Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming byggir upp siðferðiskennd ungmenna án trúarafstöðu

FERMING barna er stór stund í lífi hverrar fjölskyldu. Æ stærri hópur ungmenna kýs að fermast án kirkjulegrar leiðsagnar. Siðmennt, félag um borgaralegar athafnir, hefur haldið utan um fræðslustundir fyrir ungmenni sem huga að borgaralegri fermingu. Fyrirlesarar koma víða að úr þjóðfélaginu og fjalla um hugtökin mannréttindi, frelsi og ábyrgð og taka fyrir atriði eins og ákvörðunartöku, gildi lífs, fjölskylduna, mannleg samskipti, tilfinningar, tjáningu, jafnrétti og forvarnir um vímuefni.


Foreldrar taka þátt í skipulagningu fermingarathafnarinnar. Athöfnin þykir mjög hátíðleg, falleg og persónuleg þar sem ungmenni eru virkir þátttakendur. Nú í ár eru 53 ungmenni sem munu fermast borgaralega í Reykjavík og á Akureyri. Þetta er umtalsverð aukning frá árinu í fyrra en borgaraleg ferming hófst fyrir 9 árum og nú þegar hafa 200 ungmenni látið ferma sig borgaralega.

Morgunblaðið ákvað að fjalla ekki um borgaralegar fermingar í ár í 40 blaðsíðna fermingarblaði og þótti foreldrum og aðstandendum fermingabarnanna það miður. Hér er verið að mismuna ungmennum stórlega vegna trúarlegrar afstöðu. Borgaraleg ferming er annar valkostur við kirkjulega fermingu og er ekki síður merkileg. Borgaraleg ferming hefur öðlast sess í íslenskri menningu og hana ber að virða sem merkilega stund í lífi ungmenna. Borgaraleg ferming verðskuldar heiðarlega umfjöllun í stærsta dagblaði landsmanna.

HOPE KNÚTSSON,
formaður Siðmenntar.

ÞYRÍ VALDIMARSDÓTTIR,
varaformaður Siðmenntar.

Morgunblaðið 25. mars, 1997

Til baka í yfirlit