Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Þjóðin verður veraldlegri

Þjóðin verður veraldlegri

Þjóðin verður sífellt minna trúuð samkvæmt könnun sem Siðmennt lét framkvæma fyrr á árinu um lífsskoðanir Íslendinga. Sambærileg könnun var gerð árið 2015, en í bæði skipti var það Maskína sem sá um framkvæmd könnunarinnar. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu dagana 16. – 22. janúar 2020 og voru svarendur 954 talsins. 

Þjóðin þokast frá trúnni

Stóra myndin í niðurstöðum könnunarinnar í ár er sú að þjóðin færist hægt en örugglega nær veraldlegu samfélagi. Sem dæmi má nefna að þeim sem álíta sig trúaða fækkar úr 46,4% í 41,6% og að sama skapi segjast nú 36,1% ekki vera trúuð, en voru 29,9% 2015. Þegar spurt er um sértæka trúarafstöðu segjast 27,9% vera trúlaus, en 61,4% gangast við því að játa kristna trú. 

Meirihluti kristinna efast um tilvist guðs

Einungis 30,8% þeirra sem gengust við því að játa kristna trú segjast aðhyllast boðskap Biblíunnar og trúa á guð, Jesú, upprisuna og eilíft líf, samanborið við 36% í síðustu könnun. Talsvert stærri hópur, eða 46,5% er ekki með öllu viss um tilvist guðs en trúir á boðskap kristninnar og siðferði hennar og samtals segjast 22,6% ekki trúa á guð eða vera trúlaus, en aðhyllast kristið siðferði eða tilheyra kristinni hefð. 

Lítil samleið með þjóðkirkjunni

Þegar spurt er hvort Íslendingar telji sig eiga samleið með Þjóðkirkjunni eru aðeins 25,5% sem telja sig eiga mjög eða fremur mikla samleið með Þjóðkirkjunni, sem gæti talist áhugavert þegar litið er til þess að yfir 60% Íslendinga tilheyra þeirri sömu kirkju. Er þessi tala svo til sambærileg á milli ára en nokkuð fjölgar í þeim hópi sem telur sig enga samleið eiga með kirkjunni, úr 17,8% í 19,8%. Samtals svarar tæplega helmingur því að þau eigi litla eða enga samleið með kirkjunni.

Vilji til veraldlegs samfélags

Það er ljóst að ekki er stuðningur við núverandi fyrirkomulag trúmál á Íslandi. Spurt var hvort Íslendingar væru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, og bætir þar töluvert í hópinn sem er eindregið fylgjandi aðskilnaði. 54,4% Íslendinga er nú fylgjandi, en var 48,9%. Einungis fimmtungur þjóðarinnar vill halda í samband ríkis og kirkju. Þá vilja ríflega 40% að ríkið hætti að styrkja trú- og lífsskoðunarfélög og tæplega 30% að öll trú- og lífsskoðunarfélög fái hlutfallslega sambærilegan stuðning, ólíkt núverandi fyrirkomulagi þar sem þjóðkirkjan hlýtur hlutfallslega hærri styrki úr ríkiskassanum. Núverandi fyrirkomulag styðja tæplega 30%. 

Hvað með börnin?

Ríflega helmingur þjóðarinnar vill að sjálfkrafa skráningu ungbarna í trú- og lífsskoðunarfélög verði hætt og að skráningin verði á höndum foreldra, á meðan 46% styðja núverandi fyrirkomulag, þar sem ungbörn eru sjálfkrafa skráð í trú- eða lífsskoðunarfélag foreldra, ef þau eru bæði í sama félaginu. Þá voru þónokkrir svarendur sem völdu að svara því með eigin orðum að best væri að skráning væri á höndum barnanna sjálfra þegar þau hefðu aldur til. Þegar spurt er um hvort kristilegar trúarathafnir, bænir eða guðsorð, eigi að vera liður í starfi opinberra grunn- og leikskóla bætist mjög í hóp þeirra sem vilja að svo sé ekki. 41,6% telja að slíkt eigi ekki heima í skólastarfi, en voru 35,3% árið 2015. Einnig var spurt hvort leik- og grunnskólar í eigu hins opinberra eigi að viðhalda trúarlegu hlutleysi og eru svörin þar mjög svipuð á milli ára þar sem meirihluti telur að slíkt hlutleysi eigi að ríkja, eða 56,7%, en voru 55,1%.

Sálgæsla fyrir alla?

Samkvæmt þjóðkirkjunni er öllum velkomið að leita til sálgæsluþjónustu kirkjunnar, sama hvaða trúfélagi þau tilheyra, en það er ekki þar með sagt að allir þegnar landsins geti hugsað sér að nýta þá þjónustu. Siðmennt spurði því í fyrsta sinn um sálgæslu. Með kristilegri sálgæslu er átt við faglega tilvistarráðgjöf sem byggist á trúarlegum gildagrunni, en með veraldlegri sálgæslu er átt við faglega tilvistarráðgjöf sem byggist á veraldlegum gildagrunni. Aðeins mjög lítill minnihluti telur að bjóða ætti eingöngu uppá kristilega sálgæslu, eða 3,2%. 15% aðspurðra telja að sálgæsla ætti einvörðungu að vera veraldleg, en mikill meirihluti, eða 79% telja að stofnanir líkt og heilbrigðisstofnannir og fangelsi ættu að bjóða uppá bæði kristilegan og veraldlega valkost þegar kemur að sálgæslu. Spurt var hvort líklegt væri að svarendur myndu þiggja kristilega sálgæslu annars vegar og veraldlega sálgæslu hins vegar, ef þau fyndu fyrir óhamingju, vanlíðan, sorg eða áhyggjum í tengslum við dvöl á spítala eða fangelsi. 39% voru opin fyrir því að þiggja kristilega sálgæslu, en 37% fannst fremur eða mjög líklegt að þau myndu afþakka hana. Aftur á móti höfðaði veraldleg sálgæsla til breiðari hóps, en 59,2% sögðust myndu þiggja veraldlega sálgæslu í sömu aðstæðum og aðeins 12,6% fannst líklegt að þau myndu afþakka hana.

Nálgast má nánari útlistun á lífsskoðunum Íslendinga í yfirliti frá Maskínu

Til baka í yfirlit