Kæru félagar,
á nýju ári ætla ég sem nýr formaður að skrifa ykkur reglulega fréttapistla til að segja ykkur beint frá því sem er að gerast í starfi félagsins okkar góða. Mér finnst mikilvægt að þessi samskipti séu bein, heiðarleg og lifandi, að þið fáið innsýn í þær áherslur, þau verkefni og þær hugmyndir sem móta Siðmennt hverju sinni. Ykkur er líka alltaf velkomið að hafa samband við mig beint með hugmyndir, athugasemdir og hvaðeina tengt Siðmennt.
Það er mín tilfinning að í því ástandi í heiminum og í samfélaginu í dag þurfi fólk meira á fótfestu að halda. Þó tölur skráninga í trúfélög sýni til dæmis fækkun í þjóðkirkjunni, þá segir skráningin ekki alla söguna og votta þeir sem til þekkja um aukna kirkjusókn, ekki síst á meðal ungs fólks.
Við finnum fyrir þessu hjá Siðmennt sömuleiðis, þar sem félögum okkar fjölgar ár frá ári og veraldlegum athöfnum sömuleiðis. Á sama tíma fáum við fyrirspurnir og finnum fyrir auknum áhuga og eftirspurn eftir veraldlegum tilvistarstuðningi og vettvangi þar sem fólk getur komið saman eða leitað til að ræða hugmyndir um lífið og tilveruna. Þörf okkar fyrir svör við stærstu spurningum lífsins eykst í átökum og þegar við glímum við áföll eða tilvist okkar stendur frammi fyrir áskorunum annarskonar.
Eitt helsta markmið okkar í Siðmennt er einmitt að skapa raunverulegan valmöguleika við hefðbundinn trúarvettvang, stað fyrir fólk að leita til sem finnur sig ekki í þeim svörum eða þeim ramma sem trúarbrögðin bjóða upp á. Lengi hefur okkur langað til að geta boðið upp á veraldlega sálgæslu, sambærilega þeirri þjónustu sem prestar sinna, þar sem fólk getur leitað stuðnings án trúarlegra forsendna. En þar sem við höfum ekki í sömu fjársjóði að leita og þjóðkirkjan, sem sinnir slíkri þjónustu einna helst, dvelur sú löngun enn á teikniborðinu um sinn, þó hún sé okkur hugleikin og áfram hluti af framtíðarsýn félagsins.
Á þessum grunni höfum við haldið áfram með Efast á kránni, og hefur mætingin, andinn og umræðurnar verið vonum framar. Við erum enn að leita að hinum fullkomna stað, en höfum komið okkur ágætlega fyrir í húsi Máls og menningar við Laugaveg. Þar verða regluleg efasemdakvöld okkar, sem við stefnum á að halda mánaðarlega á næstu misserum. Síðustu tvö kvöld hafa annars vegar snúist um sannleikann og efann, og hins vegar fengum við til okkar frábæran gest til samtals um feðraveldið í fortíð, nútíð og framtíð. Ekki hika við að senda mér/okkur línu ef þið hafi hugmyndir eða óskir um álitaefni til að efast um.
Á árinu var jafnframt unnið af miklum krafti að þróun og eflingu athafnaþjónustu okkar. Þar má nefna undirbúning sérstaks námskeiðs í útfararstjórnun og mótun skýrari ramma um hlutverk og ábyrgð þeirra sem sinna þessum mikilvægu verkefnum fyrir hönd félagsins. Með þessu stígum við stór skref í þá átt að tryggja að þjónusta Siðmenntar endurspegli siðræn gildi, virðingu og fagmennsku við allar aðstæður, hvort sem um er að ræða gleðistundir eða erfiðustu augnablik lífsins.
Við höfum einnig tekið virkan þátt í mannréttinda- og jafnréttisstarfi, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Siðmennt tók virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi húmanískra félaga, meðal annars í gegnum European Humanist Service Network og Humanists International, og lagði sitt af mörkum til umræðu um sálgæslu, ungmennastarf og framtíð veraldlegrar athafnaþjónustu í Evrópu og víðar. Slíkt samstarf styrkir okkur í okkar starfi hér heima og minnir á að við erum hluti af stærra samhengi.
Þá hef ég, frá því ég bauð mig fram til formanns, lagt ríka áherslu á að efla samtal og samskipti við önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Síðan ég tók við embætti hef ég hitt æðstu formenn stærstu trúfélaga landsins og unnið að því að byggja brýr, samtal sem byggir á gagnkvæmri virðingu þrátt fyrir ólíkar forsendur. Ég hef hitt biskup Íslands, formann Ásatrúarfélagsins, kaþólska biskupinn og fríkirkjuprest, og mun halda þeirri vinnu áfram á nýju starfsári.
Í þessum anda tók Siðmennt einnig þátt í opinberri umræðu um lífsgildi og merkingu. Í sólstöðuhugvekjum á RÚV var meðal annars fjallað um leitina að kærleikanum og von á vetrarmörkum, hugleiðingar sem endurspegla vel það sem Siðmennt stendur fyrir: að merking, samkennd og von eru ekki bundin trú, heldur mannlegri reynslu og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert gagnvart öðru.
Hér má hlusta á upptökur af sólstöðuþáttunum tveimur:
- Sumarsólstöðuhugvekja Siðmenntar: Leitin að kærleikanum
- Vetrarsólstöðuhugvekja Siðmenntar: Von að vetri
Ég hlakka til að halda þessu samtali áfram með ykkur á nýju ári, í pistlum, í viðburðum og víðar.
Gleðilegt nýtt ár!
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
Formaður Siðmenntar