Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ferming, kirkjuleg og borgaraleg

Í kaþólskum sið var og er ferming (biskupun) sakramenti, eitt þeirra sjö heilagra gjörða kirkjunnar, voru samkvæmt skilningi kirkjunnar blessaðar af guði og sérstökum fulltrúum hans á hér á jörðu, prestum og prelátum kirkjunnar. Biskupar hafa séð um þessa athöfn eftir að prestur hefur lýst börnin fær um að taka við heilögum anda. Lúter afnam fimm sakramenti af sjö, hélt sakramentunum skírn og heilagri kvöldmáltíð en afnam hinar á þeim forsendum að þær væru hvergi að finna í kjarna kristninnar. Grundvallarhugsun hans var beint samband manns og guðs og kenningin um hinn almenna prestdóm, hver einstaklingur væri ábyrgur fyrir tengslum sínum við guð. Þetta er raunar grundvallarhugsun mótmælandakristni. Því afnam Lúter ferminguna að öllu leyti sem sakramenti og raunar einnig að mestu leyti sem athöfn.

 

Ferming var endurreist hér á landi í skrefum 1735-1746 en í allt öðru formi en áður var eins og Jón Pétursson háyfirdómari skrifaði í bókinni Kristniréttur árið 1867. Það var komið á lagalegri skyldu að öll börn yrðu læs þannig að þau gætu af bókum meðtekið guðs orð. Ekki voru til skólar né kennarar þá hér á landi en einn prestur var á hverja 250 íbúa að meðaltali. Prestar voru því látnir fylgjast með lestrarþekkingu barna og fermingin var próf í lestri og kristindómi. Þegar skólaskyldu var komið á hér á landi 1907 var rætt um hvað gera skyldi við ferminguna, sumir vildu afnema hana með öllu en aðrir vildu halda henni til að tryggja nýliðun í kirkjunni. Seinni skoðunin varð ofan á. Athyglisvert er að hér var engum guðfræðirökum beitt.

Merkilegt er hins vegar að sumir fylgismenn ríkiskirkjunnar, sem skilgreinir sig lúterska, leitast nú við að skilgreina ferminguna á kaþólskan hátt, hún sé í eðli sínu heilög athöfn. En skv. lúterskum skilningi hefur fermingin ekkert guðfræðilegt innihald og hefur engu meiri merkingu sem loforð við guðdóminn en hver bæn. Heitið sjálft, konfirmation, staðfesting á vilja, var því notað mótmælalaust þegar dönsk verkalýðsfélög fóru að iðka „borgerlig konfirmation“ árið 1913. Hún hvarf síðan í Danmörku þegar verkalýðshreyfingin hætti að skipuleggja hana á árunum 1945-1950 en margir Danir fóru að iðka „non-konfirmation“ í staðinn, sem er aðeins fjölskylduhátíð án námskeiðs með unglinginn sem miðdepil athygli.

En um svipað leiti fór HEF, Human-Etiskt Forbund, í Noregi, að skipuleggja “borgerlig konfirmation” þar í landi á snærum sínum. Þar hefur tiltækið heppnast mjög vel og stór hluti norskra ungmenna undirgengist þá athöfn með miklum undirbúningi ár hvert. Siðmennt sækir fyrirmynd sína um borgaralega fermingu upphaflega til Noregs.

Gísli Gunnarsson
Prófessor emeritus í sagnfræði

Til baka í yfirlit