Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Um mistök og meistara – Ræða Sesselíu Ólafsdóttur við Borgaralega fermingu á Húsavík 2018

Sesselía Ólafsdóttir flutti ávarp við Borgarlega fermingu Siðmenntar sem fram fór á Húsavík 16. júní 2o18.

Komið þið sæl, kæru fermingarbörn og fylgifólk.

Innilega til hamingju með daginn ykkar!

Ég heiti Sesselía og ég er meðal annars leikkona og handritahöfundur. Mér var boðið að koma og ræða við ykkur í tilefni dagsins og ég þáði það að sjálfsögðu með mikilli gleði, enda mikill heiður.

Ég tók smá tíma í að hugsa um margskonar efni til að spjalla um, hvaða leyndardóma gæti ég opinberað fyrir ykkur? Hvaða stórkostlega, hrífandi, djúpa sannleik um lífið gæti ég á nokkrum mínútum vígt ykkur inn í?

Það að maður verður aldrei fullorðinn?

Það að ástin er stórkostlegasti kraftur í heimi?

Eða það að gegndarlaus misnotkun kapítalisma hefur nú þegar valdið gríðarlegri misskiptingu auðs og er hægt en örugglega að drepa hagkerfi um allan heim?

Engar áhyggjur ef þið skiljið ekki síðasta dæmið, ég googlaði þetta sjálf bara í fyrradag.

En að öllu gamni slepptu þá var það var ekki fyrr en ég hugsaði hvað mér hefði þótt gott að heyra þegar ég fermdist að það rann upp fyrir mér um hvað mig langaði mest að tala við ykkur.

Mistök

Þess vegna ætla ég að nýta tækifærið til þess að segja ykkur frá fyrsta kærastanum mínum og sambandi okkar. Nei, ég er bara að djóka, engar áhyggjur.

En já, 14 ára ég.

Þegar ég var 14 ára var ég stundum dálítið óörugg og feimin, sérstaklega innan um mikið af ókunnu fólki. Sem gerði það að verkum að ég var afskaplega stressuð í fermingunni minni.

Ég var þarna, fínni en ég hafði nokkurn tímann verið, í hvítum kjól með slöngulokka og perlur í hárinu og meikuð og máluð og búin að fara í tvo ljósatíma og allt… og já, það var í alvöru eðlilegt að fermingarkrakkar gerðu það á þessum tíma.

Ég mæli ekki með því að liggja sveittur í ljósabekk í tuttugu mínútur, það er bæði sjúklega leiðinlegt og krabbameinsvaldandi.

En já, ég var rosa fín og átti að krjúpa á einhverjum tímapunkti í athöfninni, en sökum þess hversu stressuð ég var þá ruglaðist ég eitthvað í röðinni á þessu öllu og kraup allt of snemma, sem hefði kannski verið í lagi, nema að þegar það rann upp fyrir mér reyndi ég að gera tvo hluti í einu.

Annars vegar að spretta svo hratt á fætur að enginn tæki eftir því og

hins vegar að standa svo hægt á fætur að enginn tæki eftir því.

Útkoman varð einhvernveginn svona:

(krýpur, sprettur skyndilega hálfa leið á fætur en klárar löturhægt)

Það er skemmst frá því að segja að allir tóku eftir því og sprungu úr hlátri yfir vandræðalegheitum mínum.

Mér finnst það fyndið núna, en ég var skelfingu lostin. Ég var 14 ára, tönuð, máluð, slöngulokkuð og stíf af skelfingu yfir að hafa eyðilagt þetta hátíðlega augnablik og núna voru allir að hlæja að mér. Hvílík niðurlæging, ég var svo mikill hálfviti og núna vissu það allir, meira að segja fólk sem ég þekkti ekki!

Mig langaði til þess að deyja!

Ég var dálítið dramatísk á þessum tíma!

Það var svo mikilvægt fyrir mér að vera fullkomin að ég sá ekki að ég hafði óvart glatt alla sem voru viðstaddir ferminguna mína með því að gera mannleg mistök sem léttu ofurlítið stíft andrúmsloftið.

Ég var svo föst í hausnum á mér að ég fattaði ekki að fólkið hló ekki af illkvittni, heldur af samkennd.

