Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Fyrsta gifting samkynhneigðra hjá Siðmennt

Fyrsta gifting samkynhneigðra hjá Siðmennt

Fyrsta gifting samkynhneigðra sem athafnarstjóri hjá Siðmenntar stýrði átti sér stað laugardaginn 11. ágúst. Það voru þær Jana Björk Ingadóttir og Jóhanna Kristín Gísladóttir sem giftu sig með persónulegri athöfn í viðurvist sinna nánustu, að morgni dags rétt fyrir Gay Pride gönguna. Það var ánægjulegt að Hörður Torfason, einn af 15 athafnarstjórum Siðmenntar og handhafi húmanistaviðurkenningar félagsins 2010, sá um athöfnina en hann er upphafsmaður réttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi. Siðmennt fagnar þessum tímamótaviðburði, enda hefur félagið alltaf stutt jafnréttisbaráttu samkynhneigðra.

 

Frá árinu 2008 hefur Siðmennt boðið upp á allar félagslegar tímamótathafnir fjölskylda á veraldlega vísu. Borgarleg ferming hefur unnið sér sterkan sess sem raunverulegur valkostur unglinga en þær hófust árið 1989. Á árinu 2013 verður því boðið upp á borgaralega fermingu í 25. sinn. Giftingum á vegum Siðmenntar hefur fjölgað stöðugt sem og nafngjöfum. Veraldlegar útfarir eru einnig góður valkostur fyrir trúlausa sem sífellt fleiri nýta sér. Megin áherslan í athöfnum á vegum Siðmenntar er hlýleiki, mannvirðing og gleði ásamt siðrænni hugvekju í anda siðræns húmanisma. Áhersla er lögð á að fjalla um einstaklingana í athöfninni og því eru athafnirnar afar persónulegar og innilegar.

Nánari upplýsingar veitir Svanur Sigurbjörnsson, umsjónarmaður athafnaþjónustu Siðmenntar í síma 896-3465 og Hörður Torfason, athafnarstjóri, í síma 898-1736.

Til baka í yfirlit