Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Siðrænn húmanismi og dulhyggja fara ekki saman

Stutt samantekt

Hér verður aðeins stiklað á stóru og ýmislegt hér krefst vafalaust frekari skýringa. En reynt verður að rökstyðja þá meiningu mína að dulhyggja og húmanismi eigi ekki samleið.

1. Fyrst ber að nefna að húmanismi er mónismi (einhyggja), þ.e. veröldin er aðeins eins eðlis og skiptist ekki í tvö eins og dúalismi (tvíhyggja) gerir ráð fyrir (skipting í „náttúrulegt“ og „yfirnáttúrulegt“). Mónismi og materíalismi (efnishyggja) eru efnislega náskyld hugtök, en sakir margvíslegrar misnotkunar á orðinu „materíalismi“ er ekki alltaf heppilegt að nota það.

2. Rationalismi (skynsemisstefna) er mikilvæg forsenda húmanismans. Í rationalismanum felst að við eigum ávallt að leita nýs sannleika með hjálp skynsemi og þarafleiðandi rökhugsunar. Efahyggja er nátengd rationalismanum.

Það er augsýnilega ekki rétt að halda því fram að maðurinn komist yfirleitt aðeins að niðurstöðu með hjálp rökhugsunar! Tilfinningar, innsæi og umframallt vani ráða e.t.v. mestu um daglega breytni okkar. Því ber okkur að nota rökhugsun sem mest, t.d. til að sjá hvaða tilfinningar, hvaða innsæi og hvaða vani nýtist okkur best!

3. Okkur ber að leggja áherslu á frjálsan vilja mannsins til að velja og hafna; samtímis því ber okkur að þroska getu okkar til að velja og hafna. Það er m.a. siðferði.

Þótt vissulega séu til ákveðin náttúrulögmál ber að varast að nýta þau við skilgreiningar á flóknum fyrirbærum mannlegs samfélags. Trú á löggengisstefnu í mannlegum samskiptum er náskyld guðstrú, var t.d helsta einkenni náttúruguðfræðinnar á 18. og 19. öld (þ.e. náttúran = guð).

Afneitun nauðhyggju skilur siðrænan húmanisma á síðari hluta 20. aldar greinilega frá margvíslegri vísindahyggju fyrri tíma. Við vitum meira nú, t.d. vitum við stöðugt meira um hlutverk tilviljana í „heimi raunvísinda“, og þá ekki síður í mannlegu samfélagi.

4. Aldrei vanmeta hlutverk huglægra þátta í samfélagsþróun. Að rækta gott siðferði er því sérstök nauðsyn. Slíkt kemur ekki af sjálfu sér með breyttu samfélagi, til dæmis! Hver og einn verður að rækta sinn eiginn garð. Siðrænir húmanistar reyna að gera slíkt án guðstrúar. Slíkt er lífsskoðun okkar.

5. Richard Leakey, frægur fornleifafræðingur og heimspekingur, svo og siðrænn hímanisti, sem treystir hvorki og á löggengi né yfirnáttúruleg öfl, segir svo í bók sinni Origins Reconsidered. In search of what makes us human, bls. 358: Menning (culture) er að sjálfsögðu það sem einkennir manninn frá öðrum dýrum og mikilvægustu þættir menningar felast í „consciousness, compassion, morality, language“, þ.e. vitund um stöðu sína, samúð með öðrum, siðferði, tungumál (í öllum flóknum myndum þess). Með „vitund“ er að sjálfsögðu átt við þær gáfur sem einkenna manninn sérstaklega. Í biblíunni er þetta útskýrt sem skilningstré góðs og ills.

Siðrænir húmanistar hafa hins vegar annan skilning á eplatínslu þessa trés en gyðingdómur, Islam og kristnin boða: Við teljum að sem flestir eigi að tína epli af trénu þar sem það sé sannarlega engin synd að fólk kunni með eigin skynsemi að skilja milli góðs og ills. Við viljum ekki lúta einhverju skýlausu, fornu og óbreytanlegu lögmáli um hvað sé rétt og rangt. Ekki heldur teljum við að fórnardauði tiltekins einstaklings frelsi okkur frá syndunum svo framarlega sem við trúum á hann.

Gísli Gunnarsson, á þriðju viku mörsugs, árið 1998

Til baka í yfirlit