Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl.).

Umsögn Siðmenntar um frumvarp til laga um um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993 (aldur hjónaefna, könnunarmenn o.fl.).

Siðmennt gerir eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Aldur hjónaefna

Siðmennt tekur undir markmið frumvarpsins um að leita leiða til þess að útrýma barnahjónaböndum og hvetur til þess að hætt verði að veita hjónaefnum undir 18 ára undanþágur frá lágmarksaldri vilji þau ganga í hjúskap á Íslandi. 

Félagið hefur þó efasemdir um að meginregla um að hjúskapur fólks sem var undir lágmarksaldri er þau gengu í hjúskap erlendis sé ekki viðurkenndur þjóni þeim markmiðum sem að er stefnt. Höfnun á lagalegri viðurkenningu slíkra hjónabanda á Íslandi hefur engan fælingarmátt í öðrum löndum, enda gilda íslensk lög einungis á Íslandi. Hins vegar getur slík regla bitnað á þolendum barnahjónabanda með því til dæmis að skerða möguleika þeirra á fjölskyldusameiningu við maka og jafnvel börn sem stödd eru hér á landi, jafnvel löngu eftir að viðkomandi hefur náð fullorðinsaldri. Er þar oft um að ræða konur sem bíða þess í heimalandinu eða annarstaðar að fjölskyldufaðirinn leiti alþjóðlegrar verndar í öðru landi, svo sem á Íslandi, í von um að konan og börn þeirra geti sameinast honum síðar eftir öruggum leiðum. Vísar Siðmennt til sérfræðinga í málefnum flóttafólks til nánari umræðu um þetta atriði, svo sem Rauða kross Íslands, en þörf var talin á að benda á þetta í umsögninni engu að síður. 

Könnun á hjónavígsluskilyrðum

Siðmennt fagnar endurskoðun á lögum varðandi könnun hjónavígsluskilyrða, en telur þó að skoða þurfi málið frá ýmsum sjónarhornum. Siðmennt gerði athugasemdir við frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda fyrr á árinu, og mun hér ítreka þau atriði sem ekki fengu umfjöllun í greinargerð og árétta önnur atriði sem fram komu í greinargerð og byggðu á athugasemdum Siðmenntar. 

Meira samræmi og minni mismunun

Við teljum að með þeim breytingum sem lagðar eru til á 14. gr. laganna yrði betra samræmi á  gæðum könnunar og að yfirvöld hafi betri forsendur til að meta gögn en misþjálfaðir fulltrúar lífsskoðunarfélaga. Við höfum fengið ábendingar um að prestar þjóðkirkjunnar óski ekki alltaf eftir fæðingarvottorði, þrátt fyrir skýr ákvæði þar um. Slíkur misbrestur á verklagi eykur fjárhagslega mismunun para eftir lífsskoðunum og við fögnum því að tekið verði á þessu, til dæmis með þeirri leið sem lýst er í frumvarpinu. 

Skerðing á aðgengi

Nú kemur ekki fram hvort ferli könnunar verði algerlega rafrænt, þó líst sé áformum um að auka rafrænan þátt ferlisins, en þurfi pör að fara á dagvinnutíma, jafnvel tvisvar, til að fá útgefið könnunarvottorð, jafnvel um langar vegalengdir á landsbyggðinni, dregur það úr aðgengi sumra para að hjónavígslu. Sérstaklega má nefna pör sem eiga erfitt með að komast frá vinnu á dagvinnutíma og þau pör sem búa fjarri starfsstöðvum eða útibúum sýslumanns. Þá er skrifstofa sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu fremur illa staðsett hvað varðar aðgengi íbúa sem ekki notast við einkabíl. 

Aðdragandi lengist

Telja má víst að lágmarksaðdragandi þess frá því að ákvörðun um hjónavígslu er tekin þar til hjónavígsla er afstaðin lengist töluvert með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu, en nú er hægt að klára ferlið í bráðatilfellum, t.d. vegna skyndilegra veikinda, á tiltölulega stuttum tíma (2-3 dagar eftir því hversu afgreiðsla Þjóðskrár er hröð). Sýslumaður hefur margsinnis vakið athygli á því að embættin séu störfum hlaðin og álagið mikið. Árið 2017 var um 2.500 hjónavígslum sinnt af öðrum aðilum en sýslumanni og má því áætla að útgáfa ríflega 2.000 könnunarvottorða bætist við álag sýslumannsembættanna. Í greinargerð er lagt til að álagsaukningunni verði mætt með innheimtu gjalds fyrir útgáfu könnunarvottorðs, en Siðmennt hefur áhyggjur af því fyrirkomulagi, auk þess sem óljóst er hvort fyrirkomulagið dugi til að svara auknu álagi á starfsfólk sýslumannsembættanna.

