Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Sigurður Ólafsson flytur ávarp til fermingarbarna á Hallormsstað

Kæru fermingarbörn, foreldrar, aðstandendur og gestir.
Innilega til hamingju með daginn.

Ég er ákaflega stoltur. Stoltur af þeim fermingarbörnum sem hér í dag fermast borgaralega.  Þetta er virkilega fallegur og mannvænlegur hópur sem á örugglega eftir að kveða mikið að í framtíðinni.

Við lifum á svolítið vandmeðförnum tímum. Tímum hins óendanlega upplýsingaflóðs og auglýsingaskrums úr net- og fjölmiðlum og oft á tíðum vandséð hvernig eða hvar það skarast , hvað eru upplýsingar og hvað auglýsingar, hvað er satt og hvað skrum.
Þetta hellist allt yfir okkur í ofurskömmtum og í einum graut og sjálfskipaðir bronsbrúnir Séð og Heyrt sérfæðingar taka svo að sér að skýra fyrir okkur hinum hvað sé inn og hvað sé út. Hverjir séu æði og hverjir aular.

 

Þessi skinku og hnakkavæðing gengur svo út á steríótýpuútlit þar sem allir eiga að vera eins og passa inn í fyrirframsmíðaðan tískukassa. Heilbrigð sál í hraustum líkama er það látið heita en því miður þá gleymist oftast þetta með innihaldið því ofuráherslan er á útlitið og að allir eigi að vera eins og tískulöggurnar segja. Útlistdýrkunin yfirskyggir alla sjálfstæða hugsun, vilja og eiginleika hvers og eins til að vera hann sjálfur og rækta sína kosti og persónuleika.
Þetta veldur því að fyrir ungt fólk í dag er ákaflega auðvelt að láta glepjast , fylgja straumnum hugsunarlaust og gleypa allt hrátt sem að því er rétt án þess að máta það fyrst við eigin vilja, skoðun og gildi.

Það hefur því aldrei verið mikilvægara að kynda undir og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar og gagnrýnnar skoðunar á bæði nærumhverfi og samfélagið í heild. Aldrei hefur verið mikilvægara að velta fyrir sér hlutunum, ígrunda kosti og galla og taka upplýstar ákvarðanir á eigin forsendum. Leggjast vandlega yfir hvað manni sjálfum líður vel með og átta sig á yfirborðsmennsku glamúrsamfélagsins sem herjar á okkur úr öllum áttum. Skilja að svín verður áfram svín þó að það sé búið að setja á það varalit.

En til þess að það sé hægt þarf þróa með sér rökhugsun, opin huga og sjálfstæði í skoðunum. Það þarf virkilega að æfa það og læra að beita rökum, kynna sér málin frá mismunandi sjónarhornum og mynda sér að lokum skynsamlega afstöðu út frá því.
Það hefur aldrei verið auðvelt fyrir ungt fólk og það er sennilega enn erfiðara í dag en áður að skera sig úr fjöldanum, þora að vera öðruvísi, þora að vera maður sjálfur.

Þess vegna er ég ákaflega stoltur af því að vera hér í dag með ykkur og fermingarbörnunum okkar sem hafa með þessari ákvörðun sinni sent okkur hinum svolítil skilaboð varðandi sjálfstæði og ákvarðanatöku. Þau hafa ákveðið að fermast á annan hátt en flestir, væntanlega af mismunandi ástæðum, en hafa með því sýnt þor og kjark til að slíta sig aðeins frá hópnum og fara eigin leið.

Ég vil hvetja ykkur til að halda áfram á sömu braut, tileinka ykkur víðsýni og hræðsluleysi við að vera eins og þið eruð og vera stolt af því.
Það er mikilvægt að vera leitandi, gagnrýnin og telja sig aldrei hafa höndlað hinn eina sannleika. Sá sem telur sig hafa fundið og vita er hættulegur, því hann þarf ekki að spyrja frekar, ekki að efast, ekki að horfa gagnrýnum augum á skoðun sína eða á skoðun annara.

Að endingu ætla ég að lesa ljóð sem mér finnst segja ákaflega mikið í fáum orðum um þann eiginleika að vera hreinn og beinn og koma þannig fram við sjálfan sig og aðra. Það heitir Lífsþor, er eftir Árna Grétar Finnson og er úr ljóðbókinni Leikur að orðum, sem kom út 1982.

LÍFSÞOR

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Það þarf viljastyrk til að lifa eigin ævi,
einurð til að forðast heimsins lævi,
vizku til að kunna að velja og hafna,
velvild, ef að andinn á að dafna.

Þörf er á varúð víðar en margur skeytir.
Víxlspor eitt oft öllu lífi breytir.
Þá áhættu samt allir verða að taka
og enginn tekur mistök sín til baka.

Því þarf magnað þor til að vera sannur maður,
meta sinn vilja fremur en fjöldans daður,
fylgja í verki sannfæringu sinni,
sigurviss, þó freistingarnar ginni.

 

Til hamingju með daginn.

Sigurður Ólafsson

 

 

 

 

 

 

Til baka í yfirlit