat hætt að bera út blöðin á morgnana og fékk almennilega vinnu á sumrin, mamma hætti að fara með mig í strætó í bæinn til að kaupa föt á mig heldur fór ég einn og keypti það sem mér fannst flott og ég þurfti ekki fremur en ég vildi fara með pabba og mömmu í sunnudagabíltúr.

Þetta voru mikil viðbrigði.  Ekkert skipti mig þó eins miklu máli og kaffið.  Ég mátti nefnilega byrja að drekka kaffi strax daginn eftir ferminguna og ekkert fannst mér sýna jafn rækilega að hér væri næstum fullorðinn maður á ferð.   Ég fór að fá mér kaffi í tíma og ótíma.  Alltaf þegar fullorðnir gestir komu í heimsókn eða þegar ég var í heimsókn hjá frændum og frænkum.  Þegar ég heimsótti ömmu mína í fyrsta skipti eftir ferminguna náði hún í malt í ísskápinn en ég gerði henni ljóst að malt væri bara fyrir börn en ég myndi þiggja eins og einn kaffibolla ef hún væri með á heitt könnunni.  Mér þótti kaffi fremur vont á bragðið, næstum ódrekkandi en lét mig þó hafa það að svæla í mig hverjum kaffibollanum af öðrum til þess að sýna öllum að ég væri ekki lengur barn.  Ég þurfti að hella ókjöri af mjólk út í kaffið og sturta í það mörgum teskeiðum af sykri til að eyða kaffibragðinu.   Ég er næstum því viss um að fullorðna fólkið brosti út í annað yfir þessum kaffitilburðum mínum, en passaði þó að ég sæi ekki til.   Á sama tíma og ég svelgdi í mig sem flestum kaffibollum átti ég í mikilli innri baráttu.  Ég, fermdur maðurinn, gat ekki lengur farið í bílaleik úti með yngri bróður mínum og það þótti mér ákaflega leiðinlegt.  Fátt fannst mér eins skemmtilegt og að leika mér að bílum og þá gleði tók fermingin frá mér.   Og eftir ferminguna mátti maður helst ekki láta sjá sig á hjóli.  Það voru nefnilega bara börn sem hjóluðu um göturnar og ef fullorðinn maður sást á hjóli var hann alveg örugglega stórfurðulegur ef ekki bara skrýtinn.   Hjólið, sem áður var eins og gróið við mig, var sett inn í bílskúr og var seinna notað af yngri systkinum mínum.

Ég tók þessu öllu ákaflega alvarlega og ég held að vinir mínir hafi líka gert það.  Við lögðum kapp á að sýna að við værum fullorðnir, hættum að leika okkur en gengum um í flokkum og höfðum hátt.  Nýfengin karlmannsröddin gaf ærið tilefni til þess.  Við skoðuðum skeggstæði hvers annars og þegar fleiri en fjögur hár höfðu lengst meira en góðu hófi gegndi var ekkert um annað að ræða en að taka fram fermingarrakvélina, raksápuna og rakburstann.  Síðan var ráðist til atlögu fyrir framan spegilinn inn á baðherbergi og passað upp á að dyrnar væru opnar svo að sem flestir heimilismenn sæju hvað þar færi fram.  Fyrsti raksturinn var hátíðleg stund og ógleymanleg.  Ekki bara fyrir það hvað maður skar sig mikið, heldur að þegar hárvöxtur í andliti er orðinn það mikill að nauðsynlegt er talið að grípa þar inn í, þá er tekið stórt skref inn í fullorðinsheiminn.

Dyrnar inn í heim hinna fullorðnu opnast á fermingardaginn og það getur verið erfitt að fóta sig þar í fyrstu.  Taumlaus kaffidrykkja mín fyrstu dagana eftir fermingu gerðu mig hvorki merkilegri né þroskaðri en ég var.  Ég fékk hinsvegar hausverk og magapínu og svo lá ég andvaka næturnar eftir mikið kaffiþamb.  Raksturinn, þessi eftirsótti verknaður varð fljótlega að kvöð á hverjum morgni, fremur leiðinlegur en þó alveg nauðsynlegur.

Þegar líður frá fermingunni kemst aftur á jafnvægi í sálinni og maður nær áttum á ný.  Ég t.d. hætti svo til alveg að drekka kaffi og snéri mér aftur að mjólkinni og þegar amma bauð mér kaffi spurði ég hana hvort hún ætti ekki malt.   Fljótlega stendur maður frammi fyrir ýmiskonar ákvörðunum, sumum býsna afdrifaríkum s.s. eins og hvaða starf maður ætlar að leggja fyrir sig.  Það er því eðlilegt að á fermingardaginn beinist hugurinn að þeirri undarlegu skepnu, framtíðinni.  Þegar þið ágætu fermingarbörn farið út á vinnumarkaðinn verður liðið nokkuð fram á næstu öld.  Þó framtíðin sé óráðin er eitt alveg öruggt  og það er það að margt verður breytt frá því sem nú er.   Nákvæmlega núna ríða yfir einhverjar stórkostlegustu byltingar í langri sögu mannkyns.  Það eru erfðabyltingin og upplýsingabyltingin.  Framfarir í tækni og vísindum eru svo hraðar og miklar að hinn venjulegi maður nær ekki að fylgjast með.  En hann verður var við breytingarnar því þær hafa mikil áhrif á hann í daglegu lífi.   Tölvur auðvelda okkur sífellt fleiri dagleg störf bæði heima hjá okkur, í skólanum og vinnunni.   Læknavísindunum vex sífellt ásmeginn í baráttu við skæða sjúkdóma og læknar geta gert ótrúlegustu hluti.  Framfarirnar næstu tuttugu þrjátíu árin verða eflaust miklar, jafnvel meiri en þær hafa verið síðustu þrjátíu ár.  Þægindin aukast og fleiri og fleiri sjúkdómar heyra sögunni til.  Það mætti því ætla að þið ágætu fermingarbörn þurfið ekkert að hafa fyrir lífinu.  Þið getið lagst með tærnar upp í loft og beðið eftir hinni björtu framtíð sem færir ykkur þægindi og eilíft líf og mikla lífshamingju.

