Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Aðskiljum ríki og kirkju – Hvatning til stjórnlagaráðs

Við undirrituð hvetjum stjórnlagaráð að bera fram sérstaka tillögu um afnám 62. greinar stjórnarskrár Íslands og afnema þar með ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar. Við teljum að stjórnarskrá Íslands eigi að tryggja jafnrétti og fullt trúfrelsi einstaklinga óháð trúar- eða lífsskoðunum þeirra.

Mikill meirihluti hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju.
Frá árinu 1993 hafa skoðanakannanir ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Samkvæmt könnun Capacent frá 2010 kemur í ljós að „Ríflega 73% þeirra sem taka afstöðu annað hvort með eða á móti aðskilnaði ríkis og kirkju segjast nú hlynnt honum en tæplega 27% eru andvíg aðskilnaði.“* Er þetta sambærileg niðurstaða og fékkst 2009 en þá kom enn fremur fram að 70% þeirra sem tilheyra Þjóðkirkjunni eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju.

Í stuttu máli er mikill meirihluti allra Íslendinga, óháð trúarafstöðu, lífsskoðun eða trúfélagsskráningu hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju.

Leyfum þjóðinni að kjósa
Þó að mikill meirihluti Íslendinga vilji aðskilja ríki og kirkju telja undirrituð að vænlegast sé að stjórnlagaráð leggi fram sérstaka tillögu um afnám 62. greinar stjórnarskrárinnar sem verður síðan lögð undir dóm kjósenda í þjóðaratkvæði samfara kosningu um nýja stjórnarskrá. Þannig getur almenningur kosið sérstaklega um aðskilnað ríkis og kirkju óháð öðrum tillögum stjórnlagaráðs.

Undirrituð:
Aðgerðir til aðskilnaðar ríkis og kirkju (AARK).
Ásatrúarfélagið.
Búddistasamtökin SGI á Íslandi.
Séra Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur og forstöðumaður Fríkirkjunnar við Tjörnina.
Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK).
Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi.
Vantrú.

Nánari upplýsingar veita frekari Friðrik Þór Guðmundsson í síma 864 6365 og Sigurður Hólm Gunnarsson, í síma 898 7585.

Heimild:
*Capacent
SARK – Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju greiddu fyrir þessa auglýsingu.
Til baka í yfirlit