Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Hugvekja Braga Páls

Hugvekja Braga Páls

Vetrarsólstöður

Í tilefni af vetrarsólstöðum hélt Siðmennt upp á Vetrarsólstöðuhátíð fimmtudaginn 21. desember. Bjarni Snæbjörnsson, Inga Auðbjörg Straumland og Jökull Jónsson fluttu okkur ljúfa tóna og Bragi Páll Sigurðarson flutti hugvekju. Við áttum saman yndislega kvöldstund og fögnuðum því saman að nú fer sólin að hækka aftur. Við hlustuðum á hugvekju sem minnti okkur á mikilvægi þess að sýna samkennd, nota röddina okkar til að halda áfram að berjast fyrir mannréttindum allra í heiminum og þó að tímarnir séu oft erfiðir þá megum við líka gleðjast. Eins og Bragi sagði svo vel „það að finna til með náunganum er það allra fallegasta sem við getum gert“. 

Gleðilegar vetrarsólstöður!

Hugvekja - Bragi Páll

Góðir gestir,

Við erum stödd í hjarta myrkursins. Sólin kemst ekki lægra. Rétt kíkir á okkur yfir sjóndeildarhringinn, þar sem við vöðum slabb og sundurtættan jólapappír með sósuslettu á sparifötunum og jólaglöggið sullandi með kvíðahnútnum í maganum, sikksakkandi milli yfirfullra akgreina, hugsanlega á leiðinni í krumlurnar á löggu sem mun svipta okkur ökuréttindum fyrir ölvunarakstur sem nær alltaf hæstu hæðum um þessar mundir, pírandi augun út um grútskítuga bílrúðuna af því rúðupissið var að klárast eins og alltaf á versta tíma og við eigum enn eftir að taka einn loka rúnt í blessaða Skeifuna. Það er alltaf eftir ein ferð í Skeifuna.

Þetta tímabil á hverju ári köllum við ýmsum nöfnum; Jól, Hátíð ljóss og friðar, sólstöður að vetri. Þá er líka hefð fyrir því að nota allskonar orð; Náungakærleikur, gjafmildi, samkennd. Við innrætum börnunum okkar að vera alveg sérstaklega góð í hjarta myrkursins, annars komi smáþjófar heim til þeirra og setji rótargrænmeti í skófatnaðinn þeirra. Við segjum þeim að vera góð hvert við annað, lána dótið sitt, stöðva óréttlæti, stríðni eða ofbeldi, standa með minni máttar. En það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Orðum verður að fylgja gjörð. Orð eru ódýr, eiginlega verðlaus, ef verkin fylgja þeim ekki eftir. 

Því á meðan við sitjum hér spariklædd og fögnum enn einni ferð okkar inn í hjarta myrkursins rignir sprengjum á saklaust fólk fyrir botni miðjarðarhafs. Fimmtíu milljón manns standa frammi fyrir hungursneyð í vestur- og mið Afríku. Konur og börn fátækra ríkja eru keypt og seld eins og búfénaður til ríkra vesturlandabúa í kynferðislega áþján. Skórnir okkar flestra eru saumaðir af börnum sem eru í þokkabót þrælar.

Allt þetta ofan í misskiptinguna, bilið á milli þeirra ríkustu og fátækustu, sem eykst með hverju ári. Stærstur hluti mannkyns eru launaþræla sem geyma börnin sín á stofnunum átta tíma á dag og ömmur sínar og afa á öðrum stofnunum síðustu æviárin til þess að vinna vinnu sem þau mæta einungis í til þess að eiga í sig og á. Fyrir grundvallar mannréttindum eins og þaki yfir höfuðið og mat á borðið. Þetta fyrirkomulag er nýtt í mannkynssögunni. Í tvöhundruðþúsund ár vorum við sem dýrategund saman, í hópum sem töldu hundrað til tvöhundruð. Við hjálpuðum hvort öðru þegar bjátaði á, gáfum með okkur, mat, húsnæði, hjúkruðum veikum og slösuðum. Samkennd, náungakærleikur, gjafmildi. En því hefur öllu verið breytt í söluvöru og slagorð og núna erum við stödd í hjarta myrkursins. Ein í litlum kössum með okkar nánasta. Hjörðin sem áður var er sundruð.

