Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Löggjafarþjónustan – ræða Guðmundar Andra við þingsetningu 2017

Kæru alþingismenn og aðrir gestir.

Enn á ný komið þið hér saman, fulltrúar þjóðarinnar, til að setja landinu lög, búa okkur umgjörð um líf okkar. Ég óska ykkur heilla í því vandasama starfi sem bíður ykkar og minni ykkur á að þingmennskan er virðingarstaða, þetta er valdastaða og  hvað sem einhverjir  reyna að telja ykkur trú um  þá er atkvæði ykkar hér á alþingi þrungið öllum þeim krossum sem hafa verið settir á seðla með ykkar nafni; þaðan kemur ykkur vald, ekki frá hagsmunasamtökum eða flokksstofnunum heldur frá þeim kjósendum sem þið þjónið og starfið í umboði fyrir. Ef þið hafið það í huga mun ykkur farnast vel í störfum ykkar.

Ég verð að játa að sú mynd sem fjölmiðlar gefa okkur af störfum alþingis mætti vera ánægjulegri. Við sjáum alþingismenn baða út höndunum og keppast við að buna út úr sér athyglisgrípandi einlínungum á meðan virðulegur forseti djöflast á bjöllu, sem glymur svo hátt að maður heldur að eitthvað hræðilegt sé í þann veginn að fara að gerast. Væri ekki einfaldara að rétta bara viðkomandi miða þegar komið er fram yfir áskilinn tíma – eða jafnvel hafa bara hlera í gólfinu sem hægt væri að steypa viðkomandi ræðumanni niður um, fáist hann ekki til að hætta að tala?

Það er nauðsynlegt í opnu samfélagi að skiptast á skoðunum: Gjörðu svo vel, hér er mín skoðun, þú mátt hafa hana, leyfðu mér að sjá þína, má ég hafa hana? Samræður eru einkennilega vanmetnar hér á landi. Það hefur meira að segja tekist að gera skammaryrði úr orðinu „samræðustjórnmál“ samkvæmt þeirri hugmynd að engu sé komið í verk nema einhver einn taki af skarið – taki skarið af öllum hinum, ráði enn. Við búum við ofurveldi einræðusinna hér á landi. Hér er það talið til vitnis um styrk og staðfestu að hlusta ekki á það sem annað fólk hefur fram að færa og skipta aldrei um skoðun þó að búið sé að skipta um allt annað í manni, ekki síst heilasellurnar og heimurinn sé sífellt að breytast.

Maður sér þetta til dæmis í sjónvarpinu. Þá sitja tvær manneskjur með þáttarstjórnanda á milli sín patandi eins og dómari í boxi; önnur talar og talar en ekki við neinn sérstakan en hin situr með ólundarsvip og bíður þess að komast að með einræður sínar. Svo vinnur annar á stigum, sem talin eru í facebooklækum.

Íslenskir einræðusinnar tala um „að hafa orðið“, eins og orðið sé herfang sem maður ætli ekki að láta af hendi fyrr en í fulla hnefana – eða bolti í leik og maður megi „hafa ‘ann“ eins lengi og maður geti haldið honum. FMálþófið á alþingi er svo önnur tegund af einræðum, eiginlega óræður; þetta kann að vera viss neyðarréttur minnihluta þegar meirihluti ætlar að knýja í gegn ólög sem mikil og almenn andstaða er við í samfélaginu en hefur í seinni tíð verið notað markvisst til að stöðva að meirihluti nái fram málum sem meirihluti þjóðarinnar er hlynntur. Sumir alþingismenn hafa sérhæft sig í því að halda þess háttar óræður, sem haldnar eru til að tala svo að aðrir tali ekki eða aðhafist eða komist lönd né strönd; ekki haldnar til að  að ræða heldur ráða.

Málþófið og hin fáránlegu andsvaraleikrit þar sem röflið ríkir ofar hverri kröfu – hæstvirt röflið – hafa mótað sýn landsmanna á störf alþingis og gefið þá tilfinningu að hér sé valdalaus og tilgangslaus geymslustöð meðan raunverulegar ákvarðanir séu teknar að tjaldabaki. Það kann að vera sitthvað til í því en ég minni aftur á að alþingismenn hafa völd sem við kjósendur höfum veitt þeim. Mér virðist raunar stundum gæta vissrar þversagnar í viðhorfum landsmanna til alþingismannanna. Ósjaldan heyrir maður eða sér fúkyrðaflaum um þingmenn, ágirnd þeirra, leti og ómennsku – stundum er engu líkara en að þessi fúkyrðaflaumur lifi sjálfstæðu lífi og renni daunillur um þjóðardjúpin inn í fólk og út úr því aftur, án þess að það beinlínis hugsi út í að það var það sjálft sem sendi þessar voðalegu manneskjur á þing þegar það ráðstafaði atkvæði sínu í þingkosningum. Alþingismenn eru fulltrúar þjóðarinnar. Við  búum að vísu ekki við jafnan atkvæðisrétt hér á landi og þess vegna getur fulltrúalýðræði okkar ekki gert alveg nægilega sterkt tilkall til þess að mega heita endurspeglun á einhvers konar þjóðarvilja, en engu að síður er það einkennilegt að fólk skuli upp til hópa ekki tengja eigin ráðstöfun á atkvæði við það fólk sem á alþingi situr hverju sinni. Ef fólk vandaði sig betur þegar það kýs, og ráðstafaði atkvæði sínu oftar í samræmi við almenn lífsviðhorf sín en síður vegna einstakra upphlaupsmála væri það kannski ánægðara með þessi fulltrúa sína.

