Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Söguleg stund – formlegt upphaf athafnaþjónustu Siðmenntar

Í dag 29. maí 2008 hefst athafnaþjónusta Siðmenntar við veraldlegar eða húmanískar athafnir, þ.e. nafngjafir, giftingar og útfarir.  Frá því fyrir ári síðan hefur þessi áfangi í sögu félagsins og húmanista / trúlausra á Íslandi verið í undirbúningi, en hann hófst með því að systurfélag Siðmenntar í Noregi, Human Etisk Forbund sendi okkur reyndan kennara að nafni Baard Thalberg, sem hélt fyrir okkur vandað námskeið í athafnarstjórnun, með megin áherslu á útfarir.

Af þeim tíu sem sóttu það námskeið eru sex sem hafa gefið kost á sér til þess að starfa sem athafnarstjórar á vegum félagsins.  Þetta eru Jóhann Björnsson kennari og heimspekingur, Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri og leiðsögumaður, Bjarni Jónsson framkvæmdastjóri, Steinar Harðarson tæknifræðingur, Sveinn Kristinsson kennari og bæjarfulltrúi og Svanur Sigurbjörnsson læknir.  

Í byrjun vetrar var svo Svanur Sigurbjörnsson, stjórnarmaður hjá Siðmennt, ráðinn í tímabundið hlutastarf sem umsjónarmaður athafnaþjónustu Siðmenntar og sótti hann ráðstefnu um athafnarstjórnun hjá bresku húmanistasamtökunum (BHA) til að afla meiri þekkingar um efnið.  Þá naut undirbúningurinn einnig góðs af heimsókn Maryam Namazie í september s.l. en hún hélt fund með Siðmennt um athafnarstjórnun.  Hún hefur verið einn megin skipuleggjandi þjónustunnar í Bretlandi undanfarin ár.

Óvænt fékk svo félagið tækifæri til að standa að fyrstu veraldlegu giftingu þess þ. 22. september s.l. þegar kona sem hafði fermst borgaralega hjá Siðmennt á árum áður, fór þess á leit ásamt kærasta sínum að athafnarstjóri frá Siðmennt leiddi þau til hjónabands.  Það var Jóhann Björnsson, kennslustjóri við borgaralega fermingu til fjölda ára sem tók giftinguna að sér og gekk það ákaflega vel.  Síðan þá hefur undirbúningur fyrir formlegri opnun á þjónustunni staðið yfir á fullu og sú hugmyndafræði og orðanotkun sem huga þarf að þegar nýir hlutir eru á ferðinni í mannlífinu verið slípuð og ákveðin.   Nú undir lok þeirrar vinnu, sem m.a. hefur byggst á uppsetningu þriggja kynningarbæklinga um félagið og athafnaþjónustuna, hefur fyrsta veraldlega útförin og nafngjöfin farið fram á vegum félagsins.  Það fer því vel á því að hefja athafnaþjónustuna með það vegarnesti í farteskinu.

Kynningarbæklingar Siðmenntar heita:

  • Hvað er Siðmennt?
  • Gifting og nafngjöf
  • Veraldleg útför
  • Borgaraleg ferming (frá 2007).

Hin nýja athafnaþjónusta Siðmenntar verður kynnt formlega á blaða- og fréttamannafundi í dag kl 13:15 í Norræna húsinu.  Til stendur að kynna hana svo fyrir félögum Siðmenntar á kvöldfundi á næstunni.   Umsjónarmaður athafnaþjónustunnar, Svanur Sigurbjörnsson, mun fara víða um land allt á næstu vikum og mánuðum til að kynna þennan nýja valkost í menningu landsmanna.  Hægt er að nálgast hann gegnum netfang Siðmenntar til að fá stuttan kynningarfund um efnið t.d. hjá hvers kyns félugum, stofnunum eða fyrirtækjum sem vilja vita meira um húmanískar eða veraldlegar athafnir.

Um þessar þrjár nýju athafnir hjá Siðmennt, þ.e. nafngjöf, giftingu og útför verður ekki notuð lýsingin borgaraleg því hún á frekar við um athafnir sem óháðir borgarar eða sýslumenn stýra, t.d. borgaraleg gifting hjá sýslumanni. Til aðgreiningar frá hinum kirkjulegu (eða trúarlegu) athöfnum mun Siðmennt því nota orðið veraldleg og til frekar lýsingar þegar yfirlýstir húmanistar eiga í hlut, notum við orðið húmanísk.

Athafnir Siðmenntar eru opnar öllum sem vilja veraldlega athöfn og athafnarstjórar félagsins leiða saman pör til giftingar óháð kynhneigð.  Þar sem félagið hefur ekki sömu lagalega réttindastöðu og trúarleg lífsskoðunarfélög, getur það ekki gengið frá lagalegu hlið giftinga.  Pör sem gifta sig á vegum Siðmenntar þurfa því að fá borgaralega giftingu hjá sýslumanni áður.  Aðrar athafnir hafa ekki lagalega þýðingu utan þess að nöfn barna þarf að skrá hjá Þjóðskrá eftir nafngjafarathöfn og útfarir þarf að framkvæma innan viss tímaramma og að gefnu dánarvottorði frá lækni.

Óvígðir grafreitir eru í sumum kirkjugörðum en það fer eftir samþykkt kirkjugarðsnefnda hvers staðar hvort að séð sé fyrir þeim.   Fyrir liggur lagafrumvarp á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir því að skylt verði að sjá fyrir óvígðum grafreitum í öllum nýjum kirkjugörðum.  Útfararkapellur sem byggðar eru fyrir sameiginlegan kirkjugarðssjóð allra landsmanna eru opnar fyrir veraldlegar athafnir rétt eins og alls kyns trúarlegar.

Til baka í yfirlit