Það er gríðarleg gjá á milli þess samfélags sem við þykjumst vera, sem við hvetjum börnin okkar til að viðhalda, og þess samfélags sem við í raun og veru erum. Og hvernig réttlætum við þennan mun? Þessa gjá á milli orða og gjörða? Aðgerðarleysi okkar? Hvað útskýrir að við sem mannkyn horfum upp á þjóðarmorð í beinni útsendingu án þess að fyrsta viðbragð allra sé að öskra grátandi að þetta verði að stöðva samstundis. 

Svarið er öðrun. Við erum við, þau eru þau. Þjáning fólks í öðrum löndum kemur okkur ekki við. Sérstaklega ef þau eru öðruvísi á litinn. Sérstaklega ef þau trúa á ritningar sem okkur hefur verið innrætt að geri fólk vont. Sérstaklega ef búið er að útskýra fyrir okkur að þau eigi nánast þjáningar sínar skilið út af voðaverkum samlanda þeirra. Okkur er sagt að ástandið sé flókið. Skilja þurfi sögulegt samhengi til að skilja hvers vegna börn séu sprengd í tætlur. Og að við eigum nóg með okkur sjálf. Okkar fólk. 

Allt í lagi. Hvað erum við að gera svona mikið fyrir okkar fólk að við eigum enga samkennd aflögu fyrir þjáningu í öðrum löndum. Svarið er ekki neitt. Þar á önnur öðrun sér stað. Fátækt fólk og öryrkjar? Þau geta sjálfum sér um kennt, voru ekki nógu dugleg í skóla og eru eflaust að gera sér þetta allt saman upp, líklega löt, ekki nógu dugleg að vinna, ekki nógu dugleg að hífa sig upp úr volæðinu. Þurfa bara að leggja harðar að sér. Ekki mitt vandamál.

En heimilislausa fólkið? Þau bera líka sjálf ábyrgð á eigin ömurð og alls ekki okkar að hjálpa fólki sem getur ekki hjálpað sér sjálft. Þau hafa eflaust skapað ástandið með því að standa ekki við skuldbindingar sínar, með því að vera óábyrg í fjármálum, svo ekki sé talað um neysluna á fólkinu. Ekki okkar vandamál.

Já, hvað með fíklana okkar? Þau sem deyja á biðlistum undirfjármagnaðra heilbrigðisstofnanna, þau sem drepa sig eftir að hafa verið send heim ítrekað af undirfjármagnaðri geðdeild. Þau sem verða úti, köld, einmana, uppfull af sársauka og sektarkennd. Orðræðan er að þau skorti viljastyrk. Það fólk hefur greinilega ekki kynnst fíklum eins og ég, því þeir eru allra viljasterkasta fólkið. Enda er viljastyrkur álíka líklegur til þess að lækna fólk af fíknisjúkdómum eins og krabbameini. En okkur er sagt að þeirra fíkn sé sjálfsköpuð. Þau fengu sér jú of mikið af víni og dópi og geta ekki hætt. Ekki okkar vandamál.

“Tilgangurinn með áróðri er að láta einn hóp af fólki gleyma því að annar hópur af fólki séu manneskjur,” sagði rithöfundurinn Aldous Huxley. Forsenda átaka og hunsunar er akkúrat þetta. Öðrun. Afmennskun. Áróður. Án þess gætum við aldrei horft upp á ömurð systkina okkar, úti í löndum og hér á Ísland, án þess að bregðast við.

Afmennskunin er útskýringin á viðbragðsleysi okkar við þjáningum annarra. Okkur er markvisst kennt að slökkva á samkenndinni. Hugsa um okkur sjálf. Vinna einmanaleikann í burtu. Kaupa einmanaleikann í burtu. Ferðast einmanaleikann í burtu, helst til heitari landa með fallegum ströndum. Og þannig molum við samkenndina í burtu. 

Ef við ætlum að kalla okkur húmanista þá þurfum við að hafna hverskonar dogmatík, sama hvaða hatta hún setur upp. Trú á yfirnáttúrulegan mátt einskorðast nefnilega ekki aðeins við trúárbrögð, því þjóðfélagi okkar og hinum vestræna heimi hefur undanfarna áratugi verið stýrt af fólki sem trúir á yfirnáttúrulega hæfileika markaðarins til þess að leysa öll vandamál. Að ef við setjum öll eggin okkar í körfu allra ríkasta fólksins í heiminum þá muni allir græða. 

