Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúin, menningin og kirkjan

Eftirfarandi grein birtist í fréttablaðinu 18. október 2007

Eftir að Siðmennt stóð fyrir veraldlegri athöfn fyrir brúðhjón í Fríkirkjunni í Reykjavík hefur áhugi á veraldlegum athöfnum aukist.

Margir hafa lýst ánægju sinni með framtak Siðmenntar sem mun framvegis bjóða upp á aðrar veraldegar athafnir en fermingar, en það hefur félagið gert lengi. Siðmennt hefur þegar staðið einu sinni að athöfn fyrir brúðhjón og má geta þess að önnur sambærileg athöfn hefur þegar verið ákveðin. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð hafa ekki allir verið sáttir og má þar nefna sóknarprestinn Gunnar Jóhannesson. Telur hann rangt að athafnir og uppákomur sem ekki teljast trúarlegar eigi sér stað í kirkju. Ræðir hann sérstaklega umrædda athöfn sem Siðmennt hélt í Fríkirkjunni.


Með afstöðu sinni boðar Gunnar stefnubreytingu varðandi nýtingu kirkjuhúsnæðis. Sumir prestar hafa verið reiðubúnir að gifta fólk veraldlegri giftingu ef það kýs svo. Formaður Siðmenntar giftist t.d. veraldlega í Dómkirkjunni í Reykjavík fyrir löngu síðan af þáverandi presti kirkjunnar, sem varð við óskum um veraldlega athöfn. Gunnar fær mann til að velta því fyrir sér hvort Þjóðkirkjan sé að loka dyrum sínum fyrir öllum þeim menningarviðburðum sem ekki teljast beinlínis trúarlegir. Sjálfur hef ég margoft mætt á atburði í kirkjum sem hafa ekkert með trú sem slíka að gera. Í kirkjum hef ég séð leikrit, farið á tónleika og tvisvar sinnum hef ég haldið heimspekifyrirlestra, annar var meira að segja um efahyggju. Enginn hefur haft út á það að setja. Þvert á móti hafa slíkar uppákomur talist jákvætt innlegg í menningarlíf landsmanna. En þegar fólk sem hefur gift sig vill opinbera veraldlegt hjónaband sitt fyrir vinum sínum í kirkju vegna aðstöðunnar sem þar er fyrir hendi þá boðar Gunnar Jóhannesson, fyrir hönd kirkjunnar stefnubreytingu. Nú á að úthýsa öllum viðburðum úr kirkjunum sem ekki lofsyngja guð. Það eru stóru fréttirnar sem boðaðar eru.

Siðmennt mun hins vegar halda áfram að bjóða upp á veraldlegar athafnir fyrir fólk sem vill halda upp á stóru stundirnar í lífi sínu. Í nágrannalöndunum hafa slíkar athafnir tíðkast í áratugi.

Höfundur er stjórnarmaður í Siðmennt, félagi siðrænna húmanista á Íslandi.

Jóhann Björnsson

Til baka í yfirlit