Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ræða Sigrúnar Blöndal við Borgaralega fermingu 2018

Sigrún Blöndal flutti ávarp við Borgaralega fermingu Siðmenntar á Egilsstöðum 2. júní 2018

Kæru fermingarbörn og góðir gestir.

Það er afar ánægjulegt að fá að vera með ykkur í dag við þessa athöfn, borgaralega fermingu, en með henni færist þið, ágætu fermingarbörn, skrefinu nær því að teljast fullorðin. Þessi tímamót eru mörkuð með ýmsum hætti og hafa verið um aldir um allan heim. Á Íslandi hefur það lengst af tíðkast að börn fermist í kirkju, af presti og um leið sé skírnarheitið staðfest.

Þegar ég var á fermingaraldri ákvað ég að fermast ekki. Það þótti ekki sjálfsagt þá að taka þá ákvörðun og raunar var það þannig að í 100 manna árgangi í skólanum mínum vorum við aðeins tvö sem ekki fermdust; Ég vegna þess að ég taldi mig ekki trúa á Guð og gæti þar með ekki staðið frammi fyrir prestinum og lofað að gera Guð að leiðtoga lífs míns. Hinn nemandinn var í sértrúarsöfnuði þar sem fermingar tíðkuðust ekki. Sem betur fer átti ég góða félaga sem nýttu sér ekki tækifærið til að stríða mér á þessu og ég hef aldrei séð eftir þessari ákvörðun. Var bara hæstánægð með úrið sem pabbi og mamma gáfu mér.

En ég hefði gjarnan viljað hafa aðra kosti – eins og þið hafið haft. Möguleika á að vera með jafnöldrum mínum og ræða um lífið og tilveruna, tilgang lífsins og um þau mörgu litbrigði lífsins sem við getum átt von á á lífsgöngunni.

Því það er einmitt það sem þið þurfið að reikna með af lífinu; öllum þeim óvæntu litbrigðum sem lífið býður upp á. Enginn getur gengið í gegnum lífið án þess að mæta áskorunum, kynnast sorg en líka ómældri gleði og það sem skiptir mestu máli er að taka hverjum degi eins og hann er og reyna að vinna úr því sem hann færir okkur.

Í öllu því framboði af afþreyingu og skemmtun sem við höfum tækifæri til að njóta verðum við líka að muna að gleði og hamingja felast kannski mest í að eiga góða að, vera heilsuhraustur, vera í vinnu sem veitir okkur ánægju og síðast en ekki síst að vera sáttur við sjálfan sig.

Ég hef enga tölu á hve mörgu ungu fólki ég hef kennt í gegnum tíðina en þau eru mörg hundruð, ef ekki einhver þúsund. Það sem gleður mig alltaf jafn mikið er þegar ég hitti þetta fólk, orðið eldra og ráðsettara er að þau eru búin að finna sína hillu í lífinu, svotil undantekningarlaust.  Og mestu fjörkálfarnir eru líka orðnir ráðsettir – flestir – og hafa axlað þá ábyrgð sem fylgir því að verða fullorðinn.

Og það hjálpar jafnvel að taka hlutunum ekkert of hátíðlega; skemmta sér yfir litlu hlutunum og geta gert grín að sjálfum sér! Ég vona nú samt að þið eigið ekki eftir að verða eins utan við ykkur og ég hef orðið í seinni tíð, því þá er hætt við að þið farið út á sitthvorri tegund af skóm eða setjist inn í aðra bíla en ykkar eigin; en ef þið verðið svoleiðis þá þýðir ekkert annað en reyna að hafa gaman af því.

Ég veit að þegar við hittumst í haust verðið þið orðin enn fullorðinslegri en í dag – og þá ekki síður eftir næsta sumar! Því á þessum árum gerist svo gríðarlega mikið í kollinum á ykkur – ekki bara líkamanum sjálfum. Þið lærið svo margt nýtt, hittið stöðugt nýtt fólk, aflið ykkur meiri reynslu. Hugsið ykkur að núna þykir ekkert tiltökumál að ungt fólk ferðist í kringum hnöttinn, eyði áramótunum í Dubai, páskunum í New York og sumrinu á Krít! Allur heimurinn hefur opnast og þið getið nánast farið hvert sem þið viljið. Hindranir og girðingar sem lengst af hafa verið eru flestar að hverfa og það sem helst getur aftrað ykkur í að prófa nýja hluti eruð þið sjálf!