Sú tilraun hefur nú verið gerð á mannkyninu frá stríðslokum. Niðurstöður þessarar blindu trúar á markaðin eru margvíslegar. Mannkynið framleiðir til dæmis nægt magn af mat til þess að fæða alla heimsbyggðina margoft, en stór hluti fæðunnar endar á ruslahaugum því það hentar markaðnum alls ekki að gefa matinn. Ekki einusinni hungruðum. Tíu prósent mannkyns fara svöng að sofa, rúmar áttahundruð milljónir einstaklinga, og sú tala eykst ár frá ári. Af því matur er söluvara en ekki mannréttindi. 

Við eigum lyf við flestu sem hrjáð getur mannslíkamann en fjórðungur allra dauðsfalla í heiminum er vegna læknanlegra sjúkdóma hjá fólki sem fékk ekki aðhlynningu við hæfi. Af því lyf eru söluvara en ekki mannréttindi. 

Talið er að tuttugu prósent mannkyns hafi ekki aðgang að viðeigandi húsnæði á sama tíma og heilu borgirnar standa auðar af því ekki finnast kaupendur af þeim. Fyrir hverja einustu heimilislausu manneskju í Bandaríkjunum standa sex auðar íbúðir, vegna þess að húsnæði er söluvara en ekki mannréttindi. 

Svo er það Gaza. Undir borginni og við strandlengu hennar er olía og gas sem Bandaríkjamenn og þeirra útlimir þrá að ná yfirráðum yfir. Það er rót þjáningar bræðra okkar og systra fyrir botni miðjarðarhafs. Fíkn vesturlanda í olíu. Undir Gaza er falin söluvara og þá skipta mannréttindi engu máli.

Og athugið að blind trú á valdakerfi nær yfir þau öll. Alla dogmatík. Ég er ekki að benda á galla auðræðis til þess að predika aðra lausn. Alltaf þegar okkur er kennt að töfralausnir muni bjarga okkur er nær öruggt að óheft fylgispekt mun leiða til glötunar. Beint inn í hjarta myrkursins.

Og núna erum við einmitt komin inn í hjarta myrkurs þessarar hugvekju minnar. Hún verður ekki mikið daprari, svo nú þarf ég að fara að moka einhverju af þessum flór út. Segja ykkur að það sé von. Vekja huga í hugvekju.

Og það er ekkert mál. Það er til von. Hún heitir samkennd. Og samkenndin á engin fórnarlömb. Það að finna til með náunganum er það allra fallegasta sem við getum gert. Miklu svalara en Teslur og fermetrar. Þrátt fyrir það hefur neysluhyggjunni tekist að heilaþvo okkur. Að hlutir, eignir og auður séu eitthvað til að stefna að. Tilgangur jarðvistarinnar. Að auður geri fólk verðugt og gott. Að völd fari betur í höndum þeirra sem eiga peninga. Þessum sama heilaþvætti hefur tekist að rækta úr okkur samkenndina. 

Frelsi einstaklingsins innifelur í sér frelsið til þess að hunsa sársauka sem er á okkar valdi að lina. Við höfum tekið þátt í, án þess að vita eða samþykkja endilega, því að normalísera þjáningu samborgara okkar. Það er þægilegt að hugsa til þess að við berum ekki ábyrgð á henni. En það er bara hálfur sannleikur. Hinn helmingurinn er samkenndin.

Af því við erum hérna, á þessari plánetu, saman - og á sama tíma alein. Við snúumst í hringi á sextánhundruð kilómetra hraða á hálfbráðnum grjóthnullung sem er að mestu hulin saltvatni að dúndrast í gegnum geiminn á hundrað og sjö þúsund kílómetra hraða í kringum logandi gasbolta úr vetni og helíum og við erum ein. Alein. En samt saman. Það er enginn að fara að koma og hjálpa okkur. Við verðum að hjálpa okkur sjálf. Hvort öðru.

