Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar 2006

Ræða eftir Hope Knútsson, formann Siðmenntar. Flutt við afhendingu Húmanistaviðurkenningar 5. október 2006

Það er með mikilli ánægju að Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, veitir í dag, annað árið í röð, húmanistaviðurkenningu Siðmenntar fyrir framúrskarandi starf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Ég vil byrja á því að segja nokkur orð um hvað Siðmennt er og fyrir hvað félagið stendur. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi var formlega stofnað árið 1990. Félagið er málsvari mannúðarstefnu (húmanisma) og frjálsrar hugsunar, óháð trúarsetningum, og stendur fyrir borgaralegum athöfnum. Frá 1988 hefur Siðmennt haldið undirbúningsnámskeið og séð um borgaralegar fermingar árlega. Þá hefur félagið gengist fyrir umræðufundum um ýmis mál er tengjast mannúðarstefnu, þ.e. siðrænum húmanisma, og má þar nefna málefni eins og stefnu félagsins, trúarbragðafræðslu í skólum, mannréttindi samkynhneigðra, um að taka dauðann í sátt, sorg og sorgarviðbrögð, um erlend félög siðrænna húmanista o.fl. Helsta barráttumál félagsins í dag er ósk félagsins um jafna stöðu allra trúarbragða og lífsskoðunarfélaga sem m.a. hefur í för með sér aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi og að Siðmennt öðlist sömu stöðu og önnur lífsskoðunarfélög.

 

Sá sem hlýtur húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2006 er maður sem ég tel að í hugum flestra Íslendinga sé hægt að setja samasem merki milli hans og mannréttinda. Hann hefur að geyma alla helstu eiginleika húmanista það er að segja: manneskja með mikla siðferðiskennd, vilja og kraft til að berjast fyrir mannréttindum og með mikla réttlætiskennd.

Það er mér sönn ánægja að tilkynna það hér að Siðmennt hefur ákveðið að veita Ragnari Aðalsteinssyni, hæstaréttalögmanni, viðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2006 fyrir óeigingjarnt ævistarf í þágu mannréttinda á Íslandi.

Í tæplega hálfa öld hefur Ragnar tekið að sér fjölda mála sem snerta ekki einungis einstaklinga heldur þjóðina í heild.
Án þess að gera upp á milli þessara mála er hér aðeins um yfirlit nokkurra málaflokka að ræða en þetta er óneitanlega glæsileg málaskrá:

• Málefni flóttamanna
• Um friðhelgi einkalífsins t.d. persónuvernd & hleranir
• Réttinn til að mótmæla
• Aðhald við ríkisstjórn
• Mannréttindamál ýmissa minnihlutahópar t.d. öryrkja, samkynhneigðra, og fanga.
• Lýðræði
• Stjórnarskrámál
• Fjarskipti
• Höfundarétt
• Þjóðlendumál

Ragnar er vægast sagt umdeildur. Hann hefur í gegnum árin orðið fyrir gagnrýni frá ýmsum málsmetandi mönnum á Íslandi fyrir störf sín. Aðallega eru það ýmsir stjórnmálmenn eða aðrir einstaklingar sem telja að með störfum sínum hafi Ragnar vegið að þeim. Í sumum þessara mála hefur Ragnar unnið mál fyrir Hæstarétti þar sem um er að ræða grundvallarmannréttindi. Ef það væri ekki fyrir Ragnar væri staða mannréttindamála á Íslandi önnur og verri í dag. Auk þess að hafa sinnt fjölmörgum trúnaðastörfum síðan 1973 má geta þess að Ragnar var í stjórn Mannréttindaskrifstofu Íslands í mörg ár og formaður hennar frá 1994 til 1995 og 1998 til 2001.

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar er fyrst og fremst táknræn og samanstendur af viðurkenningarskjali en að auki færum við Ragnari tvær gjafir. Sú fyrri er ritsafn eftir Thomas Paine sem var einn af stofnendum Bandaríkjanna og skrifaði mikið um lýðræði og frelsi fyrir um 200 árum síðan. Það er almennt talað um að orð hans séu mjög skýr, skynsöm og sterk og sérstök fyrir að hafa þann eiginleika að fylla fólki hugmóði ennþá í dag. Hin bókin er um Thomas Paine og bækur hans. Paine hafði óbilandi trú á hæfni hins almenna borgara til að hugsa rökrétt og taka skynsamar ákvarðanir. Okkur finnst við hæfi að færa Ragnari þessarar bækur vegna þess að við teljum hann starfar í anda Thomas Paine.

Til hamingju Ragnar! Við fögnum innilega því góðverki sem þú hefur unnið fyrir íslenskt samfélag í nærri hálfa öld.

Hope Knútsson
Formaður Siðmenntar

Til baka í yfirlit