Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Kirkju­jarða­sam­komu­lagið – Ó­hag­stæðustu samningar Ís­lands­sögunnar

Eftirfarandi pistill, eftir Siggeir F. Ævarsson, framkvæmdastjóra Siðmenntar, birtist upphaflega á Vísi.is þann 21. október

Sem trúlaus skattgreiðandi til íslenska ríkisins vil ég koma á framfæri alvarlegum athugasemdum við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera við ríkiskirkjuna nýjan samning þar sem forréttindastaða hennar fram yfir önnur trú- og lífsskoðunarfélög er tryggð til næstu 15 ára.

Meðan eitt trúfélag nýtur bæði verndar í stjórnarskrá og umtalsvert betri kjara en önnur sambærileg félög, er í raun ekki hægt að fullyrða að í landinu ríki eiginlegt trúfrelsi. Ríkiskirkjan fær á næsta ári rúmlega þremur milljörðum meira í sinn rekstur en önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Leggjast þessir þrír milljarðar ofan á sóknargjöldin sem kirkjan fær í sinn hlut, og setur kirkjuna eðli málsins samkvæmt í fjárhagslega yfirburða stöðu gagnvart öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum.

Það skýtur óneitanlega skökku við að íslenska ríkið greiði þessar háu upphæðir til þess að standa undir launagreiðslum presta, sem innheimta engu að síður sérstakar greiðslur fyrir svokölluð „aukaverk“, — svo sem skírnir, fermingarfræðslu, útfarir og hjónavígslu, verk sem flestir myndu sennilega telja til hefðbundinna prestsstarfa. Prestar fá sem sé borgað aukalega fyrir að vinna vinnuna sína, og í ofanálag njóta sumir þeirra einnig hlunninda af jörðum sínum. Á sama tíma reiða önnur trú- og lífsskoðunarfélög nær eingöngu sig á svokölluð sóknargjöld, sem hafa rýrnað um 25% að verðgildi síðan 2003.

Þessar háu fjárhæðir fær kirkjan í krafti einhverra óhagstæðustu samninga Íslandssögunnar. Enginn virðist vita nákvæmlega hverjar forsendur þeirra voru í upphafi, eða hvort greiðslur þeirra vegna eru í samræmi við virði þeirra kirkjujarða sem lagðar voru til grundvallar samningunum á sínum tíma (og eru þá ótaldar efasemdir um eignarrétt hinnar evangelisku lútersku kirkju til þessara jarða í ljósi sögunnar). Íslensk stjórnvöld hafa látið endurskoðun þessara samninga undir höfuð leggjast allt of lengi.

Í ljósi ofangreindara atriða vil ég leggja til að ríkisstjórn Íslands taki af skarið og hrindi eftirfarandi aðgerðum í framkvæmd sem allra fyrst:

1. Ákvæði um þjóðkirkju verði fjarlægt úr stjórnarskrá, enda má því breyta með lögum og þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. Opinberri skráningu á trúarskoðunum og lífsskoðunarviðhorfum Íslendinga verði hætt.

3. Innheimta sóknargjalda verði færð til félaganna sjálfra.

Þingmenn fjögurra flokka á Alþingi hafa nú lagt fram þingsályktunartillögu um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Fagna ég þessu frumkvæði, en geri þó athugasemd við þann langa tíma sem aðskilnaðurinn á að taka, eða 15 ár. Ef vika er langur tími í pólitík, þá hljóta 15 ár að vera heil mannsævi. Skora ég því á alþingismenn að samþykkja þessa tillögu með þeim hætti að ríkisstjórn Íslands hraði ferlinu sem mest, þannig að ljúka megi aðskilnaði ríkis- og kirkju til fulls sem allra fyrst, og tryggja með öllum mögulegum ráðum að hið ótrúlega kirkjujarðasamkomulag sigli inn í sólarlagið án tafar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Siðmenntar, félags Siðrænna húmanista á Íslandi.

Til baka í yfirlit