Og við erum dýr, ekki einhver háheilög vera útvalin af persónu með grátt skegg sem situr á skýi og barnar konur fyrirvaralaust  og þurrkar svo út sköpunarverkið þegar það fer í taugarnar á henni. Við erum dýr. Apar. Og búum enn að mjög miklu af þeirri forritun sem gerir okkur að dýrum. Við elskum að vera í hóp en þurfum stundum að vera ein. En einn api úti á gresjunni mun deyja og skilja eftir sig beinahrúgu. Tveir apar á gresjunni hins vegar eiga möguleika á að fjölga sér og skilja eftir sig hjörð innræktaðra og furðulegra apabarna. Og hjörð af öpum hefur rými fyrir allskonar frávik. Hjörð sem veit að ef hópurinn passar upp á þau sem veikjast, slasast, eldast eða geta ekki starfað þá er hópurinn sterkari fyrir vikið. Og þessi hópur skilur eftir sig samfélag byggt á samkennd fyrir næstu kynslóð til þess að taka við.

Það er kannski flókið að vera manneskja en það er ekki flókið að vera mennsk. Að finna til með fólki. Það er mun meira átak að loka augunum, horfa undan og trúa því að þjáning annarra tilheyri okkur ekki. 

En af hverju, spyrjið þið ef til vill, er Bragi að reyna að eyðileggja jólin fyrir okkur. Hvers vegna er sólstöðu hugvekjan hans svona niðurdrepandi? Ég skal segja þér það, vegna þess að þegar við sjáum óréttlæti verðum við að segja eitthvað. “Það eina sem er nauðsynlegt til að hið illa sigri er að gott fólk geri ekki neitt,” sagði írski heimspekingurinn Edmund Burke. Ef við lítum undan þá samþykkjum við óréttlætið. Tökum þátt í því. En um leið og við andmælum tökum við örskref í átt að bættum heimi.

Við erum ekki fyrsta fólkið í mannkynssögunni sem segir: Af hverju er allt svona ömurlegt!? Frá því fyrir fyrstu skrifuðu heimildir eru sannanir fyrir hryllingnum sem mannfólk getur tekið upp á þegar samkenndina brestur. Stríð, þrældómur, þjóðarmorð, skipulagðar hungursneyðir. Stóri munurinn er að nú eiga mannaparnir snjallsíma svo við getum horft á hörmungarnar í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum.

En það sem þetta fólk, forfeður okkar og mæður, gerðu var að það barðist fyrir breytingum. Frammi fyrir óréttlætinu sögðu nógu margir stopp stýrimann. Jákvæðar breytingar gerast samt ekki þannig að einhverjir hafi vaknað einn daginn, áttað sig á óréttlæti og einfaldlega breytt því. Baráttan fyrir betri heimi tekur þúsundir ára, virðist vera. Kannski mun henni aldrei ljúka.

En við höfum rödd. Og við höfum von. Og við höfum samkennd, þrátt fyrir tilraunir til þess að kæfa hana. Og á meðan við höfum þessi verkfæri þá þurfum við ekki að dvelja í hjarta myrkursins. Það að benda á vankanta í heiminum er ekki neikvæðni og niðurrif. Það er ósk um eitthvað betra. Að fleiri geti haft það gott. Sloppið undan áþján og kvölum. 

Þess vegna eigum við að halda áfram að rífast og skammast. Halda áfram að kýla upp fyrir okkur. Kýla stríðsherra, fasista, ólígarka og plútókrata. Á meðan ein einasta manneskja er í þræll er ekkert okkar frjálst.

En hvað með gleðina? Hvað með jólin? Sólstöðuhátíðina okkar? Má gleðjast þegar hræðilegir hlutir eru að gerast? Má heyrast hlátur í hjarta myrkursins? Að sjálfsögðu! Húmor er viðbragð við tráma. Og leið til að lifa af tímabil sem við höldum að muni kannski aldrei taka enda. Að njóta örstunda og stela sér gleði í andartakinu. Við megum jafnvel vera glöð og döpur á sama tíma. Við megum innihalda andstæður. Við erum jú bara apar sem frussast stjórnlaust í gegnum geiminn að gera okkar besta. 

Á sporbaug inn í hjarta myrkursins - og svo út úr því aftur.

 

Til baka í yfirlit