Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Einstaklega góð hugvekja Huldu Þórisdóttur í athöfn fyrir alþingismenn

Í morgun flutti Hulda Þórisdóttir, Ph.D. í sálfræði, hugvekju á vegum Siðmenntar í athöfn þeirri sem félagið bauð alþingismönnum fyrir setningu Alþingis 1. október.  Hulda er lektor við HÍ og er þekkt fyrir það m.a. að hún skrifaði sálfræðilegt mat á fjármálahruninu í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.

Texti hugvekjunnar, sem hún kallaði „Stefnt að betri ákvörðunum“, er hér allur fyrir neðan.

Nú þáðu 13 alþingismenn frá 4 af 5 flokkum á Alþingi og utan flokka, boð félagsins.  Þetta er 1/5 hluti þingmanna og er mikið stökk í þátttöku. Siðmennt þakkar þeim fyrir komuna og ánægjulega stund saman.

Hér fer hugvekja Huldu:

 

Stefnt að betri ákvörðunum

Nú fer enn eitt annasamt þing í hönd og ekki veitir af að blása ykkur þingmönnum andann í brjóst fyrir það starf sem framundan er. Ég ætla því að nota þessa stund til þess að lauma að ykkur fróðleiksmolum úr kistli sálfræðinnar og í anda húmanismans. Molum sem vonandi nýtast í starfi vetrarins.

Eins og segir í stefnu Siðmenntar þá er kjarni manngildisstefnunnar, eða húmanisma þrískiptur. Það eru siðferði, þekkingarfræði og fjölskyldan.

Siðferðisleg afstaða húmanista kristallast í því að þeir trúa ekki að heimurinn lúti stjórn æðri veru eða krafta, og því við neyðumst við sjálf til að vera yfirumsjónarmenn okkar eigin lífs. Húmanismi felur í sér að bera ábyrgð á heiminum sem við hrærumst í, þó hann sé stundum ófrýnilegur og jafnframt gera það sem við getum til þess að bæta hann – þó við vitum að því verki verði aldrei lokið. Þessa ábyrgð hafið þið þingmenn valið að bera í enn ríkari mæli en við flest hin.

Þekkingarfræði húmanista tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Í þessu felst að húmanistar leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að við vöndum okkur við hugsun og ákvarðanir. Að við forðumst í lengstu lög að fella sleggjudóma, draga rangar ályktanir eða fljóta sofandi að feigðarósi þegar við hefðum betur staldrað við og hugsað málið. Og þið, ágætu þingmenn, þurfið að taka fleiri og afdrifaríkari ákvarðanir en við flest hin.

Sálfræðingar hafa verið iðnir við það undanfarin ár að kortleggja með hvaða hætti heilinn beitir í sífellu snjöllum þumalfingursreglum til þess að hjálpa okkur að komast í og taka ákvarðanir gegnum lífið. Til dæmis beitum við sífellt þeirri þumalfingursreglu að fyrirbæri sem vekja með okkur vellíðan séu æskileg og þau sem vekja með okkur vanlíðan óæskileg. En gallinn við þumalfingursreglurnar er að þær geta einnig afvegaleitt og skekkt hugsun okkar, og gera það nokkuð kerfisbundið.

Algengasta skekkjan og sú sem hrjáir stjórnmálin líklega mest er staðfestingarskekkjan. Staðfestingarskekkjan leiðir af þeirri þumalfingursreglu að almennt er mun skilvirkara að staðfesta það sem við teljum okkur sjá og vita, heldur en að draga það í efa. Ef mér virðist ég sjá vin minn tilsýndar er mun skilvirkari leið til að ákveða hvort þetta sé raunverulega hann að bera saman skynjun mína við þá mynd sem ég hef af honum í minninu heldur en að bera skynjunina saman við alla aðra einstaklinga í minni mínu. Þessi afar skilvirka þumalfingursregla getur þó leitt til skekkju. Þegar fólk vill komast að ákveðinni niðurstöðu, hvort sem það er meðvitað um þann vilja sinn eða ekki, þá meðtekur það upplýsingar og vinnur úr þeim í takt við þessa æskilegu niðurstöðu. Einnig eru upplýsingar sem ganga gegn hinni æskilegu niðurstöðu endurtúlkaðar, hunsaðar eða dæmdar ógildar. Þetta er sérstaklega líklegt til að gerast þegar um er að ræða margbrotin mál þar sem tína má til margskonar staðreyndir.

