Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Vill fólk aðskilja ríki og kirkju?

PÉTUR Pétursson, prófessor í guðfræði, gerir í Morgunblaðinu 28. mars að umtalsefni grein eftir mig sem birtist í sama blaði 18. mars sl. (ekki 18. apríl!). Í grein minni harma ég að stjórnarskrárnefnd skyldi ekki taka tillit til ábendinga félagsins Siðmenntar um að endurskoða aldargömul ákvæði um forréttindi þjóðkirkjunnar sem bundin eru í stjórnarskrá. Að mati okkar í Siðmennt samrýmist það ekki nútímaskilningi á trúfrelsi að láta eitt trúfélag njóta svo afgerandi lögverndar og efnahagslegra fríðinda umfram önnur. Í greininni er einnig á það bent að samkvæmt tveimur könnunum Gallups (ekki Hagvangs eins og Pétur rangfærir) sem gerðar vor 1993 og 1994 vilji meirihluti þjóðarinnar skilja að ríki og kirkju.

 

Kannanir Gallups og afstaða Siðmenntar og SARK

Í umræddum könnunum Gallups var fólk einfaldlega spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt aðskilnaði ríkis og kirkju. Úrtakið er 1.200 einstaklingar af landinu öllu á aldrinum 1569 ára og er svarhlutfall venjulega 7075%. Árið 1993 sögðust 48% þeirra sem svöruðu vera hlynntir aðskilnaði, 39% andvígir og 13% sögðust hvorki vera hlynntir né andvígir. Þegar sama spurning var lögð fyrir rúmlega ári seinna sögðust 52% vera hlynntir aðskilnaði, 32% andvígir og 16% tóku ekki afstöðu. Ef einungis er litið á þá sem tóku afstöðu voru 55% hlynntir aðskilnaði 1993 og 62% árið 1994. Ég geri ráð fyrir að Gallup á Íslandi hafi hér staðið faglega að verki. Mér skilst að 7075% svarhlutfall þyki vel viðunandi í skoðanakönnunum. Það þykir í hæsta máta eðlilegt að 1316% aðspurðra taki ekki afstöðu.

Ef marka má þessar kannanir eru þeir sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju um það bil helmingur þjóðarinnar og þeim virðist fara fjölgandi. Til þess bendir einnig sú niðurstaða úr könnunum að aðskilnaðurinn á meira fylgi meðal fólks á aldrinum 1544 ára heldur en meðal þeirra sem eldri eru. Það verður fróðlegt að sjá hver þróunin verður ef Gallup spyr þessarar sömu spurningar síðar.

Ég tek undir með Pétri, að það er merkilegt að svo margir skuli vilja aðskilnað þegar 92% þjóðarinnar er í þjóðkirkjunni, og tek undir þá tilgátu hans að hugsanlega telji meirihluti meðlima þjóðkirkjunnar henni óhollt og óhentugt að vera svo bundin við ríkið. Ég tek einnig undir þau orð Péturs að þessar tölur séu „í meira lagi athyglisverðar“. Það mættu fleiri taka þær gaumgæfilega til athugunar.

Siðmennt og Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju, SARK, byggja afstöðu sína ekki á þessum tölum. Við viljum skilja á milli ríkis og kirkju til að stuðla að jafnrétti og trúfrelsi. Þessar tölur frá Gallup komu okkur líka á óvart á sínum tíma. Við vissum ekki að skoðun okkar væri svo útbreidd. Að sama skapi erum við hissa á því hve fáir stjórnmálamenn hafa veitt þessu máli athygli. Ég hef ekki heyrt minnst á það í kosningabaráttunni. Það er virðingarvert að kirkjunnar menn skuli velta málinu fyrir sér. Það hlýtur að vera m.a. í þeirra verkahring að leita farsælla lausna á því.

Túlkun á könnunum Guðfræðistofnunar

Prófessor Pétur Pétursson vitnar töluvert í könnun á trúarviðhorfum Íslendinga sem Guðfræðistofnun HÍ gerði 1987. Þar er spurt um afstöðu til sambands ríkis og þjóðkirkju. Spurningin er mun flóknari en í könnunum Gallups, fólki eru gefnir 4 svarkostir: Óbreytt samband ríkis og kirkju (34% vilja það), endurskoða sambandið vegna kirkjunnar (15%), endurskoða vegna hagsmuna ríkisins (5%) og slíta því (4%). Um þriðjungur hefur ekki skoðun á málinu. Það er nokkuð há tala, mun hærri en í könnunum Gallups og kann að helgast bæði af því að spurningin er flókin og einnig af því að meira hefur verið hugsað og rætt um þessi mál síðustu ár.