Kostnaðarauki fyrir almenna borgara

Siðmennt hefur áhyggjur af kostnaðarauka fyrir hinn almenna borgara og þar með jöfnum tækifærum para til að ganga í hjónaband óháð efnahag. Lagt er til í frumvarpinu að 4.500 kr. gjald verði tekið fyrir útgáfu könnunarvottorðs, sem hingað til hefur verið hluti af störfum fulltrúa lífsskoðunarfélags.  Lágmarkskostnaður við að ganga í hjónaband er nú 21.000 kr., 11.000 kr. fyrir útgáfu hjúskaparstöðuvottorða og fæðingarvottorða hjá Þjóðskrá og 10.000 fyrir borgaralega hjónavígslu hjá sýslumanni. Bætist við kostnaður við útgáfu könnunarvottorðs hækkar þessi kostnaður um rétt rúmlega 20% sem getur reynst töluvert íþyngjandi fyrir efnaminni fjölskyldur. Siðmennt hvetur til þess að sé sett á sérstakt gjald fyrir könnun hjónavígsluskilyrða sé séð til þess að kostnaður vegna gagnaöflunar frá Þjóðskrá sé lækkaður á móti. 

Undirritun vottorða aðeins lítill hluti athafnarþjónustunnar

Í greinargerð er bent á að færsla könnunar hjónavígsluskilyrða frá prestum, trú- og lífsskoðunarfélögum kunni að hafa áhrif til lækkunar á gjaldskrá þeirra fyrir hjónavígslu, a.m.k. í þeim tilvikum þegar könnun hjónavígsluskilyrða hefur verið innifalin í gjaldinu. Þessi málflutningur lýsir talsverðum misskilningi á eðli hjónavígsluathafna hjá lífsskoðunarfélagi eins og Siðmennt. Í framkvæmd hjónavígsluathafnar fellst víðtækur undirbúningur; samskipti við hjónaefni fyrir athöfn, leiðbeiningar um lagaleg skilyrði, fræðsla um skyldur hjónaefna skv. hjúskaparlögum, einn eða tveir fundir með hjónaefnum, ítarlegt viðtal um sögu parsins; fyrstu kynni, lífsgildi og tímamót, textaskrif, æfingar og svo flutningur. Þá sér félagið um miðlæga innheimtu og bókun. Undirritun könnunarvottorðs og tilkynningar um hjónavígslu eru mjög lítill þáttur í öllu ferlinu og sé athöfnin aðeins táknræn (í tilfelli para sem þegar hafa farið til Sýslumanns eða gangast undir lagalegt ferli í sínu heimalandi) er ekki gefinn afsláttur af heildargjaldi, enda er þessi þáttur hverfandi þegar horft er á heildarfjölda klukkustunda sem varið er í hverja athöfn.

Tvær hliðar á sama aur 

Miðað við núverandi verklag fylgir vígsluréttindum engin þjálfun frá yfirvöldum í könnun hjónavígsluskilyrða. Siðmennt sér því um þjálfun sinna fulltrúa og vinnur eftir reglugerðum og þeim upplýsingum sem borist hafa frá Þjóðskrá. Skv. okkar verklagi snýst ferlið um að ganga úr skugga um að hjúskaparstöðuvottorð og fæðingarvottorð séu til staðar, hið fyrrnefnda sé ekki útrunnið og hvorugt hjónaefna sé enn í hjúskap. Þá er tryggt að engar undirskriftir vanti, frá svaramönnum eða hjónaefnum. Þá er gengið úr skugga um að öll hafi náð 18 ára aldri og persónuskilríki hjónaefna skoðuð. Eftir það undirritar athafnarstjóri vottorðið og stimplar. Allt ferlið tekur í heild sinni örfáar mínútur. Í greinargerðinni eru bornar saman athugasemdir Siðmenntar um kostnaðarauka fyrir hjónaefni og athugasemdir Sýslumannafélags Íslands um að 4.500 kr. séu lág upphæð fyrir verkið og bendir Sýslumannafélagið á „að meiri vinna felist í könnuninni heldur en vígslunni sjálfri.“ Áhugavert er að greinargerðin dragi þessi tvö ummæli saman, en þau varpa þó ljósi á alls ólík sjónarmið. Siðmennt vildi koma á framfæri kostnaðarauka hjá hjónaefnum, sem er staðreynd, nema gert verði ráð fyrir niðurfellingu kostnaðar vegna öflunar gagna frá Þjóðskrá. Ekki hægt að bera saman störf Sýslumannsembættisins, sem telur þetta stærsta einstaka verkþátt við framkvæmd hjónavígslu, og svo húmanísk lífsskoðunarfélags sem leggur rækt við aðra þætti í þeirri framkvæmd. 

Lögsaga í hjónaskilnaðarmálum

Siðmennt gefur árlega saman erlend samkynja pör og fagnar því að nú verði tryggt að þau geti fengið lögskilnað óháð lögum í búsetulandi. 

Siðmennt hefur ekki athugasemdir við aðrar greinar frumvarpsdraganna. Fulltrúi félagsins er reiðubúinn til að skýra nánar athugasemdir félagsins ef þurfa þykir.

 

Fyrir hönd Siðmenntar,

Inga Straumland – Formaður Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi

 

Umsögn Siðmenntar í 646. máli má einnig finna á vef Alþingis.

Til baka í yfirlit