Fara á efnissvæði

Skráðu þig fyrir 1. des

Samkvæmt landslögum skal Þjóðskrá Íslands halda utan um trúfélagsaðild Íslendinga. Á hverju ári ráðstafar ríkissjóður framlögum til lífskoðunarfélaga á grundvelli þessarar skráningar, en miðað er við skráningartölur 1. desember árið á undan. Skelltu þér beint yfir til Þjóðskrár með því að smella á hnappinn hér að neðan, eða lestu þér til um af hverju þú ættir að íhuga að skrá þig í Siðmennt.

Hvað er Siðmennt?

Siðmennt er veraldlegt lífsskoðunarfélag. Lífsskoðunarfélög eru eins og trúfélög, nema að þau styðjast ekki við æðri máttarvöld eða aðrar yfirnáttúrulegar kennisetningar, heldur grundvallast veraldlegum gildum. Siðmennt hefur því sömu réttindi og skyldur og trúfélög; fær úthlutað sóknargjöldum og fulltrúar hennar hafa réttindi til að gefa saman pör. Gildagrunnurinn sem Siðmennt byggir á kallast húmanismi.

Hvað er húmanismi?

Húmanismi snýst um að manneskjan treysti á hina vísindalegu aðferð þegar kemur að því að skilja hvernig alheimurinn okkar virkar, hafni hugmyndinni um hið yfirnáttúrulega og taki siðferðislegar ákvarðanir sínar með skynsemi, samúð og umhyggju fyrir fólki og dýrum að leiðarljósi. Húmanistar hafa gagnrýna hugsun í hávegum og trúa því að við getum verið góð án guðs, meira að segja þegar enginn sér til. 

Viltu lesa meira um húmanisma?

// Smelltu hér

Hvað gerir Siðmennt?

Stærstu þættirnir í starfi Siðmenntar eru veraldlegar athafnir á tímamótum í lífi fólks, barátta fyrir mannréttindum og veraldlegu samfélagi, að skapa vettvang fyrir samfélagsumræðu um siðferði og málefni líðandi stundar, auk þess að þjónusta félagsfólk sitt með ýmsum hætti. Borgaraleg ferming er stærsta verkefni félagsins, en um 14% áttundubekkinga landsins velja að fermast borgaralega hjá Siðmennt. Aðrar athafnir eru einnig stór þáttur í starfseminni, en Siðmennt býður upp á nafngjafir, hjónavígslur og útfarir. Þá heldur félagið reglulega málþing, sendir inn umsagnir til Alþingis, tekur þátt í alþjóðastarfi og heldur viðburði fyrir félagsfólk. 

Hvað kostar að ganga í Siðmennt?

Í raun ekkert. Þú gerir það einfaldlega með því að skrá þig í Siðmennt hjá Þjóðskrá, sem er öllum með íslenska kennitölu að kostnaðarlausu og tekur svona sirka þrjár mínútur. Ef þú vilt getur þú skráð þig líka á skrá okkar megin og greitt 5000 kr.- í árgjald, sem er líka valkostur sem hentar þeim sem einhverra hluta vegna vilja ekki vera á skrá hjá Þjóðskrá.

Og hvað græðir Siðmennt á því að ég skrái mig hjá Þjóðskrá?

Ef þú skráir þig fyrir 1. desember 2022 fær Siðmennt 1.060 kr. á mánuði allt árið 2023 úthlutað á grundvelli aðildar þinnar.

Í hvað fara svo öll þessi sóknargjöld?

Eins og áður hefur komið fram er starfsemi félagsins víðtæk. Félagsfólk fær dágóðan afslátt af athöfnum og útfarir félaga eru aðstandendum þeirra að kostnaðarlausu. Þá skiptir það okkur máli að allir íbúar landsins sitji við sama borð, svo aksturskostnaður athafnastjóra vegna athafnar í heimabyggð félaga er niðurgreiddur að fullu, auk þess að félagið stendur straum af kostnaði við táknmálstúlkun í athöfn ef eftir henni er óskað. Þá styrkir Siðmennt góðgerðafélög og aðra mikilvæga starfsemi, býður upp á alls konar viðburði, eins og málþing og veraldlegan valkost við þingsetningarathöfn Alþingis, og tekur þátt í alþjóðastarfi, enda er húmanismi alþjóðlega viðurkennd lífsskoðun. Stærstur hluti sóknargjaldanna fer þó í rekstur lítillar skrifstofu, með 3,1 stöðugildi, þar sem fram fer námsefnisgerð fyrir fermingarfræðslu, umsjón og bókanir athafna, stuðningur við fulltrúa félagsins (um 100 húmanistar sem sinna athöfnum og fermingarfræðslu af mikilli hugsjón) og almennur daglegur rekstur. 

Dæmi um félög og verkefni sem Siðmennt hefur styrkt síðustu ár

  • Ofbeldisforvarnarskólinn
  • Rótin, félag um velferð og lífsgæði kvenna
  • Bergið, stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk
  • Hinsegin félagsmiðstöðin
  • Hinsegin dagar
  • Söfnun Rauða krossins vegna náttúruhamfara á Seyðisfirði
  • Humanists at Risk
  • UNICEF
  • Stígamót
  • Pieta
  • Andrými
  • Listagjafir fyrir gistiskýli/konukot og fleiri athvörf fyrir jólin
Ókei, ég er til. Hvar skrái ég mig?

Það er best að nota rafræn skilríki eða Íslykil til að skrá sig einfaldlega á vef Þjóðskrár.