Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

James Randi á Íslandi 24. júní 2010!

James Randi heldur fyrirlestur um hnignun skynseminnar og hindurvitni í boði Vantrúar og Siðmenntar 24. júní næstkomandi á Háskólatorgi, sal 105 kl. 20-21.

Svefn skynseminnar

Í fyrirlestrinum fjallar James Randi um nýjar ófreskjur sem att er fram til að féfletta og níðast á auðtrúa almenningi um allan heim. Fyrirlesturinn er um klukkustundar langur og í honum ræðir hann helstu orsakir þess hve ógagnrýnir menn eru um þessar mundir svo sem æsifréttamennsku og hnignun ábyrgrar rannsóknarblaðamennsku; rætur „óhefðbundinna lækninga“ og hvernig þær fikra sig sífellt nær því að verða viðurkenndar; og hvernig digurbarkalegar fullyrðingar trúarbragðanna og leiðtoga þeirra hvetja almenning til að kyngja ótrúlegum og ótrúverðugum fullyrðingum svikahrappa.

Þessi öfl óskynseminnar geta leitt yfir okkur nýjar miðaldir, því þegar guðsótti, hjátrú og hindurvitni ná yfirhöndinni hefur Upplýsingin beðið skipbrot. Til að axla sögulega ábyrgð okkar og tryggja að Upplýsingin og gildi hennar haldi velli þurfum við að kveða niður trú á djöfla, guði, spádóma, eilíft líf og ámóta fjarstæðu.

Óþarfi er að kynna James Randi fyrir alvöru efasemdarmönnum en hann hefur um áratuga skeið verið leiðandi í Bandaríkjunum í að fletta ofan af svikahröppum og falsmiðlum. Hann hóf feril sinn sem töframaður og má því segja að hann hafi tekið við kyndlinum af Harry Houdini. Annar töframaður, Derren Brown, hefur gert góða hluti á þessu sviði í Bretlandi.

Randi hefur skrifað fjölda bóka um kukl og hindurvitni og nægir þar að nefna Flim-Flam! Psychics, ESP, Unicorns, and Other Delusions, The Faith healers, The Mask of Nostradamus, The Truth about Uri Geller og An Encyclopedia of Claims, Frauds, and Hoaxes of the Occult and Supernatural.

James Randi hefur komið á fót sérstakri stofnun, The James Randi Educational Foundation og hefur heitið hverjum þeim sem sýnt getur fram á yfirnáttúrulega hæfileika einni milljón bandaríkjadala. Margir hafa spreitt sig en enginn staðist prófið.

Randi kemur hingað sem lið af ferðalagi hans til nokkurra evrópuborga og kynnir hann þetta ferðalag sitt á þessu myndbandi:

Nánari upplýsingar um þennan merka mann má finna á Wikipedia en enginn ætti að láta þennan fyrirlestur fram hjá sér fara.

Fyrirlesturinn verður haldinn í sal 105 á Háskólatorgi Háskóla Íslands, klukkan 20. Til að standa straum af kostnaði við að hýsa fyrirlesturinn og fá Randi til landsins verður rukkaður inn 1.000 kr aðgangseyrir á staðnum.

Til baka í yfirlit