Ég verð að játa að ég verð alltaf dálítið raunamæddur þegar ég sé fúkyrðaflauminn um þingmenn. Þó að mér geti sjálfum þótt hitt og þetta um það fólk sem situr á alþingi hverju sinni finnst mér starf alþingismanna vera mjög mikilsvert. Alþingismenn eru nokkurs konar löggjafarþjónar, eins og við tölum um lögregluþjóna, sem er fallegt orð. Raunar er orðið „þjónn“ alltof sjaldan notað í tungumáli okkar og orðið sem er leitt af því, „þjónusta“. Ef alþingismenn og almenningur hugsuðu um störfin á þinginu út frá þessum orðum kynni kannski að draga úr fúkyrðaflauminum. Þingmenn eru sem sé í störfum sínum sífellt að eiga við lögin í landinu og þar með hafa áhrif á líf okkar og kjör, menningu okkar og svipmót samfélagsins. Það er þjónustustarf. Ég held að allt vald þurfi að nálgast ævinlega út frá því orði, þeim hugsunarhætti. Ég held að það hafi verið mjög slæmt þegar Íslendingar hurfu frá því að þýða orðið minister með orðinu ráðgjafi en fóru þess í stað að tala um ráð-herra, sem er afleitt orð um þetta starf. Við ættum að taka upp orðið ráðgafi á ný í þessari merkingu og í stað þess að tala um ríkisstjórn gætum við talað um Ráðgjafarþjónustuna.

Kæru alþingismenn, ágætu löggjafarþjónar og aðrir viðstaddir. Í bók sinni Yfir heiðan morgun sem kom út á síðustu öld orti Stefán Hörður Grímsson:

Sannleikur er landamæralaus

eins og lygin

hún er sennilegri

en bæði hafa geðfelldan tón.

Þetta var ort fyrir daga internets en skáldin eru sjáendur og þetta ljóð var ort um okkar daga. Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrir okkur að læra að greina á milli lyginnar og sannleikans, þegar falskar fréttir flæða yfir fólk þar sem það situr aleitt við skjáinn, ráðvillt og skelkað og skimandi eftir ímynduðum óvinum. Lygin er alltaf sennilegri. Það eru viðsjár í heiminum, og við þurfum að standa vörð um grundvallarhugsjónir og verðmæti á borð við frið, sem er alltaf markmiðið við sjónarrönd og líka sjálfur vegurinn, og kærleika, sem maður gefur aldrei afslátt af, því hann fellur aldrei úr gildi.  Við þurfum að tala saman en ekki sundur. Við þurfum að skiptast á skoðunum. Við þurfum að ræða en ekki ráða. Við þurfum að leita sannleikans en ekki ganga á götum lyginnar. Við þurfum að varðveita merkingu fögru orðanna, ‚frelsi‘, ‚góður‘, ‚réttur‘, ‚hugsun‘. Þetta er jákvæð orð sem við höfum um það besta sem mönnunum er gefið. Við megum ekki láta taka merkinguna frá okkur þannig að ‚góður‘ og ‚réttur‘ og ‚hugsun‘ séu skammaryrði og ‚frelsi‘ þýði rétt til að beita ofríki og kúgun.

Við erum alls konar og þið eruð fulltrúar okkar, kæru þingmenn. Við getum verið frjálslynd eða stjórnlynd, skiplagsgefin eða óreiðusinnuð, trúuð eða trúlaus, vinstri sinnuð eða hægri sinnuð: litið svo á að einkaframtakið og frjáls markaður leysi allan vanda eða að farsælla sé að nálgast málin út frá sameiginlegum hagsmunum á samfélagslegum grunni. Um þetta er tekist í stóru og smáu úti í samfélaginu og hér á alþingi eins og vera ber í lifandi og opnu samfélagi: En við deilum öll líka tilteknum hugmyndum og hugsjónum, grundvallarlífssýn sem sameinar okkur. Mig langar að minna á hér að lokum að upp til hópa erum við fólk sem sem vill ekki að börn séu send á vergang heldur að þeim hlúð og þeim veitt skjól til að vaxa og dafna.

Til baka í yfirlit