Allir hafa gert mistök, það er sammannlegt og fólk hlær vegna þess að það man hvernig því sjálfu leið þegar þau voru táningar. Fullorðið fólk man alveg hvernig það var að vera 14 ára og óviss um sjálfan sig í heiminum og skelfingu lostinn yfir því að gera einhver óafturkræf mistök.

Því langar mig til að nýta þetta tækifæri til þess að segja ykkur það núna að það er fullkomlega eðlilegt að gera mistök. Allir gera mistök, meira að segja kettir gera mistök! Þó að þeir hafi verið tilbeðnir í Egyptalandi til forna og þó að hálft internetið sé tileinkað þeim þá detta þeir samt stundum á andlitið.

Maður lærir mest af mistökum og það er ekki bara í lagi að gera þau, heldur er það nauðsynlegt. Það er sama hvað þig langar að gera í lífinu, ef þú vilt gera það vel þá muntu gera mistök. Það er hluti af því að læra. Prófa og mistakast, læra af því og reyna aftur.

En það er samt til fólk sem verður fullorðið og prófar aldrei neitt nýtt af ótta við að líta asnalega út, fólk sem er hrætt við að láta drauma sína rætast af því að innst inni óttast þau að kannski hafi þau ekki það sem til þarf.

Þau séu ekki nógu áræðin eða hugrökk til þess að gera það.

Það eru nefnilega merkilega margir sem halda að það að eltast við draumana sína sé merki um hugrekki.

Ég fékk að heyra það, þegar ég flutti út til London í leiklistarháskóla að ég væri svo hugrökk. En í mínum huga snerist það ekki eins mikið um hugrekki og ótta.

Það var kannski ógnvænlegt í smá tíma að vera einn í stórborg sem maður þekkti ekki, en það sem mér fannst margfalt ógnvænlegra var hinn möguleikinn.

Að fara ekki og sitja uppi með spurninguna: Hvað ef?

Það vilja allir verða gamlir og geta horfst í augu við sjálfan sig og sagt:

,,Hæ, ég reyndi, það tókst og hér erum við”,

eða jafnvel:

,,Hæ, sko, ég reyndi og fann bara að þetta hérna átti betur við mig, svo ég gerði það í staðinn.”

Það er miklu auðveldara heldur en að þurfa að horfast í augu við sig og segja:

,,Hæ, sorrý, ég reyndi aldrei af því að ég var svo hrædd við að gera mistök og við að öðrum þætti ég vera asnaleg.”

Það vill enginn sitja uppi með eftirsjá og það er aldrei of seint að byrja, prófa, mistakast, læra og prófa aftur.

Höfundinum Stephen McCranie tókst að koma þessu með mistökin vel í orð með því að segja:

The master has failed more times than the beginner has even tried.

eða

Meistaranum hefur mistekist oftar heldur en byrjandinn hefur reynt.

Meistarinn er með öðrum orðum mannlegur, honum mistókst, en það sem skiptir mestu máli er að hann gafst aldrei upp.

Stephen King, J.K. Rowling, Dr. Seuss, Meryl Streep, Jennifer Lawrence, Charles Darwin, Steven Spielberg, Walt Disney, Michael Jordan, Einstein og margir fleiri, líklega allar ykkar fyrirmyndir, reyndu og þeim mistókst aftur og aftur.

En þau gáfust aldrei upp. Þau höfðu og hafa óbilandi ástríðu fyrir sínu tiltekna sviði, lærðu af mistökunum og hlustuðu ekki á þá sem sögðu þeim að þau gætu aldrei orðið vísindamenn, íþróttamenn, höfundar, leikarar eða það sem þau dreymdi um að vera.

Allir eiga sér sína drauma, sína sögu og sína vegferð. Þín vegferð er einstök og enginn veit betur hvert þinn vegur liggur en þú. Ekki reyna að vera fullkomin eða venjuleg. Það er hvorki til fullkomin eða venjuleg manneskja.

Fólk er og verður ófullkomið og stórkostlega heillandi í öllum sínum frumlega ófullkomleika. Verið forvitin og leyfið ykkur að læra ný tungumál, djöggla eða renna ykkur á hjólabretti. Njótið þess að æfa upp nýja hæfileika og fyrirgefið ykkur mistökin og lærið af þeim. Því hver einustu mistök færa ykkur skrefi nær því að verða meistarar!

Gangi ykkur vel og innilega til hamingju með tímamótin, þið verðandi meistarar!

Sesselía Ólafsdóttir

Til baka í yfirlit