Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Borgaraleg ferming 2010 – Ávarp Árna Reynis Guðmundssonar fermingarbarns

Eftirfarandi ræðu flutti Árni Reynir Guðmundsson fermingarbarn í fermingarathöfn sinni í Háskólabíói 18. apríl 2010.

Komið þið sæl

Mig langar að flytja stutt ávarp sem ég samdi með smá hjálp frá pabba mínum.

Ástæðan fyrir því að ég fermdist ekki kristilega er sú að ég trúi ekki öllu sem í biblíunni stendur.   Í stað þess að fylgja fjöldanum langaði mig miklu frekar að gera það sem ég taldi rétt og fermast borgaralega.

Þegar ég sagði afa mínum og ömmu frá þessu, gaf afi minn mér bókina Blekking og þekking eftir Níels Dungal. Bókin er mjög sniðug en hún deilir svolítið á biblíuna og það sem í henni stendur. Það er margt gott í þessari bók eins og það er margt gott í biblíunni. En báðar bækurnar eru kannski orðnar svolítið gamlar og þær eiga ekki endilega jafn vel við og þegar þær voru skrifaðar.

 

Það sem ég er að meina er að heimurinn þróaðist en bækurnar ekki. Við eigum ekki að trúa öllu sem við heyrum, sjáum eða lesum. Báðar bækurnar eru mjög mikið að segja hvað er rétt og hvað er rangt… Hver hefur rétt fyrir sér og hver hefur rangt fyrir sér. Mín skoðun er að við eigum að mynda okkur, okkar eigin skoðanir í þessum efnum. Það sem er rétt á einum tíma er ekki endilega rétt á öðrum. Það sem er rétt á einum stað á jörðinni er ekki endilega rétt á öðrum. Það sem er rétt fyrir einhvern er ekki endilega rétt fyrir annan.

Tökum dæmi.

Segjum að þú sért á leiðinni til Keflavíkur. Þá keyrir þú ekki í gegnum Hvalfjarðargöngin í áttina til Ísafjarðar. Ekki að það sé að eitthvað rangt að keyra í gegnum Hvalfjarðargöngin eða fara til Ísafjarðar … það mun bara ekki hjálpa þér ef þú ert á leiðinni til Keflavíkur.

Ég er á minni leið og vil sjálfur ákveða hvort ég ætla til Keflavíkur eða Ísafjarðar. Ef ég ákveð að fara til Keflavíkur, þá vil ég ekki láta einhvern segja mér að ég þurfi að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin af því það sé „rétt“, þó svo að það kunni að virka fyrir einhvern annan.

Það getur enginn sagt þér hvað er rétt og hvað er ekki rétt, þú ræður því að mestu leyti sjálfur, eftir því hver þú vilt vera, eða hvert þú ert að fara.

Þakka ykkur fyrir.

Til baka í yfirlit