Það er einmitt það sem við verðum að vera meðvituð um að ef hlutirnir ganga ekki alveg eins og við viljum eða höfðum reiknað með þá er það ekki endilega öðrum að kenna! Við eigum yfirleitt einhvern þátt í því hvernig hlutirnir æxlast. Ef okkur lendir saman við félaga okkar er líklegt að við höfum átt einhvern þátt í því! Ef okkur gengur illa í einhverju í skólanum er ekki alveg hægt að kenna kennaranum einum um – eða leiðinlegu námsefni. Þó hvort tveggja geti auðvitað verið hundleiðinlegt. Það er gjarnan eitthvað í hugarfari okkar, vinnulagi eða ástundun sem er þýðingarmest fyrir gengi okkar. Ef við missum af tækifærum sem okkur bjóðast getur það verið vegna þess að við erum ekki nægilega fljót að hugsa og taka ákvörðun. Við þurfum stundum bara að láta slag standa og prófa hlutina þó við séum ekki alveg örugg með að okkur takist þeir. Það gerist þá ekkert verra en að það gengur ekki og við reynum eitthvað annað. Ekki vera hrædd við að prófa nýja hluti; það er svo eðlilegt að það takist ekki allt sem við tökum okkur fyrir hendur.

Og svo er gott að sætta sig við að hlutirnir ganga ekki alltaf upp í fyrstu tilraun. Æfingin skapar meistarann. Svolítið eins og ef við ætlum að baka brauð. Það gengur kannski ekki nægilega vel í fyrstu tilraun; vökvinn er of heitur og gerið nær sér ekki á strik. Það er of mikið mjöl eða of lítil feiti. En í annarri tilraun gengur betur og svo þegar þið eruð búin að baka nokkrum sinnum þá klikkar það varla nokkurn tímann. Það sem er kannski erfiðast að læra í dag – fyrir ykkur sem eruð vön því að allt gangi svo hratt fyrir sig – er að það er sumt sem þarf tíma. Við þurfum tíma til að læra nýja hluti og það verður að reikna með að það þurfi að læra af reynslunni. Þekkt máltæki segir; Enginn verður óbarinn biskup“ og það er eiginlega ágætt að hafa það í huga.

Lífð blasir við ykkur kæru fermingarbörn! Heimurinn er opinn ykkur og þið þurfið aðeins að finna út úr því hvað ykkur langar til að gera. Ekki láta tískustrauma eða einhverja sjálfskipaða spekinga segja ykkur hvað þið eigið að gera. Þið finnið það best sjálf. Ef ykkur langar að læra eitthvað sérstakt – sem jafnvel þykir ekki nógu hagnýtt – þá skulið þið samt gera það. Ef þið eruð ánægð og finnst það henta ykkur munið þið finna ykkur starfsvettvang. Það þarf ekki að vera óhagnýtara að læra heimspeki en viðskiptafræði. Viðmið sem hafa einhverntímann verið talin góð og gild eru það kannski ekki lengur! Allt nám undirbýr ykkur fyrir framtíðina, bæði verklegt og bóklegt.  Og svo er ekkert að því að brjóta viðmiðin og brjóta um leið blað. Alveg eins og þegar við Íslendingar kusum fyrsta kvenforseta í heiminum. Þá brutum við blað og í síðustu forsetakosningum buðu sig fram fjórar konur og fimm karlar. Baráttan stóð á milli konu og karls. Hvort þeirra sem var hefði getað unnið.

Ykkar eru tækifærin – ykkar er að grípa þau. Reynið að njóta dagsins í dag, við vitum aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér!

Kæru fermingarbörn! Innilega til hamingju með daginn ykkar! Framtíðin er björt og hún er ykkar!

Sigrún Blöndal

Til baka í yfirlit