Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

773 nú skráðir í Siðmennt! Fjöldi félagsmanna meira en tvöfaldast á tæpu ári

Nú eru 773 félagar skráðir í Siðmennt, þar af 630 hjá Þjóðskrá. Mikil aukning hefur verið á félögum síðan Siðmennt hlaut skráningu sem lífsskoðunarfélag 3. maí 2013. Við upphaf árs 2013 voru skráðir félagsmenn rétt rúmlega 300.

Stjórn Siðmenntar vill þakka þeim sem hafa skráð sig fyrir veittan stuðning og hvetur aðra sem vilja styðja stefnu og þjónustu félagsins til að skrá sig og taka virkan þátt í félaginu. 

Starfsemi Siðmenntar í hnotskurn

Veraldlegt lífsskoðunarfélag
Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi, var stofnað 1990. Félagið er veraldlegt lífsskoðunarfélag, málsvari manngildisstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum.

Nánar um Siðmennt
http://sidmennt.is/skraning/

Veraldlegar/húmanískar athafnir
Siðmennt býður upp á veraldlegar athafnir við mikilvæg tímamót lífsins. Er hér átt við nafngjafir, giftingar, útfarir og fermingar.  Athafnir Siðmenntar eru  ekki byggðar á trúarlegum forsendum og þær fela ekki heldur í sér neinar hugmyndafræðilegar játningar af neinu tagi. Allir geta nýtt sér þjónustu Siðmenntar, líka þeir sem eru trúaðir og/eða tilheyra trúfélögum, ef þeir af einhverjum ástæðum óska eftir því að halda veraldlega athöfn. Fólk þarf ekki að vera skráð í Siðmennt til að nýta sér þjónustu félagsins og það þarf varla að ítreka að Siðmennt fer ekki í manngreinarálit þegar kemur að kynhneigð eða öðrum sérkennum.

Nánar um athafnaþjónustu Siðmenntar
Athafnaþjónusta

Trúfrelsi og veraldlegt samfélag
Siðmennt styður fullt trúfrelsi á Íslandi og hvetur því til aðskilnaðar ríkis og kirkju og mælir gegn öllum beinum afskiptum hins opinbera af trú- og lífsskoðunum einstaklinga.

Siðmennt telur að stjórnvöld eigi að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Siðmennt telur því að stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eigi ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram öðrum. Siðmennt vill því meðal annars að ríki og kirkja verði aðskilin að fullu.

Nánar um trúfrelsi á vefsíðu Siðmenntar
http://sidmennt.is/trufrelsi/

_________

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Hólm Gunnarsson – stjórnarmaður í Siðmennt
Sími: 898-7585. Netfang: siggi@sidmennt.is

773 nú skráðir í Siðmennt! Fjöldi félagsmanna meira en tvöfaldast á tæpu ári (PDF)

Til baka í yfirlit