Fara á efnissvæði
Til baka í yfirlit

Ágrip af sögu fermingar og kristni

Ef við viljum skilja hvað felst í helstu athöfnum kirkjunnar eins og messum, skírn, altarisgöngu og fermingu, verðum við að skilja hvað sakramenti eru og ef við viljum skilja hvað sakramenti eru verðum við að vita hvaða guðfræði skilur kristna kirkju frá öðrum trúfélögum.


Guðfræðin
Kristnin er eingyðistrú eins og fleiri trúarbrögð, t.d. gyðingdómur og islam (múhameðstrú). Þannig segja (múslímar) múhameðstrúarmenn: „Enginn er guð nema Allah“, en Allah er guð á arabísku (JPMóva á hebresku).

Það sem aðskilur kristnina frá öðrum slíkum trúarbrögðum er trúin á Jesúm Krist sem son guðs og trúin á fórnardauða Krists, sbr.: „Svo elskaði guð heiminn að hann gaf sinn einkason til að við gætum öðlast eilíft líf“. Í þessari setningu, sem allir hafa einhvern tíma heyrt, er mjög mikil guðfræði og verður hér stiklað á stóru til að útskýra hana.

1. Vegna þess að Eva beit í eplið í aldingarðinum Eden, fylgir manninum erfðasynd. Allir menn fæðast syndugir og öðlast því ekki eilíft líf með guði (eftir dauðann) nema fyrir sérstaka náð guðs.

2. Náð guðs frá erfðasyndinni fólst í því að eingetinn einkasonur hans, Jesús, prédikaði guðsorð meðal manna og dó síðan fórnardauða á krossinum. Með fórnardauðanum er átt við að Jesús dó fyrir allar syndir mannanna. Samkvæmt þessari trú eru allir þeir, sem eru skírðir (helgaðir) Jesú Kristi og sem trúa á það guðsorð sem hann prédikaði, lausir undan erfðasyndinni og fá því eilíft líf með guði.

Sakramentin
Orðið sakrament er komið úr latínu og merkir skýlaus eða heilög skuldbinding. („Sacro“ = helga; „mens“ = hugur, skilningur, dómur). Samkvæmt skilningi lúterstrúarmanna og flestra annrra mótmælenda, eru kristnu sakramentin tvö: Skírnin, að vera helgaður guði, og altarisgangan, að minnast fórnardauða Jesús með því að meðtaka hold hans og blóð og staðfesta á þann hátt trú sína á honum og fá fyrirgefningu syndanna fyrir hann. (Við altarisgönguna er holdið brauð og blóðið er vín).

Skírnin og altarisgangan eru þannig grundvöllurinn í öllu lútersku kirkjustarfi. Allt annað kirkjustarf er í eðli sínu aðeins undirbúningur eða eftirmáli þessa tvenns.

Í kaþólsku kirkjunni, svo og í „austrænu“ réttrúnaðarkirkjunni, eru sakramentin hins vegar sjö. Meðal þeirra eru ferming, gifting og síðasta smurning. Ferming hjá kaþólskum er þannig eðlisólík fermingu hjá lúterskum. Prestur skírði börnin en síðar kom biskup og blessaði þau til að staðfesta (á latínu confirmere) skírn prestsins. Kaþólsk börn eru venjulega fermd 8-12 ára.

Fermingin
Þegar Marteinn Lúter, sem upphaflega var kaþólskur munkur í Þýskalandi, f. 1483, d. 1546, sagði skilið við kaþólsku kirkjuna 1517 og ákvað í framhaldi af því að stofna sína eigin kirkjudeild, afnam hann marga gamla siði kirkjunnar með þeim rökum að ekkert væri sagt um þá í biblíunni og þeir væru því ekki guðs orð. Einn þessara siða var fermingin.

Á Íslandi var kaþólskur siður afnuminn og lúterskur innleiddur 1540-1550. Þá var hætt að ferma börn hér á landi. Fólk var skírt og síðan staðfesti það sjálft skírnina með því að ganga til altaris. Prestur gat sagt álit sitt á því á hvaða aldri fyrsta altarisgangan ætti að hefjast.

Á 18. öldinni bárust nýir trúarstraumar til Íslands: Nauðsynlegt var talið að allir gætu lesið biblíuna og til þess þurftu auðvitað allir að læra að lesa! Þetta var mikil nýjung í þá daga. Í landinu voru engir barnaskólar en hins vegar mjög margir prestar. Svo að Danakonungur, sem þá var einvaldur, ákvað að prestarnir skyldu sjá til þess að allir yrðu læsir. Þegar börnin voru orðin nógu þroskuð (14-16 ára), skyldu þau prófuð fyrir framan alla fullorðna í söfnuðinum og þá kæmi í ljós hver hefðu getað lesið guðsorð. Konungur skipaði að allir skyldu gangast undir þetta próf, sem var kallað ferming og það sem meira var: Enginn var talinn vera nógu þroskaður til að meðtaka hitt sakramentið, altarisgönguna, nema hann eða hún væri fermdur/fermd. Þetta gerðist á árunum 1736-1745.

Þannig hófst fermingin í lútersku kirkjunni. Hún er ekki sakramenti, hún var fullnaðarpróf en hvað er hún nú? Það stjórnar ekki lengur nokkur einvaldskonungur á Íslandi og kirkjan er ekki einvöld og þess vegna geta allir sem eru skírðir á lúterskan hátt gengið til altaris (á lúterskan hátt) hvort sem þeir eru fermdir eða ekki. Að ganga til altaris er að staðfesta skírnina. Þetta geta allir prestar staðfest.
Guðfræðiskýring lúterskra presta á kirkjulegri fermingu í dag er eitthvað á þessa leið: Þetta er góður, gamall kristinn siður. Þá læra börnin kristna trú og þau tengjast kirkjunni.

Í flestum löndum mótmælenda nú á dögum er ferming á undanhaldi. En ekki á Íslandi. Hvers vegna? Vafalaust ræður vanafesta hér miklu. Kannske eitthvað fleira?

Sjá má af öllu að það er ekki svo langt bil milli lúterskrar og borgaralegrar fermingar. Í hvorugu tilfellinu er um nokkuð sakramenti (heilaga skuldbindingu) að ræða.

Það er því á ýmsan hátt eðlilegt að nota orðið borgaraleg ferming um sérstaka athöfn við lok námskeiðs þar sem aðallega var fjallað um ýmis viðfangsefni þess stóra máls að hverfa frá barnæsku og verða fullorðin. Annars staðar á Norðurlöndum er þessi háttur hafður á og þannig hefur „borgerlig konfirmation“ tíðkast í Danmörku síðan árið 1914.

En mismunur era auðvitað umtalsverður á lúterskri fermingu og borgaralegri fermingu. Mest áberandi er auðvitað sú staðreynd að lútersk ferming er kirkjuleg og trúarleg, nokkuð sem borgaraleg athöfn er alls ekki. En að auki má benda á eftirfarandi atriði:

* Fyrir lúterska kristna fermingu fer nær eingöngu fram kennsla í lúterskri kristni. Fyrir borgaralega fermingu er kennsluefnið talsvert fjölbreyttara.

* Við lúterska kristna fermingu nú á dögum er barnið látið gefa loforð um hollustu við lúterska kristni og kirkju. Barnið er tengt ákveðinni stofnun (kirkjunni). En ekkert lífstíðarloforð er tekið við borgaralega fermingu og barnið tengist þá engri sérstakri stofnun.

Gísli Gunnarsson

Til baka í yfirlit