Þannig verður það ekki.  Sem betur fer þurfið þið að hafa fyrir lífinu, velja hvað þið viljið gera og hvernig lífi þið viljið lifa.  Á næstu árum takið þið stefnu sem eflaust mörg ykkar fylgið allt lífið.  Það er ekki bara námið í skólanum sem skiptir máli heldur ekki síður það sem þið gerið í frítímanum.   Allir vilja lifa vel, njóta velgengni og vera haminjusamir.   Þið spyrjið ykkur: „Hvað á ég að læra og hvernig á ég að haga mér til að njóta velgengni í lífinu?“  Hver og einn þarf að svara fyrir sig því engir tveir einstaklingar eru eins.  Við höfum svo mismunandi hæfileika og áhugi okkar beinist í ólíkar áttir.

Margir halda að peningar og hlutir geri mann hamingjusaman.  Þeir keppast við að verða sér út um sem mesta peninga til að geta keypt enn fleiri hluti.  Og stöðugt dynja á okkur auglýsingar um allskyns dót sem við eigum ekki að geta verið án, stöðugt er reynt að telja okkur trú um að við þurfum fleiri sjónvörp, nýrri tölvur, gsm síma, nýrri föt o.s.frv. Fjöldi fólks trúir þessu og fer í biðraðir fyrir utan nýja stórmarkaði til þess að ná sér í eitthvað, bara eitthvað sem selt er þar á tilboði.  Það er eins og fólk sé í keppni um að ná sér í hluti.  Og sá sem á flesta hluti þegar hann deyr – vinnur.   Sá sem tekur þátt í þessari keppni stjórnar ekki lífshamingju sinni.  Það gera stórmarkaðirnir og gylliboð þeirra.  Lífshamingja af þessu tagi verður aldrei alvöru lífshamingja.

Það eru alltaf einhverjir sem halda að efni sem koma manni í vímu færi manni gleði og hamingju.  Dópsalarnir bíða ykkar handan við hornið tilbúnir að selja ykkur dauðavarning sinn og þeir útmála fyrir ykkur hversu hættulaus hann sé og víman góð.  En þeim er alveg sama um ykkar hamingju og ykkar líf.  Þeim er alveg sama þó unglingur sem keypti af þeim dóp á laugardagskvöldi sé liðið lík á sunnudagsmorgni.  Vímuefni gera engan hamingjusaman en þau leiða mikla óhamingju yfir svo marga.

Lífshamingjuna er ekki að finna í hillum stórmarkaðanna og því síður í vösum dópsalanna.  Lífshamingjuna er ekki hægt að kaupa og hún er ekki til í pilluformi.  En við þurfum ekki að leita langt yfir skammt eftir henni.   Hana er nefnilega að finna í okkur sjálfum.  Lífshamingjan kemur innan frá.  Hún verður til þegar við gerum það sem okkur finnst skemmtilegt, þegar við tölum við gott fólk, stöndum okkur vel, gleðjum aðra, erum heiðarleg, sanngjörn og trygg vinum okkar og þegar við erum hugrökk.  Við eyðum henni þegar við eru óheiðarleg, svikul, grimm, ósanngjörn og vond.

Maður verður ekki fullorðinn við það eitt að fermast og það var ekki kaffidrykkjan í kjölfar fermingarinnar minnar sem gerði mig að fullorðnum manni né heldur raksturinn.  Þetta var þó pínulítill partur af því að fullorðnast en margir aðrir þættir spiluðu þar inn í og flestum þeirra stjórnaði ég.   Hver er sinnar gæfu smiður segir gamalt máltæki og það á við um okkur öll og ykkur líka.  Þið sjálf færið ykkur lífshamingju, gæfu og gott líf.  Þetta kemur ekki til ykkar bara si sona.  Þið fáið aðstoð foreldra ykkar, skólans og annarra til að ná þeim markmiðum sem þið setjið ykkur en enginn gerir það fyrir ykkur.    Þið þurfið að sýna frumkvæði og leggja ykkur fram.  Með því að koma vel fram við aðra,  hugsa vel um heilsuna  og velja ykkur starf í samræmi við áhuga leggið þið grunn að góðu og hamingjuríku lífi ykkar.  Lykilinn að ykkar lífi finnið þið í ykkar eiginn vasa.

Hafsteinn Karlsson

Til baka í yfirlit