Fara á efnissvæði
Stefna framboðanna í kosningum 2021 sem snýr að trúfrelsi og veraldlegu samfélagi

Siðmennt sendi í síðustu viku eftirfarandi þrjár spurningar á öll framboð til komandi Alþingiskosninga. Frestur var gefin til að skila inn svörum til 8. september en svör framboðanna verða birt hér á vefnum eftir því sem þau berast. Afstaða félagsins til spurninganna kemur fram í útskýringartexta. 

Eftirfarandi framboð, hér í stafrófsröð, fengu spurningaranar sendar: Ábyrg framtíð, Framsóknarflokkurinn, Flokkur fólksins, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, Landsflokkurinn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistar, VG og Viðreisn.

SPURNINGARNAR: 

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?
Siðmennt telur að ríki og kirkja hafi enn ekki verið aðskilin og að fullur lagalegur, félagslegur og fjárhagslegur aðskilnaður sé nauðsynlegur liður í að ná fram raunverulegu trúfrelsi á Íslandi.


2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?
Af sögulegu samhengi er ljóst að skráning yfirvalda á trúarafstöðu þegna sinna er ekki aðeins óheppileg söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga, heldur getur slík gagnasöfnun beinlínis verið hættuleg, komist hún í rangar hendur. Íslenska ríkið safnar ennþá upplýsingum um trúfélagsskráningu þegna sinna. Þá eru ungabörn skráð sjálfkrafa í trúfélag foreldra sinna, án upplýsts samþykkis foreldra eða staðfestingu barnanna sjálfra á vilja þeirra til að heyra undir ákveðið trúfélag. Siðmennt telur að hið opinbera eigi ekki að halda skrár um trúar- og lífsskoðanir fólks, þá allra síst lífskoðanir og trúfélagsaðild barna.


3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?
Í sálgæsluteymi Landspítalans starfa átta prestar eða djáknar, sem veita sjúklingum og aðstandendum þeirra tilvistarráðgjöf og sálræna aðstoð. Engin veraldleg sálgæsla er í boði. Siðmennt telur að koma þurfi á aðgengi að veraldlegri sálgæslu fyrir bæði sjúklinga og aðstandendur, eða að öðrum kosti, ráða fulltrúa allra helstu lífsskoðunarfélaga.

Smelltu á flokkana til að lesa svörin þeirra við spurningunum:

Ábyrg framtíð

Engin svör borist

Framsóknarflokkurinn

Engin svör borist

Flokkur fólksins

Engin svör borist

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill aðskilnað ríkis og kirkju.

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Við höfum enga sérstaka stefnuskrá í trúmálum og tökum enga afstöðu í ef, gæti eða kannski... Við viljum aðskilnað ríkis og kirkju.

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Sjá fyrra svar hér að ofan.

Miðflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Miðflokkurinn er þeirrar skoðunar að virða verði kirkjujarðasamkomulagið sem gert var á sínum tíma. Trúfrelsi er á Íslandi og eru innan Miðflokksins fólk úr nær öllum trú og lífsskoðunarfélögum.

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Foreldrar fara með forræði barna sinna, það því í þeirra höndum eins og lögin eru núna að leiðrétta skráningu barna sinna. það er að sjálfsögðu umdeilanlegt að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar. Um viðkvæmar persónuupplýsingar gilda sérstök lög og ber að fara eftir þeim.

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Það er hverjum og einum í sjálfsvald sett hvort viðkomandi þiggur þjónustu kirkjunnar þjóna. Það skiptir höfuðmáli að þjónusta sálfræðinga sé í boði þeim sem ekki nýta sér slíka aðstoð.

