Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Sögulegur dagur – Siðmennt skráð lögformlega sem lífsskoðunarfélag

Í morgun kl 10 var haldin móttaka fyrir Siðmennt hjá Innanríkisráðuneytinu í boði ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Tilefnið var eins og segir í tilkynningu ráðuneytisins að „Lífsskoðunarfélagið Siðmennt verður fyrst félaga til að hljóta skráningu hjá innanríkisráðuneytinu sem lífsskoðunarfélag. Breyting á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 tók gildi 30. janúar á þessu ári og er markmið breytingarinnar að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög. Lögin heita nú lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.“

Hope Knútsson formaður Siðmenntar tók við staðfestingarbréfi frá Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra við athöfnina.

Hope undirritar staðfestingarskjal ráðuneytisins

Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir félagið því að nú geta athafnarstjórar félagsins framkvæmt lögformlegar hjónavígslur og hjónaefni sem leita til félagins þurfa ekki lengur að fara í gegnum athöfn hjá sýslumanni aukalega.

Þá er Siðmennt orðið aðili að sóknargjaldakerfinu sem þýðir að fyrir alla félaga Siðmenntar (16 ára og eldri) fær félagið úthlutað fastri upphæð mánaðarlega (var kr. 701 fyrir 2012) frá ríkissjóði.  Félagið er hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og hefur ekki verið hlynnt sóknargjaldakerfinu þar sem það er í raun byggt á skattheimtu en ekki félagsgjaldi, en að svo stöddu vildi félagið standa jafnfætis trúarlegum lífsskoðunarfélögum (trúfélögum) hvað þetta varðar.  Mikilvægi jafnrar meðferðar ríkisins gagnvart alveg sambærilegum aðilum er því tryggt með þessari lagabreytingu hvað sóknargjaldakerfið varðar.

Félagið er búið að berjast fyrir þessari réttarbót og mannréttindum til handa trúlausu fólki sem kemur undir merkjum húmanismans saman í lífsskoðunarfélaginu Siðmennt á virkan máta í um 13 ár og því ríkir mikil gleði meðal aðstandenda félagsins með þennan áfanga.

Stjórn Siðmenntar þakkar innilega öllum þeim sem hafa stutt þessa réttindabaráttu félagsins í gegnum árin. Það er að hefjast nýr kafli í sögu félagsins.

Til baka í yfirlit