Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Er trúfrelsi “ókristilegt”?

ÞÓRDÍS Pétursdóttir hefur í tvígang hér á lesendasíðunni veist ósmekklega að borgaralegri fermingu og opinberað þar fáfræði og fordóma.

Í tilefni fyrri skrifa hennar reyndi ég 7. apríl að upplýsa hana og lesendur um hvað borgaraleg ferming væri og hvernig síðasta athöfn hefði farið fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. En 20. apríl birtist pistill frá Þórdísi sem ber þess merki að boðskapurinn minn hafi komist illa til skila.

 

Það virðist fara fyrir brjóstið á Þórdísi að leyfð sé hátíðleg athöfn í Ráðhúsinu, sameigin allra borgarbúa, sem ekki er kristileg. Ég vil benda Þórdísi á að Ráðhúsið er ráðhús, ekki kirkja . Ég býst við að kristilegar samkomur heyri til algjörrar undantekningar í ráðhúsinu. þar á sér alla dag stað borgaraleg starfsemi, þ.e. stjórnsýsla, stjórnmálafundir og ýmiss konar hátíðarsamkomur, svo eitthvað sé nefnt. Við höfum byggt fyrir almannafé fjölmörg hús fyrir kristilegar athafnir, nefnilega kirkjur. Þó Ráðhúsið hafi verið alltof dýr bygging þykir mér líklegt að miklu meira af almannafé hafi runnið til kirknanna gegnum árin en til Ráðhússins.

Ingibjörg Sólrún borgarstjóri flutti ágætt ávarp á borgaralegu fermingarathöfninni. En það er ekki þar með sagt að hún hafi verið í „aðalhlutverki“, eins og Þórdís fullyrðir og ber mig fyrir. Það voru nefnilega fermingarbörnin sjálf og foreldrar þeirra sem voru í aðahlutverki. Ég get skilið að þeim sem aðeins hafa séð kirkjulegar fermingarathafnir veitist erfitt að skilja þetta. Í krikjunum fer sjaldan á milli mála hver er í aðahlutverkinu, nefnilega presturinn. En ég get huggað Þórdísi og aðra sem kunna að hugsa eins og hún, að borgarstjórinn var þarna ekki í hlutverki prests. Það var engu slíku hlutverki til að dreifa! Það er nefnilega töluverður munur á borgaralegri fermingu og kirkjulegri fermingu.

Þórdís tönnlast á því, m.a. í fyrirsögn, að Ingibjörg hafi lagt börnunum „ókristilegar lífsreglur“. Hvað átt þú við með því, Þórdís? Varla veist þú mikið um það hvað Ingibjörg Sólrún sagði, því mér vitanlega hefur ávarp hennar hvergi birst. Áttu við að ávarpið hafi verið ókristilegt vegna þess að það var ekki mælt úr munni prests? Eða vegna þess að það var ekki hluti af kirkjulegri athöfn? Ef þú átt við það, þá eru þessi greinarskrif okkar á síðum Morgunblaðsins ekki síður ókristileg – og Morgunblaðið í heild sinni ókristilegt, því kirkjan gefur það ekki út, heldur borgaralegt hlutafélag. En finnst nokkrum neitt athugavert við það? Ef þú værir sjálfri þér samkvæm, Þórdís, ættir þú að birta lesendabréfin þín í kirkjuritinu Víðförla en ekki í þessu „ókristilega“ blaði!

Þórdís segir með nokkrum þjósti að Ingibjörg Sólrún eigi ekkert með það að nota stöðu sína og Ráðhúsið til að efla trúleysi. Þér væri nær, Þórdís, að þiggja boð okkar og sjá með eigin augum borgaralegu fermingu áður en þú berð fáfræði þína á torg með þessum hætti. Eða lesa betur það sem ég skrifa. Tókstu ekki eftir að það stendur skýrum stöfum í fyrri grein minni: „Borgaraleg ferming snýst lítið um trúarbrögð og ekkert er tekið fyrir sem er andstætt kristinni trú eða öðrum trúarbrögðum. Leitast er við að virða trúfrelsi allra.“

Við í Siðmennt vinnum í anda trúfrelsis. Í Siðmennt eru margir trúleysingjar en þó tilheyrir líklega meirihlutinn einhverju trúfélagi og þá líklega flestir þjóðkirkjunni. Ég tel líklegt að svipað gildi um þá foreldra og fermingarbörn sem hafa fermt börn sín borgaralega. Um þetta get ég þó ekki fullyrt, því við spyrjum fólk ekki um trúarbrögð ef það vill gerast félagar í Siðmennt, né heldur þá sem vilja nýta sér þjónustu sem Siðmennt býður upp á.

Mér fellur ekki að nota orðið „ókristilegt“ yfir það sem ekki er á vegum kirkjunnar. Borgaraleg hjónavígsla hefur tíðkast í áratugi án þess að vera kölluð „ókristilegt“ athæfi. Þær athafnir fara yfirleitt fram í opinberu húsnæði sem er sameign allra landsmanna. Guðfræðingar hafa látið í ljós óánægju með það að fólki, sem ekki er sátt við kirkjuna og athafnir hennar, sé leiðbeint um borgaralega fermingu, nafngjöf eða greftrun. Siðmennt er fátækt, húsnæðislaust félag án ríkisstyrkja og erum við upp á aðra komin með húsnæði fyrir námskeið okkar og hátíðlegar athafnir. Ég vil nota tækifærið og þakka því ágæta fólki sem hefur skotið skjólshúsi yfir borgaralega starfsemi okkar sem öll er í anda trúfrelsis, óháð trúarbrögðum.

ÞORVALDUR ÖRN ÁRNASON,

formaður Siðmenntar, félags áhugafólks um borgaralegar athafnir.

Morgunblaðið 28. apríl, 1995

Til baka í yfirlit