Píratar

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Í stefnu Pírata kemur fram: „Stefna beri að fullum og algjörum aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnri stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Um Þjóðkirkjuna gildi sömu lög og reglur og um önnur
trúar- og lífsskoðunarfélög.“

 

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Flokkurinn hefur talað gegn skráningu trúarbragða, til dæmis Helgi Hrafn Gunnarsson í ræðu sinni 19. september 2019: https://www.althingi.is/altext/raeda/150/rad20190919T112204.html

Í frumvarpi sem við lögðum fram voru tvö markmið: „Annars vegar er lagt til að börn geti tekið ákvörðun varðandi aðild sína að skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sjálf á fjórtánda aldursári eða þegar þau eru orðin 13 ára í stað 16 ára eins og núna. Hins vegar er lagt til að lagaáskilnaður um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélög eða lífsskoðunarfélög verði felldur úr lögunum.“

Síðast en alls ekki síst má minna á varnaðarorð grunnstefnu Pírata, en þar stendur: „Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri.“

Eins og kemur fram bæði í orðræðu Pírata og Siðmenntar hafa þessar upplýsingar verið notaðar til þess að fremja sum myrkustu voðaverk mannkynssögunnar og því augljóst að skráningin er í miklu ósamræmi við þetta markmið, sér í lagi hin sjálfkrafa.

 

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Eins og kemur fram í fyrsta lið er stefna Pírata jöfn staða allra trúar- og lífsskoðunarfélaga. Það segir sig sjálft að fólk nýtur ekki jafnræðis í sálgæslu þegar hún er einungis aðgengileg þeim sem aðhyllast tiltekin trúarbrögð. Í allri þjónustu á vegum ríkisins þar sem trúarbrögð einstaklinga koma við sögu ber að tryggja að þjónustan sé jafn aðgengileg fólki sem aðhyllist ólík trúarbrögð, eða engin.

Samfylkingin

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Það hefur verið í stefnu flokksins allt frá 2015 að tryggja jafna stöðu allra trúar- og lífsskoðunarfélaga innan samfélagsins og gagnvart ríkinu.

Eftirfarandi var samþykkt á flokkstjórnarfundi 13. mars 2021:

„Samfylkingin stendur vörð um trúfrelsi og sannfæringarfrelsi og vill tryggja jafnræði allra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga gagnvart ríkisvaldinu. Það kallar á fullan lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju.“

 

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um skráningu á trúarafstöðu fólks og nýfæddra barna en það leiðir af þeirri stefnu sem flokkurinn hefur sett sér um fullan aðskilnað ríkis og kirkju að upplýst samþykki þurfi fyrir skráningu fólks í trú- og lífskoðunarfélög.

 

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?


Samfylkingin hefur ekki ályktað sérstaklega um aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir það ætti það að vera sjálfsagt að boðið sé upp á veraldlega sálgæslu, samhliða trúarlegri ef svo ber undir, til að tryggja jafnræði milli einstaklinga.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar og einn af meðflutningsmönnum um þingsályktun um aðskilnað ríkis og kirkju, sagði í ræðu sinni um málið að:

„... raunin á fyrri öldum þegar kirkjan hlutaðist til um stórt og smátt í lífi fólks og var alveg ótrúlega afskiptasöm um daglegt líf, hafði í rauninni reglur og bænir um nánast hverja stund sólarhringsins. Sú tíð er liðin, til allrar hamingju, og samfélag okkar er orðið veraldlegt. Líf okkar fer fram á veraldlegum forsendum. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að þetta er mikilvægt að varðveita og festa í sessi. Ég lít svo á að þetta verði ekki endanlega fest í sessi nema með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.“

Líf á veraldlegum forsendum og hugmyndir um jafnrétti, jafnræði og jöfnuð hljóta að fela í sér jafnt aðgengi að sálgæslu óháð trúar- eða lífsskoðunum.

Sjálfstæðisflokkurinn

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 2018 segir m.a.:

„Öllum er heimilt að aðhyllast og iðka hvaða trú sem er, skipta um trú eða hafna öllum trúarbrögðum. Trúfrelsi telst til almennra mannréttinda eins og málfrelsi og atvinnufrelsi… Frekari aðskilnað ríkis og kirkju þarf að framkvæma með farsæld þjóðarinnar að leiðarljósi. Ljúka þarf við endurskoðun á fjárhagslegu sambandi ríkis og kirkju.“

Í ræðu við setningu kirkjuþings 2019 sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, m.a.:

