Fara á efnissvæði

Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Siðmennt, félag siðrænna húmanista, lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trú- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.

Aðskilnaður ríkis og kirkju

Siðmennt styður veraldlegt samfélag þar sem lög og ríkisvald vernda rétt allra til að aðhyllast ólíkar trúar- og lífsskoðanir svo lengi sem iðkun þeirra skaðar ekki aðra með beinum hætti. Að sama skapi á hið opinbera ekki að styðja trúfélög sérstaklega. Hvorki fjárhagslega né lagalega.

Afnema þarf því öll lög um þjóðkirkju bæði í almennum lögum og stjórnarskrá.

Í 62. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 nr. 33 17. júní, stendur:

”Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

Þessi málsgrein er bersýnilega í mótsögn við 1. málsgrein 65. greinar sömu stjórnarskrár þar sem segir að:

“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.”

Önnur greinin verður augljóslega að víkja.

Siðmennt hvetur til þess að hinn svokallaði kirkjujarðasamningur frá 1997 (og útfærslu hans 1998) verði endurskoðaður. Við gerð samningsins var ekkert mat lagt á virði þeirra eigna sem yfir hann náðu. Hins vegar var ríkið skuldbundið til að að greiða milljarða á ári um ókomna framtíð þar sem engin endurskoðunarákvæði eru í honum. Þær tölur sem nefndar voru um virði eigna á þessum tíma eru aðeins nokkrir milljarðar og því ljóst að verið var að skuldbinda ríkissjóð á röngum forsendum.

Afnám sóknargjaldakerfisins

Ríkið hætti skráningu trúar- og lífsskoðana með því skrá fólk hjá Þjóðskrá.
Hið opinbera á ekki að halda skrár um trúar- og lífsskoðanir fólks.

Sjálfkrafa skráning barna í trú- og lífsskoðunarfélög verði hætt.
Á meðan hið opinbera heldur skrár um trúar- og lífsskoðanir fólks skulu börn ekki vera skráð sjálfkrafa í slík félög.

Einstaklingar sem skrá sig utan trú- og lífsskoðunafélaga fái endurgreitt.
Á meðan hið opinbera heldur skrár um trúar- og lífsskoðanir fólks á hið opinbera að tryggja að þeir sem vilja standan utan slíkra félaga fái endurgreitt frá ríkinu sem nemur sóknargjöldum.

Opinberir skólar án trúarlegra merkimiða

Opinberar skólastofnanir eiga að vera griðarstaðir barna þar sem þau eru laus undan áróðri fyrirtækja, stjórnmálaflokka og trúarsamtaka. Hvorki börn né foreldrar eiga að þurfa gefa upp lífsskoðun sína eða trúarafstöðu í opinberum stofnunum. Trú er einkamál einstaklinga sem kemur hinu opinbera ekkert við.

Siðmennt er á móti trúboði og trúaráróðri á vegum hins opinbera eða í opinberum stofnunum. Félagið telur að hið opinbera eigi að vernda rétt allra til lífsskoðana en eigi ekki hygla einum lífsskoðunum umfram aðrar. Afstaða félagsins er í samræmi við afstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Félagið styður, og hefur alltaf stutt, faglega fræðslu um trúarbrögð. Siðmennt telur enn fremur eðlilegt að sértök áhersla sé lögð á fræðslu um kristin trúarbrögð og ásatrú vegna sögulegrar tengsla við íslenska þjóð. Þar að auki hefur félagið ekkert á móti því að haldið sé upp á jól eða aðrar hátíðir í skólum svo lengi sem slíkar hátíðir eru lausar við trúboð. Siðmennt er vitaskuld ekki á móti því að börn skreyti jólatré, gefi gjafir, teikni jólasveina og borði kökur. Siðmennt telur óviðeigandi að börn séu látin fara með bænir eða trúarjátningar í opinberum stofnunum. Foreldrar eru fullfærir um að innræta börnum trúarskoðanir kjósi þeir að gera það.

Húsnæði fyrir athafnir óháð lífsskoðun

Við veraldlegar athafnir, þó sérstaklega við útfarir, eiga aðstandendur erfitt með að fá tilhlýðilegt rými sem hentar öðrum lífsskoðunum en kristnum. Í dag er aðeins hægt að notast við Fossvogskirkju, sem skilgreind er fyrir öll trúar- og lífsskoðunarfélög. Þar trónir risastór kross fyrir altari sem lýsir ekki virðingu fyrir öðrum lífsskoðunum. Því óskar Siðmennt eftir því hið opinbera sjái til þess að hér á landi sé til húsnæði sem henti athöfnum allra, óháð lífsskoðun.

Sveitarfélög hætti að veita trúfélögum ókeypis lóðir

Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að sjá trúfélögum fyrir slíkum ívilnunum. Það skal tekið fram að Siðmennt hefur ekki og mun ekki sækjast eftir að skattgreiðendur borgi lóðir undir starfssemi félagsins.

Nánar um veraldlegt samfélag

Siðmennt telur að markmið stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram aðrar.

Setning alþingis

Það er ekki hlutverk alþingismanna að hlusta á predikanir um gildi kristninnar og fara með bænir. Alþingi á að vera veraldleg stofnun en ekki kirkjuleg.

Lög um helgidagafrið

Vegna óeðlilegra tengsla ríkis og kirkju eru atvinnulífinu settar skorður af trúarlegum ástæðum. Einu sinni máttu menn ekki vinna á sunnudögum og enn mega menn ekki vinna á hinum ýmsu hátíðisdögum kristninnar. Hvenær fólk vinnur eða tekur sitt frí ætti að vera samningsatriði milli launþega og atvinnuveitenda, ekki launþega og kirkjuyfirvalda.

Guðfræðideild

Ríkið (skattgreiðendur allir) greiðir fyrir menntun og undirbúning klerkastéttar eins trúfélags, Þjóðkirkjunnar (sjá: 2. gr. laga nr. 41 1999 um Háskóla Íslands). Til að gæta jafnræðis verður annað hvort á að leggja guðfræðideild HÍ niður eða gera öllum lífsskoðunarfélögum jafnt undir höfði.

Lög um guðlast

Siðmennt hefur ávallt barist gegnum lögum um guðlast. Lögum um guðlast var breytt árið 2015. Fyrir breytingar stóð eftirfarandi í 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Ofangreind lög gátu varla samrýmst tjáningarfrelsi því er skilgreint er í Stjórnarskrá Íslands enda er það meðal mikilvægustu réttinda manna að geta tjáð sig óhikað um samfélagið sem þeir búa í.

Siðmennt styður afnám guðlastslaga um heim allan.