Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Jólin koma þrátt fyrir allt – Jólahugvekja framkvæmdastjóra á Sinawik fundi 17. desember

Á dögunum fengum við í Siðmennt skemmtilegt heimboð sem við gátum ekki hafnað. Sinawik konur í Keflavík höfðu samband og spurðu hvort fulltrúi frá okkur væri til í að koma á jólafund félagsins og flytja þar jólahugvekju. Úr varð að framkvæmdastjórinn okkar, Siggeir F. Ævarsson, gerði sér ferð norður Reykjanesið og flutti örstutta kynningu á Siðmennt og síðan jólahugvekju sem má lesa hér að neðan. Það var okkur sönn ánægja að taka þátt í þessum fundi, en líflegar og skemmtilegar umræður sköpuðust um Siðmennt í kjölfarið. Við erum alltaf tilbúin að koma í heimsóknir til þeirra sem þess óska og kynna félagið, og tökum fagnandi á móti öllum slíkum beiðni. Hægt er að hafa samband beint við framkvæmdastjóra á netfangið siggeir@sidmennt.is.

Jólahugvekja kvöldsins fylgir svo hér á eftir:

Örstutt aðfararorð

Fyrir nokkrum árum, áður en ég kom til starfa fyrir Siðmennt, flutti ég fyrirlestur sem bar heitið „Hver stal jólunum, Trölli, Trump eða trúleysingjar“ (þar sem Trump var yfirheiti fyrir kapítalisma til að láta heitið stuðla). Niðurstaðan úr þeim fyrirlestri var fyrst og fremst sú að jólin eru aldagömul hefð, töluvert eldri en kristni, og í dag eru þau ógurlegur hrærigrautur hefða úr öllum áttum, gegnsýrð af markaðsvæðingu og kapítalisma nútímasamfélags, en eru nú samt yndisleg hátíð þrátt fyrir allt, svona í flesta staði!

Jólin koma þrátt fyrir allt

Hugmyndin að þessari hugvekju kviknaði eftir samtal við góðan vin minn sem sagðist í raun varla þola jólin. Þau vekja hjá honum kvíða og í hans huga eru þau fyrst og fremst erfið andleg vinna. Hann þolir ekki að kaupa gjafir, og því síður að mæta í jólaboð og spjalla við fólk sem hann þekkir misvel og svo er það jólamaturinn sjálfur. Að elda mat fyrir sjö manneskjur sem allar eru með sérþarfir veitir honum takmarkaða gleði og skapar einvörðungu stress.

Fyrir einhverjum árum var ég á svipuðum stað. Jólin voru alltaf mjög þægileg þegar ég var yngri. Langt frí frá skóla og hversdagslegu amstri, og mamma sá um allt. Þegar ég hugsa til baka var álagið á hana sennilega ekki eðlilegt um jólin, og ég man eftir a.m.k. tveimur jólum þar sem hún var steinsofandi í sófanum fljótlega eftir mat. Og af hverju vilja mömmur alltaf mála eldhúsið korter í jól? Ein af mínum sterkustu jólaminningum er þegar litla systir mín hellti fullri fötu af málningu yfir sjálfa sig og allt eldhúsið. Það var sko hressandi morgun!

Þegar konan mín fékk það svo loks í gegn að við skyldum halda okkar eigin jól (ég vildi bara vera áfram hjá mömmu, það var svo þægilegt fyrir mig!) var aðallega tvennt sem aftraði okkur frá því að halda stresslaus jól. Takmörkuð fjárráð ungra námsmanna settu sannarlega strik í reikninginn og sköpuðu mikla spennu á heimilinu. Þau héldust svo í hendur við annan stóran þátt, sem voru allar jólahefðirnar sem við komum bæði með á bakinu inn í okkar sameiginlega jólahald. Hver segir að jólahefðirnar okkar þurfi að vera þær sömu og foreldra okkar? Eða þær sömu og forfeðra okkar? Því hvað eru hefðir annað en jafningaþrýstingur frá löngu látnu fólki? Svo hef ég komist að því að flestar ef ekki allar „íslenskar“ jólahefðir eru hvorki mjög íslenskar þegar betur er að gáð, né sérlega gamlar eða rótgrónar heldur, og hvað þá að þær eigi uppruna sinn í kristni.

