Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Húmanistaviðurkenning og fræðslu- og vísindaviðurkenning Siðmenntar 2014

Húmanistaviðurkenning Siðmenntar var afhent í tíunda sinn í gær.  Á sama tíma afhenti Siðmennt Fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins áttunda árið í röð.  Afhendingin fór fram á Hótel Sögu.

Einstaklingar og félagasamtök sem hafa lagt eitthvað mikilvægt af mörkum í anda húmanismans eiga möguleika á að hljóta viðurkenningar félagsins.

Húmanistaviðurkenninguna í ár fengu lögfræðingarnir Sigríður Rut Júlíusdóttir, Katrín Oddsdóttir og Helga Vala Helgadóttir fyrir störf sín í þágu mannréttinda.  

Það er mikilvægt að heiðra fólk sem hefur sérhæft sig í því að vernda mannréttindi eins og málfrelsið, og tjáningarfrelsið og tekur að sér að vernda réttindi þeirra sem hafa verið beittir misrétti og eru í minnihluta í íslensku samfélagi.

Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar í ár fékk  Ævar Þór Benediktsson leikari og rithöfundur. Ævar er umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins „Ævar vísindamaður“ hjá Ríkissjónvarpinu auk þess sem hann hefur gefið út tvær bækur, „Glósubók Ævars“ og „Umhverfis Ísland í 30 tilraunum“.

„Glósubók Ævars“ er stútfull af vísindatilraunum fyrir forvitna krakka og hefur auk þess að geyma upplýsingar um alls kyns furðuleg fyrirbæri, viðtöl við íslenska vísindamenn og bréf frá krökkum á öllum aldri. Í „Umhverfis Ísland í 30 tilraunum“ setur Ævar Ísland undir smásjána og ferðast hringinn í kringum landið og rannsakar allt sem fyrir augu ber. Bækur Ævars og þátturinn hans fræðir börn og unglinga á mjög skemmtilegan hátt og vekur áhuga þeirra á vísindum og hvernig heimurinn er.

Úr stefnuskrá Siðmenntar

Siðferðilegur grunnur

Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Félagið byggir starfsemi sína og lífssýn á siðrænum húmanisma (manngildishugsjóninni), sem er lífsviðhorf óháð trúarsetningum. Félagið stendur vörð um rétt einstaklinga til að þroskast á ólíkum forsendum og hvetur þá til ábyrgðar bæði á eigin velferð og annarra.

Þekking og menntun
Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Siðmennt hvetur til gagnrýninnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Hér má sjá myndband frá viðburðinum

Nánari upplýsingar veitir Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar
Sími: 896 8101
Netfang: bjarni@sidmennt.is

Til baka í yfirlit