„Krafan um jafnræði milli ólíkra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga verður sífellt meira áberandi ... Sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist líka betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. Fleiri og fleiri aðhyllast þá skoðun að það sé ekki hlutverk ríkisins að fjármagna trúfélög eða „hygla einu trúfélagi á kostnað annarra“ eins og stundum heyrist sagt.“

Við sama tækifæri sagði Áslaug Arna ennfremur:

„Nýlegt samkomulag milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar felur í sér að hún verður ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun heldur mun hún fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði með farsæld þjóðarinnar og þjóðkirkjunnar að leiðarljósi.“

Í framsöguræðu með frumvarpi því sem nú er orðið að lögum nr. 77/2021 um þjóðkirkjuna sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, m.a. eftirfarandi:

„Tilefni frumvarpsins má meðal annars rekja til viðbótarsamnings um endurskoðun á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá árinu 1997, og samningi um nánari útfærslu á því frá árinu 1998, sem undirritaður var af fulltrúum íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 6. september 2019. Með viðbótarsamningnum var stefnt að því að einfalda fyrirkomulag á greiðslum ríkisins til þjóðkirkjunnar og auka jafnframt sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum og miðar hann að því að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og fjölda starfsmanna… Tilgangur þessa frumvarps er meðal annars að efla enn frekar sjálfstæði þjóðkirkjunnar og einfalda mjög reglur um hana með því að nema úr lögum fjölmörg ákvæði um starfsemi hennar, en fela þess í stað kirkjuþingi ákvörðunarvald um þau með setningu starfsreglna. Í raun eru mörg ákvæði sem varða gildandi lög nú þegar komin í starfsreglur sem kirkjuþing hefur sett, í samræmi við þróun laganna, en með enn meira sjálfstæði kirkjunnar er sú heimild víkkuð umtalsvert...“

 

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ályktað sérstaklega um þetta mál.

 

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að móta nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu á breiðum grunni í opinberum rekstri og einkarekstri með framtíðarsýn sem tekur til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar og þarfa fólks. Efla þarf sérstaklega forvarnir, endurhæfingu og geðheilbrigðisþjónustu. Með markvissri samþættingu og samvinnu opinberra og sjálfstætt starfandi aðila er hægt að bæta þjónustuna. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur einstaklinga til þjónustu tryggður. Með lögbundinni þjónustutryggingu verði fólk sett í fyrsta sæti. Sjúkratryggingar beri ábyrgð á því að sá sem þarf á þjónustu að halda fái hana innan ákveðins tíma – ásættanlegs biðtíma.

 

Sósíalistar

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Sósíalistaflokkur Íslands hefur á stefnuskrá sinni að lögfesta nýju stjórnarskrána og leggja breytingu á kirkjuskipan (formlegan aðskilnað ríkis og kirkju) í þjóðaratkvæði, sbr. 19. grein annars kafla. Í jafnréttisstefnu flokksins kemur eftirfarandi fram: "Sósíalistaflokkur Íslands tekur undir jafnræðisreglu nýju stjórnarskrárinnar og ítrekar mikilvægi þess að hún verði tekin upp. Félagsleg staða, kyn, uppruni, kynferði, kynverund, fátækt eða fötlun skal heldur ekki skerða réttindi fólks að nokkru leyti." Þetta á einnig við um trú einstaklingsins (sem felst að nokkru leyti í uppruna hans). Sósíalistar eru mótfallnir því að einum þjóðfélagshóp sé gert hærra undir höfði en öðrum.

 

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Sósíalistaflokkur Íslands hefur ekki gefið út tiltekna stefnu varðandi kirkjumál eða sóknargjöld en tekur undir eftirfarandi orð í 14. grein annars kafla nýju stjórnarskrárinnar: "Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana." Með öðrum orðum eru sósíalistar opnir fyrir viðleitni til að takmarka heimildir hins opinbera til að safna gögnum um lífsskoðanir en hafa ekki útfært það sérstaklega.

 

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Ef ég skil rétt að "veraldlegir sálgæslumöguleikar" vísi til stuðnings við andlega heilsu og geðheilbrigði þá er stefna flokksins skýr. Eftirfarandi texti er úr heilbrigðisstefnu flokksins:

"Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga með geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við þroskaröskunum eða geðröskunum því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna."