Staðfestingarskekkjan birtist mjög augljóslega í því að við höfum tilhneigingu til þess að trúa orðum samherja en draga orð mótherja í efa. Í einni rannsókn lásu til dæmis Ísraelar og Palestínuarabar tillögu að lausn deilunnar þeirra á milli. Allir sáu sömu lausnina en helmingi þátttakenda var sagt að lausnin hefði verið lögð fram af, af þeirra eigin fólki en hinum helmingnum að hún kæmi frá andstæðingnum. Niðurstöður voru sláandi. Væri lausnin talin upprunnin í eigin ranni var hún talin sanngjörn og fela í sér umtalsverða eftirgjöf af þeirra hálfu. Væri hún á hinn bóginn talin koma frá andstæðingnum var hún metin óbilgjörn og ósanngjörn. Þetta átti bæði við um Ísraela og Palestínuaraba. Okkur virðist nánast ekki sjálfrátt þegar kemur að staðfestingarskekkjunni því nýjar rannsóknir á heilastarfsemi hafa sýnt að við einfaldlega meðtökum aldrei upplýsingar sem ganga gegn því sem við viljum trúa á meðan við kjömsum á upplýsingum sem staðfesta hið æskilega.

Önnur lævís en algeng skekkja er sú sem stafar frá þumalfingursreglunni um tiltæki. Tiltæki er sú almenna hugmynd að því auðveldara sem við eigum með að kalla hluti fram í hugann því algengari hljóti þeir að vera. Skekkjan sem af þessu leiðir er að við ofmetum líkurnar á því að hlutir sem eru myndrænir eða eftirminnilegir eigi sér stað. Þannig hafa rannsóknir sýnt að fólk stórlega ofmetur dánartíðni af völdum umferðaslysa en vanmetur mjög dánartíðni af völdum hjartaáfalla. Tilfinningar magna upp tiltækisskekkjuna, sé ekki bara auðvelt að kalla fram hlutinn heldur veki hann einnig upp sterkar tilfinningar, þá er nær öruggt að hann mun fá of mikið vægi í ákvörðunartöku.

Hagsmunasamtök nýta sér reglurnar um tiltæki og tilfinningar þegar þau reyna að hafa áhrif á stjórnmálamenn. Takist þeim að láta málefni sitt snúast um tilfinningar og halda því stöðugt á lofti, er nær öruggt að bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn munu veita því athygli og setja á dagskrá. Í Bandaríkjunum er frægt hvernig repúblikanar börðust með mjög áhrifaríkum hætti gegn erfðaskatti á stóreignafólk með því að endurnefna hann dauðaskatt og mála þar með ógeðfellda og tilfinningahlaðna mynd sem auðvelt er fyrir fólk að kalla fram. Hver gæti mögulega verið hlynntur því að leggja skatt á dauðann? Einnig má sjá hér á landi að tilfinningahlaðin málefni með öfluga talsmenn fá oft meira vægi í samfélagsumræðunni en ætla mætti af mikilvægi þeirra. Ég hugsa að staðgöngumæðrun gæti fallið þarna undir.

Skrásettu skekkjurnar eru miklu fleiri en þær sem ég hef nefnt hér, aðrar sem má nefna eru auðmeltanleiki, hunsun grunntíðni, festun huglægra akkera, yfirfærsla, eftiráskekkjan, ofmat og svo mætti áfram telja.

