Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanista- og fræðsluviðurkenningar Siðmenntar 2022: Öfgar og Krakkafréttir

Húmanista- og fræðsluviðurkenningar Siðmenntar 2022: Öfgar og Krakkafréttir

Á aðalfundi Siðmenntar þann 15. mars hlaut aðgerðarhópurinn Öfgar húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2022 fyrir baráttu sína gegn kynbundnu ofbeldi. Þá hlutu Krakkafréttir fræðsluviðurkenningu fyrir ígrundaðar fréttaskýringar fyrir börn.

Nánar um viðurkenningarnar

Öfgar

Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2022 hlýtur aðgerðahópurinn Öfgar. Í tilnefningunni þeirra sagði að hópurinn væri tilnefndur fyrir: “Kraft, þrautseigju og hugrekki í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.” Það er óhætt að fullyrða að þessi orð eigi vel við þeirra starf síðustu misseri, en hópurinn hefur verið með eindæmum ósérhlífinn og ljáð þolendum kynferðisofbeldis rödd í málum þar sem erfitt getur verið að stíga fram undir nafni.

Rætur hópsins liggja í þörf á mótvægi við rasisma, transfóbíu, fitufordóma og kvenfyrirlitningu á samfélagsmiðlinum TikTok. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Tanja M. Ísfjörð, einn stofnanda hópsins, að þær hefðu ætlað sér að vera “fyndnar á TikTok með smá ádeilu og fræðslu. Þetta átti ekkert að vera grafalvarlegt”.

Áherslur hópsins breyttust þó hratt og í dag líta þær á sig sem aktívista og aðgerðahóp. Hópurinn hefur beint sjónum sínum að aðstæðunum þar sem kynbundið ofbeldi fær að þrífast í og að veita þolendum kynbundins ofbeldis stuðning. Þá hefur hópurinn lagt áherslu á hversu mikil þörf er að laga réttarkerfið, gera það þolendavænna og berjast gegn gerendameðvirkni og nauðgunarmenningu.

Stjórn Öfga skipa þær Helga Ben, Hulda Hrund Sigmundsdóttir, Ninna Karla Katrínardóttir, Ólöf Tara Harðardóttir og Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir. Aðrir meðlimir hópsins eru Þórhildur Gyða, Ólafur Lárus, Sindri Þór og leyniöfginn.

Krakkafréttir

Krakkafréttir eru fréttaþættir fyrir börn á aldrinum 8-12 ára. Í Krakkafréttum eru m.a. almennar fréttir útskýrðar svo börnin geti fylgst með samtímaumræðunni og svo eru líka sérstakar fréttir fyrir börnin. Að útskýra fréttir á mannamáli og á áhugaverðan hátt fyrir þennan hóp getur verið mikil áskorun, og má segja að umsjónarfólk Krakkafrétta hafi lyft ákveðnu grettistaki í þessum málaflokki. Krakkafréttir eru t.a.m. notaðar í skólum víða um land og stundum finnst manni jafnvel eins og þeim takist betur að kjarna fréttir heldur en “alvöru” fréttamiðlar.

Meðal þess sem hefur verið tekið fyrir og útskýrt eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og allskyns samtímamál, eins og t.d. stríðið í Úkraínu og svo hafa loftslagsmálin verið sett í samhengi við þær samfélagslegu áskoranir sem skipta máli fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt er að unga kynslóðin þekki samtímamálin og þau séu útskýrð og sett í samhengi sem þau skilja og eru Krakkafréttir því mikilvægur vettvangur barna sem vilja fylgjast með samtímamálum á uppbyggilegan hátt.

Jóhannes Ólafsson, fráfarandi ritstjóri Krakkafrétta, veitti fræðsluviðurkenningunni viðtöku. Með honum á myndinni er Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar.

Til baka í yfirlit