Hér er aðallega vísað til tilfella þar sem raskanir eru til staðar en vitaskuld á þetta við um almennan stuðning við geðheilsu og sáluhjálp við áföll. Það að prestar sjái alfarið um þessa þjónustu er til marks um að pottur sé brotinn í fjármögnun og stefnumörkun í heilbrigðiskerfinu - kerfi sem sósíalistar vilja endurreisa til að þjóna fólkinu í landinu, hverrar trúar sem einstaklingarnir eru.

Vinstri hreyfingin - grænt framboð

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Vinstri græn hafa stutt aðskilnað ríkis og kirkju frá árinu 2009 þegar ályktun þess efnis var samþykkt á landsfundi hreyfingarinnar.

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Skráning á trúar- og lífsskoðunum einstaklinga er í dag nýtt til að ákvarða hlutdeild trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í sóknargjöldum ríkisins. Í raun ætti Hagstofan að geta náð sambærilegum upplýsingum með öðrum ópersónugreinanlegum hætti – eins og t.d. með ítarlegum skoðanakönnunum. Vinstri græn hafa ekki tekið formlega afstöðu til þess hvernig trúarskráningum barna er háttað og sjálfsagt er að taka það til skoðunar. Trúarbrögð teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga. Það er fyrir öllu að slík skráning geti
ekki valdið því að trúarskoðanir fólks séu notaðar gegn því.


3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Það er stefna Vinstri grænna að heilbrigðiskerfið eigi að þjóna öllum óháð aðstæðum, búsetu, trúarskoðunum osfrv. Það er mikilvægt að allir hafi jafnan aðgang að sálgæslu sem þeim líður vel með að nálgast.

 

Viðreisn

1. Hver er stefna flokksins varðandi aðskilnað ríkis og kirkju?

Viðreisn leggur áherslu á trúfrelsi og að engu trú- eða lífsskoðunarfélagi verði gert hærra undir höfði en öðrum. Í stefnu Viðreisnar í innanríkismálum segir meðal annars: „Með breytingu á stjórnarskrá skal tryggja jafnræði meðal trúfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkið leggi af úthlutun sóknargjalda og hætti skráningu trúar- og lífsskoðana.“

Á liðnu kjörtímabili lögðu þingmenn Viðreisnar fram þingsályktunartillögu um að forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og dómsmálaráðherra yrði falið að leggja fram frumvörp annars vegar um fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju og hins vegar um jafnræði allra trú- og lífsskoðunarfélaga í samskiptum og skilgreindum verkefnum þeirra við og fyrir ríki, sveitarfélög og aðra opinbera aðila.

2. Hver er stefna flokksins varðandi skráningu á trúarafstöðu fólks, þá sér í lagi er varðar börn sem ekki geta gefið samþykki sitt fyrir trúfélagsaðild?

Viðreisn telur að ríkið eigi að leggja af skráningu trúar- og lífsskoðana og hætti að úthluta sóknargjöldum. Trú- og lífsskoðunarfélög eru jafn hæf til þess að halda utan um félagatal og innheimta félagsgjöld og önnur félög á Íslandi. Viðreisn hefur ekki tekið sérstaka afstöðu til skráningar barna í trú- og lífsskoðunarfélög en rétt er að hún fylgi sömu reglum og skráningar barna í annað félagsstarf, með upplýstri ákvörðun foreldra og í samræmi við vilja barns þegar það hefur aldur og þroska til að taka afstöðu til hennar.

3. Hver er stefna flokksins varðandi aðgengi ókristinna einstaklinga að veraldlegum sálgæslumöguleikum í heilbrigðiskerfinu?

Viðreisn berst fyrir valfrelsi og sveigjanleika í heilbrigðiskerfinu. Þjónustan á að vera einstaklingsmiðuð og henta þörfum fólks óháð bakgrunni eða lífsskoðunum. Undir það fellur meðal annars að ókristnir einstaklingar njóti sálgæslu í samræmi við lífsskoðanir sínar, hvort sem þær eru veraldlegar eða tengdar annarri trú en kristni.