Um leið og við áttuðum okkur á að við þyrftum að skapa okkar eigin jólahefðir en ekki láta jólahaldið stýrast af einhverjum utanaðkomandi hugmyndum um jólin, varð allt miklu auðveldara. Lykilatriði er auðvitað að átta sig á því að jólin koma alltaf þrátt fyrir allt. Mér finnst það t.d. mjög slæm jólahefð að þrífa ofan af eldhússkápunum fyrir jól. Ég er ekki að fara að borða jólamatinn þar. Jólin koma líka þó svo að það sé ekki búið að baka 17 sortir (mjög þægilegt líka að eiga tengdamóður sem bakar fyrir alla stórfjölskylduna), eða þó svo að stóra serían í stofunni fari ekki upp, eða það sé ekki búið að skúra alla íbúðina fyrir klukkan 18:00 á aðfangadag. Og eins gaman og mér þykir að fá jólakort, þá nenni ég bara ekki að senda þau lengur. Alltof oft var ég að hendast á pósthúsið rétt fyrir lokun á síðasta degi til að senda, með kort með kveðjum til fólks sem ég hafði ekki séð eða heyrt í mörg ár, og var ekki að fara að hitta á næstunni.

Ég hef því markvisst strokað allan óþarfa út úr aðventunni hjá fjölskyldunni undanfarin ár, og jólin hafa ekkert versnað, raunar bara orðið betri og betri. Frekar en að þrífa eldhússkápana pöntum við pizzu og horfum á jólamynd með stelpunum okkar. Frekar en að eyða nokkrum kvöldum í að handskrifa jólakort sest ég niður með jólabjór og spila tölvuleik, þó svo að mamma mín spyrji reglulega hvort ég sé ekki orðinn of gamall til að spila tölvuleiki. Frekar en að mála eldhúsið átta ég mig á að það eru bara ákveðið margar dagar í desember og vel svo hvað ég vil gera. T.d. um helgina hættum við bara öllu jólagjafastússi kl. 17:00, fórum út að borða saman fjölskyldan á góðum veitingastað og síðan heim og horfðum á jólamynd, og það var afskaplega notalegt og stresslaust.

Því fyrir mér snúast jólin fyrst og fremst um að njóta tímans saman með fjölskyldu og vinum. Ég held nefnilega að kjarni jólanna sé svipaður hjá flestum á Íslandi, óháð trú og trúarbrögðum. Jólin hjá mér og mínum snúast a.m.k. númer eitt, tvö og þrjú um samveru og notalegar stundir með þeim sem mér þykir vænt um. Það hljómar kannski eins og klisja en jólin eru sannarlega tími ljóss og friðar, ástar og kærleiks.

Hraðinn í amstri dagsins er óþægilega mikill í dag. Í desember eiga hlutirnir það svo til að fara á yfirsnúning. En ég vel að taka á móti desember og velja og hafna, og velja það sem veitir mér ánægju, og hafna því sem veldur mér stressi. Því jólin koma alltaf þrátt fyrir allt, og ef dætur mínar vilja vera í náttfötum meðan þær borða jólakalkúninn, þá er það bara frábært. Jólin koma þrátt fyrir að maður sé ekki í sparifötum. Þau koma þrátt fyrir allt, og því er um að gera að nýta tímann til góðs og njóta þess að vera til. Kúpla sig eftir fremsta megni útúr stressinu og fagna jólunum stresslaus með frið í hjarta, í faðmi þeirra sem manni þykir vænt um.

Um það snúast jólin fyrir mér. Það tók mig smástund að átta mig á því, en ég myndi ekki vilja snúa til baka í stressið.

Ég vona að þið eigið líka að mestu stresslaus jól og njótið samvista með þeim sem ykkur þykir vænt um, og óska ykkur að lokum gleðilegra jóla.

Til baka í yfirlit