Þar sem skekkjurnar eru iðulega ómeðvitaðar höfnum við því iðulega af heilagri vandlætingu sé það á okkur borið að hafa viðhaft skekktan þankagang þegar við tókum ákvörðun. Sem dæmi má taka gjafir lyfjafyrirtækja til lækna. Gjafirnar hafa verið allt frá pennum til lúxusferðalaga undir yfirskini vísindaráðstefna. Flestir læknar þvertaka fyrir að þeir verði fyrir áhrifum frá þessum gjöfum og að fagleg dómgreind þeirra ráði ferðinni. En bandarískar rannsóknir hafa sýnt að læknar eru jákvæðari í garð fyrirtækja sem þau hafa þegið af gjafir og líklegri til að ávísa lyfjum frá þeim en öðrum. Læknarnir eru jafnframt fúsir til að viðurkenna að gjafir lyfjafyrirtækja gætu haft áhrif á aðra lækna en hafna því alfarið að þær geti blindað þeirra eigin dómgreind.

Þingmenn eru í sérstaklega erfiðri stöðu þegar kemur að skekkjunum vegna þess að eftir því sem okkur standa fleiri upplýsingar til boða og okkar bíða flóknari ákvarðanir, því líklegri erum við til þess að grípa til þumalfingursreglna og þar með falla í einhverja gryfju þankaskekkja. Einnig hafa flestar skekkjurnar tilhneigingu til að magnast upp í hópum og sömuleiðis gerir það ekki gagn að hugsa lengur um málefni því eftir því sem við hugsum lengur um viðkomandi efni þá aukast einfaldlega áhrif skekkjunnar. Til þess að bæta gráu ofan á svart er vel gefið fólk enn líklegra en aðrir til að vera fórnarlömb staðfestingarskekkjunnar. Ástæðan er sú að vel gefið fólk er sérlega lunkið við að tína til sannfærandi staðreyndir hugsun sinni til stuðnings.

En hvað er þá til ráða? Er einhver leið að forðast skekkjurnar og taka betri ákvarðanir? Staðreyndin er sú að erfiðlega hefur gengið að þjálfa fólk til þess að vinna sig út úr skekkjunum. Hægt er að þjálfa fólk til þess að draga úr staðfestingarskekkjunni á ákveðnum sviðum, en það heldur samt áfram að falla fyrir henni á öðrum sviðum. Sálfræðingarnir Bazerman og Moore sem lengi hafa kennt ákvörðunartöku og samningatækni við Harvard háskóla leggja áherslu á að þegar taka þarf flókna og viðamikla ákvörðun þurfum við að byrja á að skilgreinum vandann, skilgreina mælanleg markmið, velta upp eins mörgum mögulegum lausnum og hugmyndaflug okkar hefur svigrúm til og gæta þess sérstaklega að uppi á borðinu séu einnig lausnir sem ganga gegn fyrirframgefnum hugmyndum og skoðunum. Einungis eftir þessi vinna hefur skipulega átt sér stað er hægt að taka upplýsta ákvörðun. Ákvarðanataka með þessum hætti gerist ekki að sjálfri sér, í hópum er áhrifaríkt að skipa fólki í hlutverk. Einn tekur að sér að vera það sem á ensku er kallað „handbendi djöfulsins“ en við gætum nefnt „fúll á móti“, annar sem fær það hlutverk að spyrja í sífellu hvort lausnin komi til móts við markmiðin og svo mætti áfram telja. Einstaklingar ættu að temja sér að hugsa eins og vísindamenn og leita í sífellu eftir staðreyndum sem geta fellt kenningar okkar. Lesum málgögn andstæðinganna, og leggjum það á okkur að velta því upp um stund hvaða styrkleikar séu í málflutningnum. Sækjumst eftir samneyti við þá sem við teljum skynsama en eru okkur ósammála um ýmislegt – vonandi finnið þið nokkra slíka á vinnustað ykkar.

Ágætu þingmenn, ég vona þessi lestur um galla mannlegrar hugsunar sendi ykkur ekki niðurlúta út í slagviðrið. Það er í anda húmanisma að horfast í augu við galla mannsins en gefast ekki upp fyrir þeim heldur reyna að bæta okkur sjálf – og þar með mannkynið. Eins og segir í stefnuyfirlýsingu húmanista:  Við veljum bjartsýni en ekki svartsýni, von en ekki örvæntingu, lærdóm en ekki kreddur, sannleika en ekki fáfræði, gleði en ekki sekt eða synd, umburðarlyndi en ekki ótta og skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.

Til baka í yfirlit