Fara á efnissvæði

Veraldleg gifting

Giftingar Siðmenntar eru ekki trúarathafnir, heldur húmanískar og veraldlegar. Parið sem gengur í hjónaband er í forgrunni og vilji þeirra til þess að staðfesta heit sín og ást, vináttu, traust og virðingu.

Kostnaður 65.000 kr.
Fyrir félaga í Siðmennt 20.000 kr á mann
Fyrir hverja er veraldleg gifting?

Veraldleg gifting er fyrir öll þau pör sem aðhyllast veraldlegar eða húmanískar lífsskoðanir eða vilja ekki af einhverjum ástæðum hafa trúarlega athöfn. Siðmennt neitar engum um þessa þjónustu, hvort sem að fólk er trúað eða ekki.

Siðmennt gerir ekki upp á milli ástarsambanda og leiðir pör saman til giftingar óháð kynhneigð. Þannig verða samkynhneigð pör að hjónum með sömu stöðu og þau gagnkynhneigðu í augum húmanista. Ástin ræður.

Uppbygging giftingaathafna

Húmanísk gifting er að öllu leyti hin sama og veraldleg utan þess að hún felur í sér giftingu pars þar sem bæði eru húmanistar að lífsskoðun og óska e.t.v. eftir ríkari áherslu á umfjöllun um húmanisma eða húmanísk gildi við athöfnina.

Í veraldlegri giftingu er gerandinn parið sjálft en athafnarstjórinn leiðbeinir í athöfninni og flytur hugleiðingu tengda lífi parsins og hjónabandinu.

Tónlist, söngur og ljóð eða önnur listræn tjáning eru ríkur þáttur af athöfninni sem ber jafnan ákaflega gleðilegt yfirbragð. Ættingjar og vinir og jafnvel brúðhjónin sjálf geta lagt sitt af mörkum til að gera athöfnina eftirminnilega.

Gifting hjá athafnarstjóra er löggjörningur, nema í einstaka tilvikum þar sem lagalegi hlutinn hefur þegar verið framkvæmdur af sýslumanni.

Hvar fara veraldlegar giftingar fram?

Giftingar geta farið fram nánast hvar sem er. Siðmennt hefur gefið saman hjón í heimahúsum, við fossa og gil, á söndum og í birkirjóðrum, í sumarbústöðum og samkomusölum. Látlaus athöfn hefur nákvæmlega sama vægi og sú íburðarmikla, gleði og hamingja eru aðalatriði og möguleikarnir margir.

Dæmigerð athöfn af fullri lengd og tónlist

  • Innganga hjónaefna á vígslustað undir innspili.
  • Stutt inngangsorð athafnarstjóra. - Tónlist
  • Saga hjónaefna – athafnarstjóri rekur sögu sambands þeirra. Léttleiki.
  • Hugvekja – aðfararorð heityrða. Heityrðin og hringarnir. Hjónabandið innsiglað með kossi. - Tónlist.
  • Lokaorð og útganga hjóna af vígslustað undir útspili.