Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Trúfrelsi í heimi misviturs kirkjuvalds

Í fréttum í fjölmiðlum og á yfirstandandi kirkjuþingi hefur nokkuð borið á misskilningi um Siðmennt – félag áhugafólks um borgaralegar athafnir, og um borgaralega fermingu. Sumt af því sem sagt hefur verið í þessu samhengi hefur að dómi undirritaðs ekki alltaf borið merki um umburðarlyndi eða mikla virðingu fyrir trúfrelsi og tjáningarfrelsi.

Hvað er Siðmennt?

Siðmennt eru samtök fólks með ólíkar lífsskoðanir. Þar er að finna sannfærða guðleysingja (þ.e. fólk sem afneitar tilvist alls yfirnáttúrulegs), trúleysingja (efahyggjufólk sem hvorki neitar né játar tilvist æðri máttarvalda) og fólk sem trúir á eitthvað yfirnáttúrulegt (æðri mátt) en hefur ekki fundið eða kærir sig ekki um að finna trúfélag við hæfi sitt. Eitthvað mun meira að segja vera þar um heiðingja, en það sæmdarheiti eiga Ásatrúarmenn einir hér á landi og er með öllu ástæðulaust að gefa það fleirum. Enn fremur eru nokkrir félagar í Siðmennt skráðir í þjóðkirjuna.

Í stuttu máli má segja að sameiginlega stefnu félagsins Siðmenntar sé best lýst með fyrsta ákvæðinu í stefnuskrá þess: „Félagið byggir starfsemi sína á lífsviðhorfi óháðu trúarsetningum. Maðurinn sjálfur er ábyrgur fyrir velfarnaði sínum, ekki æðri máttarvöld“.

Að gefnu tilefni skal þess sérstaklega getið að í starfi sínu hefur félagið forðast allar árásir á trúarbrögð eins og sjá má greinilega í fermingarnámskeiðum þeim sem félagið hefur staðið fyrir.

Félagið krefst aðskilnaðar ríkis og kirkju. Það deilir ekki á einstök trúfélög né skiptir sér af deilumálum í þjóðkirkjunni.

Starfsemi Siðmenntar snýst bæði um fundarhöld og að skipuleggja svonefndar borgaralegar athafnir. Með þeim er átt við athafnir sem eru án alls trúarlegs inntaks en fólki finnst nauðsynlegt að hafa til að staðfesta tiltekinn viðburð eða einfaldlega gera hann hátíðlegri. Löggjörningurinn borgaraleg hjónabandsvígsla er auðvitað þekktastur í þessu samhengi; hefð er fyrir því að fógeti/sýslumaður annist hana. Þær athafnir sem ekki teljast vera löggjörningur, en hafa hingað til verið í verkahring trúfélaga, eru því eðlilegt viðfangsefni Siðmenntar. Hjá norsku systurfélagi okkar, Human-etisk forbund, hafa borgaralegar athafnir verið þrenns konar: Hátíð við nafngjöf, ferming og útför.

Aðalviðfangsefni Siðmenntar hefur verið borgaraleg ferming; hinar tvær eru til staðar hér á landi en hafa ekki verið sérstaklega auglýstar sem opinberar athafnir.

Margir hafa fært sér þjónustu Siðmenntar í nyt þótt ekki séu þeir í félaginu. Má þar t.d. nefna fólk í trúarhópum sem ekki hafa fengið opinbera viðurkenningu sem söfnuðir hér á landi.

Borgaraleg ferming

Lútersk kirkja, eins og þjóðkirkjan íslenska, á tvö sakramenti, skírnina og altarisgönguna. Kaþólska kirkjan á sjö og er fermingin eitt þeirra fimm, sem hún á umfram lútersku kirkjuna.

Marteinn Lúter lét þannig afnema ferminguna við siðaskiptin. Enginn var því fermdur á Íslandi á tímabilinu 1551-1741/1742. Þá var aftur farið að ferma börn og tengdist það kröfum um að allir skyldu kunna að lesa. Var það það nú skuldbundið að enginn mætti ganga til altaris (og njóta þannig hins sakramentis kirkjunnar) nema hann eða hún hefðu áður staðfest lestrarkunnáttu sína og kristindómsfræðslu fyrir söfnuðinum öllum. Það er þessi tegund fermingar sem nú tíðkast alla vega að hluta í íslensku þjóðkirkjunni.

Árið 1914 hófst svonefnd „borgerlig konfirmation“ í Danmörku og árið 1953 í Noregi. Sambærileg athöfn í Þýskalandi heitir hins vegar Jugendweihe, æskulýðsvígsla.

Gagnrýnendur borgaralegrar fermingar á Íslandi, sem einkum er að finna í röðum presta þjóðkirkjunnar, hafa með tínanum beint allri gagnrýni sinni að nafngiftinni fermingu. Erfitt er hins vegar að sjá hvernig hugtakið „ferming“ tengist meir lúterskri kristni en t.d. orðið „vígsla“ sem mikið er notað síðustu árin um ýmsar athafnir ótengdar kirkjunni.

Orð eru almennt ekki heilög í sjálfu sér. Allra síst ætti það að vera félögum í Siðmennt eitthvað meginmál hvort við fylgjum nafngiftum annarra Norðurlandaþjóða á tiltekinni athöfn eða hvort lengra sé leitað í þeim efnum. En er nafngiftin í raun og veru meginatriðið? Það verður að draga sterklega í efa.

Ýmsir andmælendur Siðmenntar hafa ausið yfir félagið miklum tilfinningaþrungnum skömmum. Má reikna með því að þetta fólk í íslensku þjóðkirkjunni fari að sættast við athöfnina ef við aðeins breytum nafni hennar? Hroki í málflutningi, öðru nafni kirkjuvaldsstefna, einkennir almennt málflutning margra kirkjunnar manna eins og sakir standa. Því tel ég það vera öruggt mál að nokkrir prelátar fullir valdahroka muni túlka nafnbreytingu á athöfninni borgaraleg ferming sem veikleikamerki og þeir muni því freistast til að hefja enn þá harðari árásir á athöfnina en áður. Þetta er í vaxandi mæli mál trúfrelsis gegn misvitru kirkjuvaldi.

(Höfundur er háskólakennari í sagnfræði og varaformaður félagsins Siðmenntar).

(Mbl. 1993)

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit