Fjörugar umræður sköpuðust eftir erindi framsögumanna á málþingi í Gerðubergi nú í október um „Frið og fjölbreytni“. Það var samhugur um að fjölbreytni í mannlífinu ætti að stuðla að friði, og að samfélag friðar skapaðist varla nema með fullri virðingu fyrir fjölbreytninni.
Það var Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga sem stóð fyrir viðburðinum, síðdegis fimmtudaginn 9.10., og var formaður samtakanna fundarstjóri, Pétur Þorsteinsson, fyrrverandi prestur Óháða safnaðarins.
Framsögu- og fundarmenn veltu fyrir sér þróuninni hérlendis síðustu áratugi, með auknum innflutningi fólks hvaðanæva, víðtækum menningaráhrifum og margvíslegum viðhorfum á svið trúarbragða og lífsskoðana. Inngilding og aðlögun, viðbrögð við ýmsum hópum með áður óþekkt trúarbrögð eða lífsskoðanir, tungumálavandi og virðing fyrir heimamálinu án þess að missa sjónar á mikilvægi annarra mála sem töluð eru í landinu ‒ allt þetta bar á góma og meira til.
Framsögu fluttu þau Sabina Leskopf borgarfulltrúi, Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur, Bee McEvoy hjúkrunarfræðingur og Lara Roje íslenskukennari. Þau eru öll úr hópi innflytjenda nema Bjarni Randver ‒ Sabína kemur frá Þýskalandi, Bee frá Írlandi og Lara frá Króatíu, en hafa að auki innsýn í samfélag fjölbreytninnar vegna starfa sinna og áhugasviðs.
Fundarboðendum og gestum þótti málþingið hafa heppnast vel, og að ennþá fleiri hefðu átt að taka þátt í að læra og skiptast á upplýsingum og skoðunum. Samtökin hyggjast halda fleiri álíka málþing, að minnsta kosti eitt á önn. Þau voru formlega stofnuð í febrúar á þessu ári, en hafa starfað óformlega síðan 2006. Í stjórninni eru auk Péturs formanns þau Mirela Protopapa frá bahaíum og Mörður Árnason frá Siðmennt.

Framsögumenn á málþinginu í Gerðubergi: Bjarni Randver, Lara, Sabína og Bee.

Sabina Leskopf segir frá uppruna sínum og komunni til Íslands.

Bee svarar spurningum úr sal.

Jakob Rolland prestur í Landakoti hlustar vandlega. Hann hefur verið einn af burðarásum í samstarfi félaganna.