Það er athyglisvert að þeir sem vilja óbreytt samband ríkis og kirkju eru hlutfallslega álíka margir og í könnunum Gallups (34% 1987, á móti 39% 1993 og 32% 1994). Þeim sem vilja endurskoða sambandið eða slíta því virðist hafa fjölgað mikið síðan 1987, þá voru þeir samanlagt aðeins 24%. Flestir vilja endurskoða sambandið kirkjunnar vegna og kann það að renna stoðum undir áðurnefnda tilgátu Péturs um að sú almenna andastaða við samband ríkis og kirkju sem kannanir Gallups mæla grundvallast ekki síst á umhyggju fyrir kikrkjunni. Það má þó ekki gleymast að kannanir Guðfræðistofnunar og Gallups eru ólíkar og erfitt að bera þær saman.

Mér sýnist að við Pétur lesum ekki alveg það sama út úr könnun Guðfræðistofnunar. Hann ályktar út frá henni að það sé „vart nema 4% þjóðarinnar sem vill aðskilnað ríkis og kirkju – í hæsta lagi 10%. Okkur greinir í fyrsta lagi á um hvar flokka eigi þá sem velja tvo svarmöguleika um að endurskoða samband ríkis og kirkju. Hverju skyldu þeir hafa svarað ef þeir hefðu verið spurðir: Ertu hlynntur eða andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju? Mig grunar að meirihlutinn hefði þá merkt við aðskilnað. Ég get t.d. orðað mína afstöðu svo að ég vilji „endurskoða“ samband ríkis og kirkju, tel það vera allra hag að forréttindi hennar verði afnumin en samt verður áfram ýmiss konar samband milli ríkis og kirkju. Til dæmis munu lög ríkisins ná yfir kirkjuna og hún verður eftir sem áður lang fjölmennasta trúfélagið jafnvel þótt eitthvað fækki í henni þegar forréttindunum sleppir.

Í öðru lagi virðist Pétur ekki gera ráð fyrir því að viðhorf fólks hafi breyst verulega á þeim 7 árum sem líða á milli kannana Guðfræðistofnunar og Gallups. Pétur minnist á aðra könnun sem Guðfræðistofnun hafi gert 1993 sem hann telur gefa til kynna að afstaða fólks hafi ekki breyst frá 1987. Fróðlegt væri að fá nánari útlistun Péturs á þeirri könnun og hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu. Það hefur ýmislegt breyst á þessum árum. Árið 1987 voru Sovétríkin t.d. enn við lýði og Berlínarmúrinn óbrotinn. Hljóta hugmyndir fólks um trúfrelsi og eðlilega samkeppnishætti ekki einnig að hafa breyst?

Mikilvægt að ræða tengsl ríkis og kirkju
Björgvin Brynjólfsson á Skagaströnd kemst svo að orði í Fréttabréfi Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju, SARK: „Sérréttindi þjóðkirkjunar eru vanabindandi og valda því að kirkjan hefur ekki náð að þróast með frjálsum hætti líkt og gerst hefur með aðra flokka og flestar stofnanir í þessu landi. Lögvarin sérréttindi eru ætíð hættuleg þeim sem þeirra njóta, rugla samkeppnisstöðuna, stuðla að sífellt meiri kröfuhörku um aukin sérréttindi og eru algerlega úr takt við aðra þróun í frjálsu þjóðfélagi.“

Ég er ósammála Pétri Péturssyni þegar hann segir: „Samband ríkis og kirkju er það margbrotið málefni að ekki er hægt að mæla viðhorf fólks til þess með því að spyrja það hvrt það sé með eða á móti aðskilnaði.“ Þó að samband ríkis og krikju sé margbrotið málefni vil ég treysta fólkinu í landinu til að gera upp hug sinn og svara hvort það vilji skilja þar á milli eður ei. Við getum hjálpað því til að skerpa skilning sinn með málefnalegri umræðu um sem flestar hliðar málsins á opinberum vettvangi.

Höfundur er formaður Siðmenntar, félags áhugafólks um borgaralegar athafnir.

Þorvaldur Örn Árnason

Morgunblaðið 12. apríl, 1995

Til baka í yfirlit